Hvað þarf vegabréfið að gilda lengi?

Er vegabréfið þitt í gildi?
Er vegabréfið þitt í gildi? mbl.is/Golli

Margir hafa fallið í þá gryfju að uppgötva allt of seint að vegabréfið þeirra sé runnið út eða ekki sé langt í að það renni út, jafnvel á flugvellinum þegar halda á í frí. 

Það má auðveldlega komast hjá því að lenda í þessu með því að athuga gildistímann á vegabréfinu sínu, til dæmis þegar ferðin er bókuð. Þá vaknar kannski sú spurning, hvað þarf vegabréfið að gilda langt fram í tímann?

Þótt vegabréfið sé enn gilt, til dæmis í tvo mánuði fram í tímann, er það ekki alltaf nóg. Almennt er reglan sú að vegabréfið þurfi að vera gilt í það minnsta 3 mánuði fram í tímann. Sú regla gildir ekki þegar ferðast er frá Íslandi til Norðurlandanna. Hins vegar þarf vegabréfið til dæmis að vera gilt 6 mánuði fram í tímann þegar ferðast er til Bandaríkjanna. Sé fólk að ferðast utan Evrópska efnahagssvæðisins er best að passa að vegabréfið gildi að minnsta kosti 6 mánuði fram í tímann.

Sé vegabréfið ekki gilt 3-6 mánuði fram í tímann getur þér verið neitað um far. Það getur verið mismunandi við hvaða dag er miðað, en best er að miða við þann dag sem þú yfirgefur landið sem þú heimsóttir. Það þýðir að ef þú ert að fara til Spánar í þrjár vikur, þá þarf vegabréfið að gilda í það minnsta 3 mánuði frá því að þú ferð heim frá Spáni. 

Innan Shcengen-ríkjanna er einnig sú regla að vegabréf þurfa að vera gefin út á síðastliðnum 10 árum, en fæstir ættu að lenda í vandræðum með það þar sem vegabréf eru gefin út til tíu ára og fimm ára fyrir börn undir 18 ára aldri.

Uppgötvist það aðeins nokkrum dögum fyrir brottför að vegabréfið sé ekki með nógu langan gildistíma er hægt að kippa því í liðinn hjá sýslumanni og óska um hraðafgreiðslu. Útgáfa venjulegra vegabréfa fyrir fullorðinn einstakling eru 13 þúsund krónur og 5.600 krónur fyrir börn, aldraða og öryrkja. Hraðafgreiðsla fyrir fullorðna kosta 26 þúsund og 11 þúsund fyrir börn aldraða og öryrkja.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert