Hvernig er hægt að vera umhverfisvænn ferðalangur?

Það er hægt að vera umhverfisvænn á ferðalagi.
Það er hægt að vera umhverfisvænn á ferðalagi. mbl.is/Pexels

Ferðalög geta verið einstaklega óumhverfisvæn en við getum þó lagt okkar af mörkum til þess að eyðileggja ekki fallegu plánetuna okkar á meðan við skoðum allt það sem hún býður upp á. Hér eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga þegar maður fer á flakk. Þetta gildir bæði um ferðalög hér innanlands og erlendis. Flest skrefin eru einföld og kosta ekki mikið og því á færi allra þeirra sem leggja land undir fót. 

Slepptu hlaðborðum

Þótt hlaðborðið á hótelinu sé girnilegt þá er það ein helsta uppspretta matarsóunar. Pantaðu frekar af matseðlinum. Samkvæmt The New York Times eru 40% matarsóunar í Bandaríkjunum frá hótelum og veitingastöðum og eru hlaðborð meðal annars ástæðan. 

Komdu með þínar eigin hreinlætisvörur

Litla sjampóið og sápurnar á hótelum eru gríðarlega óumhverfisvæn. Þess vegna eru æ fleiri hótel farin að hafa stóra brúsa á veggjunum á hótelherbergjum. Pakkaðu þínu eigin til öryggis. Ef það eru sjampó og hárnæring á staðnum, taktu það þá heim og farðu með það í Konukot eða til sambærilegrar starfsemi. 

Vertu með alla miða rafrænt

Það sparar nokkur blöð að sleppa því að prenta alla miðana út. Sérstaklega ef þú ferðast oft. Passaðu bara að rafhlaðan sé full og þú sért með hleðslubanka meðferðis.

Ekki leigja bíl

Notaðu heldur almenningssamgöngur eða ferðastu með hjóli eða fótgangandi. Það er betra fyrir umhverfið og heilsuna. Ef þú neyðist til þess að leigja bíl, reyndu þá að velja rafbíl.

Skoðaðu hvað hótelið hefur lagt af mörkum

Það tekur ekki langan tíma að fletta hótelinu upp og skoða hvort það hafi lagt eitthvað af mörkum til umhverfismála.

Fylgdu merkingum

Við þekkjum þetta vel hér á Íslandi enda hafa margir staðir farið illa út úr því þegar ferðamenn fylgja ekki merkingum. Ef þú ert úti í náttúrunni í þjóðgörðum eða öðrum görðum, fylgdu þá merkingum og ekki fara þar sem ekki má fara. Það er betra fyrir umhverfið og miklu öruggara.

Slepptu einnota plasti

Taktu fjölnota vatnsflösku, nestisbox, hnífapör, rör og poka með þér í ferðalagið. Þá þarftu ekki að notast við einnota plast í ferðalaginu.

Það er hægt að leggja sitt af mörkum þó maður …
Það er hægt að leggja sitt af mörkum þó maður ferðist. mbl.is/Pexels
mbl.is