Hagstæðasta helgarferðin?

Unnur Pálmarsdóttir leikfimisdrottning og fararstjóri.
Unnur Pálmarsdóttir leikfimisdrottning og fararstjóri.

Unnur Pálmarsdóttir, mannauðsráðgjafi og hóptímakennari, er á leiðinni til Gdansk í Póllandi með hóp af fólki frá Úrvali Útsýn. Þótt Unnur lifi mjög heilsusamlegu lífi þá er þetta ekki heilsuferð í þeim skilningi heldur hefðbundin borgarferð. 

Unnur segir að Gdansk hafi mikla sérstöðu en hún er við ána Motlawa og er ein af elstu borgum Póllands. Verðlag í borginni er hagstætt.

„Í dag er hún þekkt sem mikil menningarborg en þar eru haldnar fjölmargar menningarhátíðir. Gdansk er fjórða stærsta borg landsins með um 480 þúsund íbúa. Ég þekki borgina mjög vel því maðurinn minn var að vinna þar við skipasmíði svo að við heimsóttum borgina oft. Í þessari ferð munum við skoða söfnin og menninguna og svo verður örugglega eitthvað verslað. Þetta er tilvalin ferð fyrir alla, vinkonur, mæðgur, hjón, feðga til að skjótast í skemmtilega helgarferð og fá smá lúxus fyrir jólin. Gdansk er fyrir alla sem hafa áhuga á fallegum borgum og skemmtilegum verslunum,“ segir Unnur og bætir við:

„Ég mæli sérstaklega með siglingu um kanalinn, gönguferðum um gamla miðbæinn og dagsferð til Sopot. Svo er alltaf gaman að skoða enn meira og því vil ég nefna Marlbork-kastalann sem er í um klukkustundar fjarlægð frá borginni. Þetta er stærsti kastali að flatarmáli í heiminum, byggður úr múrsteinum. Hann er á heimsminjaskrá Sameinuðu þjóðanna, er einstaklega fallegur og á sér mikla sögu. Það er flogið með Icelandair í morgunflugi og alls eru þetta fjórir dagar og þægilegir flugtímar. Við bjóðum upp á góð og vönduð hótel en einnig er hægt að tala við okkur um að bóka hótel ef það eru einhverjar sérstakar óskir þess efnis í Gdansk.“

Hvað hefur Gdansk upp á að bjóða sem aðrar borgir hafa ekki?

„Gamli miðbærinn hefur mikið af fallegum byggingum og þar sjáum við meðal annars krana sem áður fyrr var knúinn áfram af mannsafli. Þar er frábært verðlag, fjölbreytt veitinga- og kaffihús og eins og áður segir er menningin skemmtileg. Gdansk er hafnarborg og því gaman að skoða söfnin þar ásamt því að sigla um kanalinn framhjá skipasmíðastöðinni þar sem Lech Walesa-safnið er og stríðsminjasafnið. Einnig er boðið upp á dagsferð til Sopot þar sem byrjað er á að skoða Sofitel Grand Hotel. Það hótel á sér langa sögu. Skoða fallega umhverfið sem minnir á Frönsku rivíeríuna, ganga um á bryggjunni, fá sér drykk á flottum veitingastöðum, versla og njóta.“

Unnur er best þekkt sem leikfimisdrottning en hún hefur kennt landsmönnum leikfimi í meira en 20 ár. Spurð hvort þetta sé heilsuferð segir hún svo ekki vera.

„Í þetta sinn fer ég hefðbundna borgarferð þar sem fókusinn er að njóta, versla fyrir jólin og skoða mannlífið. En ég er alltaf með heilsuna í fyrirrúmi og af því geta farþegar í ferðinni notið góðs.“

Unnur er nýkomin heim frá Kanaríeyjum þar sem hún var fararstjóri í sérstakri heilsuferð og var gist á Maspalomas.

„Ég var að koma úr fyrstu heilsuferð minni með frábæran hóp þar sem við vorum á Maspalomas í viku að rækta líkama og sál. Þar vorum við að njóta og núllstilla okkur fyrir haustið. Ég bauð upp á jóga, pilates, dansfjör, tabata og fyrirlestra í ferðinni og við gistum á Vital Suits sem er glæsilegt hótel á Maspalomas.“

Unnur segir að verðlagið í Gdansk sé einstaklega hagstætt.

„Ég verð að segja að þetta er tilvalin borg til að kaupa jólagjafirnar. Verðlagið er lágt og mikil fjölbreytni í verslunum. Þar eru flottar verslunarmiðstöðvar og mjög stórt Outlet þar sem öll þekktustu vörumerkin eru til sölu. Svo ég mæli með að fara í þessa ferð ef fólk vill gera góð kaup.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert