Sigldi yfir Atlantshafið í heimsfaraldrinum

Argentínski siglingamaðurinn Juan Manuel Ballestero sigldi yfir Atlantshafið frá Portúgal til Argentínu í heimsfaraldrinum. Ballestero ætlaði að fara að heimsækja aldraða foreldra sína en vegna kórónuveirunnar gat hann ekki flogið heim. Hann ákvað því að fara sjóleiðina. 

Ballestero sigldi úr höfn í Portúgal 24. mars síðastliðinn og vonaðist til þess að koma í höfn í Mar Del Plata fyrir 90 ára afmæli föður síns 15. maí. Vegna erfiðra veðurskilyrða tókst það ekki en hann komst þó í höfn í síðustu viku. 

Við komuna til Argentínu fór hann í skimun fyrir veirunni og greindist ekki með hana svo hann gat faðmað aldraða foreldra sína. 

„Ég er búinn að ná því markmiði sem ég hef unnið að síðastliðna þrjá mánuði. Þetta snerist aðeins um eitt: að vera með fjölskyldunni minni. Þess vegna kom ég,“ sagði Ballestero í viðtali. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert