Upplifun með léttu menningaráfalli

Ferðalangurinn með klettinn Uluru í bakgrunni.
Ferðalangurinn með klettinn Uluru í bakgrunni. Ljósmynd/Aðsend

Steinar Almarsson fór í tveggja vikna ferð til Ástralíu í ágúst síðastliðnum. Ferðalagið þangað var langt og strangt og tók um einn og hálfan sólarhring.

„Ég fór í tveggja vikna ferð til landsins niður undir í ágúst síðastliðnum. Eftir um eins og hálfs sólarhrings langa ferð í flugi ásamt bið á millilendingarflugvöllum tveimur á leiðinni var ég kominn til Eyjaálfu í fyrsta skipti. Ekkert vissi ég hvað biði mín, en þetta varð að upplifun með léttu menningaráfalli til að byrja með þar sem ég átti ei von á að sjá fjölda frumbyggja úti á götunum þar sem upphaf ferðar minnar varð. Það var í eyðimerkurbænum Alice Springs (samsett nafn af vatnsuppsprettunni sem gerir þennan eyðimerkurbæ byggilegan og eiginkonu fyrsta vatnsveitustjórans þar). Frá þessum bæ í norðurhluta landsins hófum við ferðina okkar úti í eyðimörkinni í átt að þéttbýlinu í suðurhluta landsins.

Ferðafélagarnir úti í eyðimörkinni.
Ferðafélagarnir úti í eyðimörkinni. Ljósmynd/Aðsend

Farið var í tíu daga ævintýrahópferð. Innan hópsins voru tveir heimamenn, sem í felst lærdómur: Ferðamenn geta jafnt verið heimamenn að ferðast um sitt eigið land frekar en einungis útlendingar, öfugt það sem oft haldið fram. Reynslan af ferðinni um Ástralíu kom mest af því að lifa í eyðimörk með talsverðan hita á daginn þrátt fyrir að ágústmánuður sé vetrarmánuður í Ástralíu. Skýringin á þessu er sú að norðurhluti Ástralíu er hitabeltissvæði með mun meiri hita yfir hásumartímann á suðurhveli jarðar, í desember og janúar. Hitt er að það þurfti að klæða sig vel fyrir kvöldin og fyrir hvíld okkar í tveggja manna smákofum.

Götumynd í eðalsteinabænum Coober Pedy.
Götumynd í eðalsteinabænum Coober Pedy. Ljósmynd/Aðsend

Í viðleitninni að halda á okkur hita stönsuðum við nokkur skipti á ferðalagi okkar á daginn við veginn til að safna eldviði til að kveikja í síðdegis á gististað til að halda á okkur hita í kulda myrkursins. Síðan var um morguninn daginn eftir, áður en lagt var af stað, aftur kveikt í bálkestinum til þess hita okkur upp fyrir daginn, sem hljómar mótsagnakennt þar sem margur hefði haldið að það væri nóg að bíða eftir því að hiti dagsins vermdi okkur. Það var þó eigi alveg hægt að treysta á að hitinn yrði til staðar. Heldur gæti vel verið skýjað, vindkæling og jafnvel úrkoma. Já, það getur snjóað í Ástralíu á veturna sem það einmitt gerði í suðurhluta landsins vikuna áður en ég kom þangað. Það verður kalt í suðurhluta landsins. Suðurskautslandið er jú „aðeins“ í þrjú þúsund kílómetra fjarlægð.

Neðanjarðargisting í Coober Pedy.
Neðanjarðargisting í Coober Pedy. Ljósmynd/Aðsend

Uluru, stóri og heilagi kletturinn í miðju landinu, var fyrsti áfangastaður okkar. Við fengum alla söguna og dagóða fræðslu um frumbyggjamenninguna auk þess að skoða þennan stórkostlega stað. Í allri fræðslunni fólst að vita hvers vegna kletturinn heitir eigi lengur Ayer's Rock eftir að hann var gefinn aftur til frumbyggjanna fyrir þrjátíu og fjórum árum. Heimsókn í samfélag frumbyggja var innifalin þar sem okkur var uppálagt að kaupa muni af þeim, sem ég hafði tekið eftir að þeir gera mikið af í landinu, sérstaklega í þéttbýli. Ég hafði einmitt séð það í Alice Springs daginn áður en lagt var af stað í ferðina. Keypti ég af frumbyggjahópnum sem við heimsóttum þekktan hlut sem kallaður er pelle á tungumáli þeirra, alþjóðlega þekkt sem búmerang.

Tjaldstæði langt inni í landi.
Tjaldstæði langt inni í landi. Ljósmynd/Aðsend

Þetta víðfræga heiti á þessu veiðivopni er á tungumáli annars hóps frumbyggja Ástralíu og hefur af óljósri ástæðu orðið þekkt um heim allan. Hvað varðar frumbyggjana eru um það bil sjö hundruð frumbyggjahópar í Ástralíu, hver með sitt tungumál og er ástand þeirra allt frá því að vera afleitt yfir í að vera nokkuð gott. Sumir búa í bæjum og borgum, blandaðir öðrum íbúum landsins. Það er þess vegna engin óvanaleg sjón að sjá þá í þéttbýli klædda eins og Evrópubúa talandi sitt eigið tungumál. Aðrir eru á verndarsvæðum eins og hópurinn sem við heimsóttum.

Ferðarútan varin gegn villidýrum á veginum.
Ferðarútan varin gegn villidýrum á veginum. Ljósmynd/Aðsend

Annar minnisstæður áfangastaður í ferðinni var eðalsteinabærinn Coober Pedy þar sem sjötíu af hundraði íbúa búa neðanjarðar vegna ofurhita á daginn og ískulda á nóttinni. Nafn bæjarins kemur úr tungumáli frumbyggja svæðisins og marking það „Hellir hvíta mannsins“ og er mjög viðeigandi. Þá einu nótt sem við dvöldum þar vorum við neðanjarðar í byrgi eftir að hafa þolað hita dagsins eftir að hafa skoðað eðalsteinasafn, kíkt inn í gamlar eðalsteinanámur og farið í heimsókn í kengúraathvarf í bænum. Lítið er hægt að segja annað en að sjón er sögu ríkari í þessum auðuga smábæ þar sem lítið ber á auðnum á götum úti og þar býr fólk saman af mismunandi uppruna frumbyggja og innflytjenda.

Ástralska útgáfan af Dyrhólaey, London Bridge á suðurströnd Ástralíu.
Ástralska útgáfan af Dyrhólaey, London Bridge á suðurströnd Ástralíu. Ljósmynd/Aðsend

Mikil var sú upplifun að sjá kengúrur og þá aðallega í náttúrunni, en þær er raunar einnig að finna innan marka sumra sumra bæja. Auk þess sáum við kóaladýr klifrandi í trjám skóglendisins í suðurhluta Ástralíu. Það er sem sagt margt að sækja til Ástralíu og sjá þar og er ég reiðubúinn til að fara aftur til þessa lands langt í burtu þar sem hálfur mánuður er of lítill tími fyrir þetta risastóra land.

Borgarmynd af Melbourne, næststærstu borg Ástralíu, þar sem nóg er …
Borgarmynd af Melbourne, næststærstu borg Ástralíu, þar sem nóg er um að vera. Ljósmynd/Aðsend

Að lokum eru hér nokkur fróðleikskorn: Ástralar telja yfirleitt að allt undir þrjátíu gráðum á selsíus sé enginn sérstakur hiti; metrakerfið er notað í landinu niður undir; sjötíu og fimm til áttatíu prósent Ástralíu er eyðimörk; kengúrur ferðast mest á næturnar sem veldur því að mikið er um að þær séu margar drepnar fyrir slysni af trukkum með stálgrindur að framan sem eru að keyra um óbyggðir Ástralíu að nóttu til; í Ástralíu má sjá villidýr í byggð eins og hver tamin dýr; Ástralía er ævintýraland fyrir fuglaskoðara; öll akuryrkja Ástralíu er komin af innfluttum jurtum; og að endingu um tungumál: „Kengúra“ þýðir „Hvað sagði maðurinn?“ á einu tungumáli frumbyggja Ástralíu þar sem segir sagan að einn frumbygginn hafi spurt vin sinn hvað Evrópumaðurinn hafi sagt þegar hann spurði þá hvaða dýr þetta væri; og að endingu: Orðið „Takk“ á tungumáli frumbyggjahópsins sem við heimsóttum í ferð okkar er „Paraman“, sem er mikilvægasta orð í hverju tungumáli.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert