Breytast hótel eftir kórónuveiru?

Le Fouquet's-hótelið í París.
Le Fouquet's-hótelið í París. AFP

Leiða má líkur að þvi að hótelin fari í auknum mæli að laga sig að auknum kröfum um hreinlæti og persónulegt rými gesta eftir kórónufaraldurinn. 

Sérfræðingar í hótelgeiranum segja það mikilvægt að hótelin lagi sig að tíðarandanum og aðstæðum hverju sinni. Allar breytingar verða því að vera úthugsaðar og afturkræfar en samt nægar til þess að skapa traust meðal hótelgesta. Þetta kemur fram í úttekt Condé Nast Traveler.

Rafræn innritun og borðað á herbergjum

Gestaanddyri hótela hafa löngum þótt hjarta staðarins en nú má reikna með breyttum háttum. Líklegt þykir að fleiri hótel reiði sig á rafræna innritun sem ekki krefst starfsfólks. Lyklar fást þá ekki afhentir heldur verður hægt að hlaða þeim niður með þar til gerðu snjallforriti. Þá verður meiri áhersla lögð á að fólk borði inni á herbergjum sínum frekar en á þéttsetnum veitingastöðum. 

Þá hafa sum hótel sagst ætla að hafa snertilausan hitamæli, þannig að allir sem komi inn í hótelbygginguna sé örugglega hitalausir, hvort sem um er að ræða starfsfólk eða gesti.

Hreinlæti selur

Eftir Covid-19-faraldurinn munu gestir gera meiri kröfur um hreinlæti en áður. Hótel voru almennt lítið að tjá sig um hreinlæti en nú hefur það breyst. Þau stæra sig af þeim leiðum sem þau fara til þess að tryggja ítrasta hreinlæti. Sum hótel hafa tekið upp á því að halda herbergjum auðum í fjóra daga á milli gesta og Hilton-keðjan innsiglar herbergin eftir hver þrif, til þess að tryggja að enginn hafi farið inn í það frá því það var síðast þrifið. Þá hefur Marriot-keðjan skyldað ræstifólk sitt til þess að sótthreinsa hendur á tuttugu mínútna fresti. Auk þess sem  meira verður af aðföngum inni á hótelherbergjum til þess að lágmarka umgang og samskipti við starfsfólk.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert