Ódýrast að fara til New York í janúar og febrúar

New York er ódýrari í janúar og febrúar.
New York er ódýrari í janúar og febrúar. Ljósmynd/Thinkstock

Það getur verið ansi dýrt að fara til New York-borgar í Bandaríkjunum. Flugfargjöld, hótelgisting sem og matur eru ansi dýr í borginni. Því er hagstæðast að fara til borgarinnar þegar það er aðeins minna um að vera þar og það er í janúar og febrúar. 

Dýrast er að fara til New York í lok nóvember og í desember. Yfir sumarið fyllist svo borgin af ferðamönnum. Það er þó alltaf fjölmennt í borginni og því aldrei hægt að sleppa við mannmergð. 

Það er hægt að gera fullt af rándýrum hlutum í borginni en það er líka hægt að finna það sem kostar aðeins minna. Til dæmis er fjöldinn allur af leiðsögutúrum um borgina sem kosta lítið. 

Ef þú ferð á milli 21. janúar og 9. febrúar verður þú í borginni á meðan Veitingastaða-vikan er, Broadway-vikan og Must-See vikan. Þá gætirðu nælt þér í miða á Broadway á hálfvirði, tvo fyrir einn á söfn og í skoðunarferðir. Tæplega 350 veitingastaðir í borginni bjóða svo upp á hátíðarmatseðil sem er ódýrari. 

Vefsíðan nycgo.com heldur utan um allar upplýsingar sem ferðamenn í New York þurfa á að halda. Þar inni má meðal annars finna flipa sem tekur saman allt það sem er að gerast í borginni sem er ókeypis. 

mbl.is