Gist hjá teiknimyndapersónum

Aðdáendur Cartoon Network-sjónvarpsstöðvarinnar fá eitthvað fyrir sinn snúð á nýja …
Aðdáendur Cartoon Network-sjónvarpsstöðvarinnar fá eitthvað fyrir sinn snúð á nýja Cartoon Network-hótelinu í Bandaríkjunum. Ljósmynd/cartoonnetworkhotel.com

Aðdáendur bandarísku sjónvarpsstöðvarinnar Cartoon Network geta fljótlega gist hjá aðal teiknimyndapersónum stöðvarinnar. Fígúrurnar eru nefnilega komnar í vinnu á glænýju hóteli í Pensilvaníu.

Cartoon Network-hótelið mun opna dyr sínar í byrjun næsta árs og bíða margir aðdáendur sjónvarpsstöðvarinnar spenntir eftir opnuninni. Hótelið er staðsett í göngufjarlægð frá skemmtigarðinum Dutch Wonderland. Hótelið hefur þó ekki minna aðdráttarafl því þar dúkka þekktustu teiknimyndapersónur stöðvarinnar upp úti um allt, til að mynda í lyftunni og eins er látið er líta út fyrir að þær vinni í eldhúsinu við uppvask og matseld.  

Á hótelinu er stór og góð sundlaug sem gaman er að busla í, leiktækjasalur, útileiksvæði og fleira skemmtilegt. Hægt verður að snæða með nokkrum af teiknimyndapersónum á veitingastað hótelsins en heildarupplifun gesta miðar að því að þeim líði eins og þeir séu staddir í teiknimynd. Að sjálfsögðu er svo hægt að horfa á teiknimyndir sjónvarpsstöðvarinnar, það eru til dæmis sjónvarpsskjáir í hverri einustu barnakoju á hótelherbergjunum.

Gestir geta að sjálfsögðu horft á teiknimyndir á hótelherbergjunum. Takið …
Gestir geta að sjálfsögðu horft á teiknimyndir á hótelherbergjunum. Takið eftir skjánum í barnakojunum. Ljósmynd/cartoonnetworkhotel.com
mbl.is