Kvartaði í utanríkisráðuneytinu yfir vondum mat

Þetta er ekki umræddur flugvélamatur.
Þetta er ekki umræddur flugvélamatur. mbl.is/Sverrir

Breskur karlmaður hringdi í utanríkisráðuneyti Bretlands til þess að kvarta yfir vondum mat sem hann fékk um borð í flugvél á síðasta ári. Hann óskaði eftir því við ráðuneytið að fyrir heimför yrði hann færður yfir í flug með öðru flugfélagi. 

Breska utanríkisráðuneytið greindi frá þessu í árlegri yfirferð sinni. Ráðuneytinu bárust 330 þúsund símtöl á árinu 2019. Meðal fleiri undarlegra erinda var þegar maður hringdi frá Nígeríu og óskaði eftir að fá að tala við rapparann 50 Cent. 

Annar maður hringdi og óskaði eftir breskum ríkisborgararétti fyrir son sinn, sem hann sagði að hefði verið getinn í Bretlandi. Þá höfðu kínversk hjón samband við utanríkisráðuneytið og báðu um staðfestingu á því að sæði sem þau keyptu í sæðisbanka væri raunverulega breskt. 

Auk þess hringdi maður til að athuga hvort ráðuneytið gæti athugað hvort hann hefði gleymt heyrnartólum á hótelherbergi í Frakklandi. Kona hringdi frá Svíþjóð til þess að spyrja hvaða fötum hún ætti að klæðast í heimsókn til Windsor-kastala.

mbl.is