Miði til Grænlands fyrir Ástu S. Fjeldsted

Frumburðinum Margréti Ragnheiði sýndar Landmannalaugar. Fyrr á árinu bættist svo …
Frumburðinum Margréti Ragnheiði sýndar Landmannalaugar. Fyrr á árinu bættist svo við barn númer tvö.

Vegna starfs síns má Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Viðskiptaráðs Íslands, reikna með að vera stöðugt á þeytingi. Svo er hún alltaf með annan fótinn í Japan þar sem Bolli Thoroddsen maðurinn hennar er að gera það gott. Barn númer tvö mætti á svæðið í byrjun þessa árs og því í nógu að snúast hjá þessari veraldarvönu fjölskyldu.

Þú færð einn flugmiða, hvert sem er í heiminum. Hvert er ferðinni heitið?

Takk kærlega fyrir miðann! Ég myndi ekki leita langt yfir skammt og heimsækja stærstu eyju heims áður en hún verður pökkuð af ferðamönnum. Eyjan sem umræðir er auðvitað Grænland sem er framandi á svo margan hátt en samt svo nálægt okkur landfræðilega. Grænland er á ákveðnum tímamótum og líklegt að sjálfstæðisbarátta og lykilstaðsetning þeirra á norðurslóðum muni breyta miklu fyrir landið – hvað þá ef Trump nær að kaupa það! Svo er ísinn að bráðna hraðar en maður gerir sér grein fyrir. Á einum degi bráðnar þar jafnmikið vatn og New York borg þarf á heilu ári! Held að tíminn sé núna til að sjá þessa mögnuðu eyju.

Hvar langar þig að gista?

Ósk mín væri að fá góða blöndu af „survival“ stemningu og lúxus. Til dæmis sé ég fyrir mér að fara spöl á hundasleða og gönguskíðum, þurfa að ferja draslið mitt og elda sjálf úti yfir eldstæði – en eiga svo inni kofagistingu við arineld með góðu rauðvínsglasi og mat ásamt heitu baði. Mér finnst skemmtilegustu ferðalögin oftast þau þar sem maður þarf að hafa aðeins fyrir hlutunum en liggur ekki bara eins og skata að rauðmagast.

Á fjallahjóli í Columbíu. Ástu þykir brýnt að hafa eithvað …
Á fjallahjóli í Columbíu. Ástu þykir brýnt að hafa eithvað fyrir stafni í ferðalaginu.

Hver er besta ferðaminningin þín?

Fyrsta skipti sem ég kom til Kyoto í Japan. Það var sumarið 2013. Bolli Thoroddsen, maðurinn minn, sem er alls ekki ókunnugur borginni, leiddi mig í gegnum þá ævintýraheima sem þar er að finna. Sáum hvítmálaðar geisur í fullum skrúða skjótast milli gamalla viðarhúsa þar sem inni ómuðu tónar frá samisen-gítar, koi-fiskar hringsóluðu í tjörnum við aldargömul hof þar sem þögnin og heilagleikinn var nánast yfirþyrmandi. Enduðum daginn á onsen baði og ljúffengum mat - shabu-shabu kjötrétti sem er einn sá besti sem ég hef smakkað. Eina sem fór með daginn var sinadrátturinn sem ég fékk í lok kvöldsins eftir að hafa setið á gólfinu með krosslagðar fætur á veitingastaðnum í þrjá tíma.

Skothelt ráð fyrir ferðalagið?

Það ráð sem hefur nýst mér er að plana ekki of mikið fyrirfram. Auðvitað þarf að tryggja öruggt húsnæði og mat þegar ferðast er með börn en annars er reynslan mín sú að skemmtilegustu ferðalögin eiga sér stað þegar maður kemst í ákveðið ferða-flæði og lætur hlutina bara gerast. Þannig hef ég kynnst best heimamönnum í þeim löndum sem ég hef farið til, fengið boð á guðdómlega fallega staði sem ekki eru á lista Lonely Planet og átt upplifanir sem ekki er hægt að skipuleggja fyrirfram.

Ásta hefur varið löngum stundum í Japan og lent í …
Ásta hefur varið löngum stundum í Japan og lent í ævintýrum á slóðum geisa og ævafornra hofa.

Hvaða fimm hlutum má alls ekki gleyma að pakka?

  1. Ég er klárlega á því að heyrnatól sem minnka umhverfishávaða (e. noise cancelling) eru mikil hjálp til að verða síður þreyttur í flugi og fá frið til þess að hvíla sig eða horfa á góða kvikmynd.
  2. Góðir skór sem leyfa manni að þramma endalaust án þess að fá blöðrur og sár geta bjargað vina- og hjónaböndum ef út í það er farið.
  3. Andlitskrem til að halda húðinni mjúkri á ferð og í flugi – annars vakna ég með frosið bros og skrjáfþurra húð.
  4. Kínverski silkisloppurinn sem hefur ferðast með mér víðar en nokkuð annað. Bráðnauðsynlegt að geta alltaf smeygt sér í góðan slopp að loknu sundi, baði eða bara með morgunkaffinu inni á herbergi ef því er að skipta.
  5. Að lokum þarf að pakka góðum skammti af kæruleysi til að ná að slaka á og njóta – eitthvað sem oft vill gleymast
Á mynd: Heyrnartól frá Sennheiser; Meng silkisloppur frá Net-a-porter.com; rakakrem …
Á mynd: Heyrnartól frá Sennheiser; Meng silkisloppur frá Net-a-porter.com; rakakrem frá Bioeffect; skór frá Valentino.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert