Nepalferðin skildi mest eftir sig

Sólveig í höfuðborg Nepal, Katmandú.
Sólveig í höfuðborg Nepal, Katmandú. Ljósmynd/Aðsend

Sólveig Ása Arnarsdóttir hefur ferðast vítt og breitt um heiminn. Þar má helst nefna Interrail um Evrópu og bakpokaferðalag um Asíu ásamt nokkrum styttri ferðum hér í Evrópu. Hún vinnur nú við að taka á móti ferðalöngum víða að úr heiminum í Geosea-sjóböðunum á Húsavík, en þar er hún búsett ásamt sambýlismanni sínum Davíð Þórólfssyni og dóttur þeirra Kristínu Hebu. 

Eftirminnilegasta ferðalagið?

„Við Davíð fórum í Interrail, mánaðarlangt lestaferðalag um Evrópu árið 2012, þá ferðuðumst við til 12 landa á 30 dögum. Við fórum hratt yfir en upplifðum og sáum alveg gríðarmargt á leiðinni og getum endalaust rifjað upp skemmtilegar sögur og atvik frá þeirri ferð.“

Á vespu á Koh-Tao.
Á vespu á Koh-Tao. Ljósmynd/Aðsend

Uppáhaldsborg í Evrópu?

„Mín uppáhaldsborg í Evrópu er London. Ég á svo mikið af góðum minningum þaðan til dæmis frá því að ég fór í enskuskóla í smábæ á Englandi og við enduðum á því að fara í borgarferð til London sem var algjörlega mögnuð upplifun fyrir 14 ára stelpu frá þá 2.000 manna bæ á Íslandi. Ég hef síðan þá farið þó nokkrum sinnum þangað og fer næst í lok nóvember en það er orðin hefð hjá okkur mæðgum að fara þangað í aðventuferð og ég hlakka strax mikið til en þar verður mikið hlegið, mikið drukkið og mikið borðað.“

Uppáhaldsstaður á Íslandi?

„Minn uppáhaldsstaður á Íslandi er Húsavík. Ég er og hef alltaf verið mikill Húsvíkingur og stolt af mínum heimabæ og ég fer ekki ofan af því að á góðum sumardegi er Húsavík fallegasti bær í heimi!“

Við köfun á Koh-Tao.
Við köfun á Koh-Tao. Ljósmynd/Aðsend

Besti maturinn á ferðalagi?

Ég er ferðalangur sem má flokka sem „foodie“ og ég er mjög matvönd og þoli ekki að fá vondan mat og fer því ávallt í heilmikla undirbúningsvinnu áður en ég fer utan og kemst að því hvar sé best að borða. Ég hef borðað ógrynni af góðum mat á erlendri grundu en fyrstu tveir staðirnir sem koma upp í hugann eru reyndar tveir mjög ólíkir staðir en þar eru veitingahúsið Donostia í London og næturmarkaðurinn nærri Kínahverfinu í Kúala Lúmpúr. Á þeim fyrrnefnda mæli ég með að bóka borð með góðum fyrirvara og vera svo ekkert að skoða matseðilinn sem er afar framandi heldur biðja um úrval af vinsælustu réttunum þeirra og panta gott rauðvín með og smakka allt með opnum hug. Á seinni staðnum ef þú finnur sjálfan þig á þeim slóðum þá verðurðu að smakka grillað lamb á teini og kínverskan hrísgrjónarétt með einhvers konar pylsum í. Vertu ekkert að spá í hvort þetta sé í alvöru lamb eða hvers konar kjöt sé í pylsunum heldur njóttu bara vel, ólýsanlega gott.

Á leið að skoða hrísgrjónaakra í Jatiluhwi á Balí.
Á leið að skoða hrísgrjónaakra í Jatiluhwi á Balí. Ljósmynd/Aðsend

Mesta menningarsjokkið?

„Nepal, í heild sinni!

Mér leist eiginlega ekkert á blikuna í aðfluginu til Katmandú, en allir vegir eru moldarvegir og húsin mörg hver líta út fyrir að vera að hruni komin. Í mjög svo skrautlegu bílferðinni að hostelinu okkar sáum við til dæmis konu standa úti á miðri götu að bursta í sér tennurnar og stráka sniffa lím úr plastpoka. Í Thamel, sem er aðalverslunargatan þeirra, stendur hermaður í fullum skrúða með hríðskotabyssu og það er rosalega mikið af rusli í öllum ám og skurðum í Katmandú.

Í fyrsta og eina skiptið sem við fengum magapest í ferðinni var í Nepal, en það var nú reyndar eftir að Davíð pantaði sér kjúklingarétt í vegasjoppu þannig að það skrifast kannski bara svolítið á hann. Ég mæli hiklaust með heimsókn til Nepals fyrir ævintýragjarna en maturinn, menningin, fólkið og landslagið er algjörlega magnað. Nepal er þriðja fátækasta ríki Asíu en við fundum aldrei nokkurn tímann fyrir neinu öðru en velvild íbúa í okkar garð og upplifðum okkur fullkomlega örugg allan tímann og ferðalagið þangað skildi langsamlega mest eftir sig.“

Kýr í Nagarkot í Nepal.
Kýr í Nagarkot í Nepal. Ljósmynd/Aðsend
Í Katmandú í Nepal.
Í Katmandú í Nepal. Ljósmynd/Aðsend

Hefur þú lent í einhverju hættulegu á ferðalagi í útlöndum?

„Ekki kannski beint einhverju hættulegu en einhverju sem hefði getað orðið hættulegt. Þar má til dæmis nefna það að kafa með hákarli í Indónesíu, átta klukkutíma langa rútuferð um einn hættulegasta veg veraldar á milli Katmandú og Pokhara í Nepal. Nú og svo vorum við Davíð í köfun í eitt skiptið í Taílandi og ég lít fyrir forvitnissakir á súrefnismælirinn hans til að bera saman við minn en þá átti hann 25 bör eftir af súrefni, en þumalputtareglan er að fara að huga að því að hafa sig upp úr þegar þú ert komin niður í 50 bör en honum fannst það bara svo vandræðalegt að vera búinn með svona mikið súrefni svona snemma og ætlaði bara aðeins að bíða og sjá til.“

Hvað er það fyndnasta sem þú hefur lent í á ferðalagi?

„Það mun vera þegar ég í sandölum var í hrókasamræðum við einhverja Svía og gætti ekki að því hvar ég steig; steig inn í magann á dauðri rotnandi rottu í Bangkok um það bil þremur mínútum áður en ég fór um borð í rútu þar sem ég átti eftir að dvelja í einhverja 10-12 tíma yfir nótt. Ég með akkúrat ekkert meðferðis til þess að þrífa á mér fótinn þar sem bakpokinn minn var fyrir neðan á að giska 300 aðra bakpoka og mátti gjöra svo vel að sætta mig við þessi örlög mín. Ég er enn þegar þetta er skrifað að furða mig á því að ég skuli ekki vera með einhvern sjúkdóm eftir þetta atvik.

Þetta er einmitt svona eitt af því sem er alveg rosalega fyndið í dag, en var akkúrat ekkert fyndið þegar það átti sér stað.“

Hvað er ómissandi í flugvélinni?

„Góður félagsskapur, heyrnartól, bók, krossgátublað, gott möns og vatn.“

Sólveig og Davíð eru miklir matarunnendur. Hér voru þau á …
Sólveig og Davíð eru miklir matarunnendur. Hér voru þau á næturmarkaðnum í Kínahverfinu í Kúala Lúmpúr. Ljósmynd/Aðsend
Sólveig og Davíð lærðu bæði að kafa djúpt og snorkla.
Sólveig og Davíð lærðu bæði að kafa djúpt og snorkla. Ljósmynd/Aðsend
Sanghklaburi í Taílandi.
Sanghklaburi í Taílandi. Ljósmynd/Aðsend
Riomaggiori á Ítalíu.
Riomaggiori á Ítalíu. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert