Ljóstraði upp um ferðaleyndarmál stjarnanna

Chrissy Teigen og eiginmaður hennar John Legend hafa vafalaust nýtt …
Chrissy Teigen og eiginmaður hennar John Legend hafa vafalaust nýtt sér þessa þjónustu. AFP

Fyrirsætan Chrissy Teigen sagði frá leyndarmáli fræga fólksins á Twitter fyrr í vikunni. Teigen svaraði spurningum á twittersíðu sinni það kvöldið og var meðal annars spurð hvernig frægt fólk ferðaðist. 

„Hvernig fer frægt fólk að því að komast um borð í flugvélar? Eruð þið bara að hlaupa í gegnum flugvöllinn að reyna að komast að hliðinu í tæka tíð?“ spurði einn twitterfylgjenda hennar. 

„Það er sérhús um mílu frá flugvellinum sem maður borgar fyrir að fá aðgang að. Þar fer maður gegnum sömu öryggisgæslu í einrúmi og er keyrður upp að vélinni. Ég veit. Ég veit,“ skrifaði Teigen í svari sínu. 

Þetta er augljóslega ekki tilfellið alls staðar í heiminum en þessi þjónusta er raunverulega í boði í borg stjarnanna, Los Angeles í Bandaríkjunum. 

Á flugvellinum LAX í Los Angeles er starfrækt fyrirtækið The Private Suite. Það er eins konar lúxushluti flugvallarins þar sem engir blaðaljósmyndarar eru leyfðir. The Private Suite var opnað árið 2017 og býður þeim þjónustu sem eru nógu frægir og efnaðir. 

Á vefsíðu The Private Suite stendur: „Vanalega tekur það manneskju um 2.200 skref að fara úr bílnum og setjast í flugsætið sitt. Fyrir meðlimi í The Private Suite eru það aðeins 70 skref.“

Í stað þess að bíða í löngum röðum í öryggisleit og eftir að komast um borð geta meðlimir þjónustunnar eytt tíma fyrir flugið sitt í einkasvítum á flugvellinum. Í svítunum eru, samkvæmt vefsíðunni, baðherbergi, einkaþjónusta, rúm og útsýni yfir flugbrautina. 

Þessi þjónusta er síður en svo ódýr. Að vera meðlimur í The Private Suite kostar tæpar 550 þúsund íslenskar krónur á ári. Þar að auki þarf að greiða fyrir hverja ferð sem er farin. Þjónusta fyrir innanlandsflug kostar um 330 þúsund krónur og utanlands 365 þúsund. 

Það þarf þó ekki að vera meðlimur í klúbbnum en þá er gjaldið hærra; 425 þúsund fyrir innanlandsflug og 485 þúsund fyrir millilandaflug. Meðlimir í klúbbnum mega taka þrjá vini frítt með sér en aðrir mega taka tvo vini með sér. 

mbl.is