Sparnaðarráð fyrir fjölskyldur á ferðalagi

Ásdís Ásgeirsdóttir

Stundum er um það rætt hversu dýrt það er að ferðast innanlands og það sé einfaldara að fara bara til útlanda. Margar greinar hafa verið teknar saman um kostnaðinn við að keyra hringinn, gista á dýrum hótelum, greiða fyrir alls kyns afþreyingu í dýrari kantinum og borða á veitingastöðum í öll mál.

Í slíkum tilfellum getur kostnaðurinn auðveldlega rokið upp. Flest er frekar dýrt á Íslandi. Það er dýrt að búa hérlendis ef miðað er við önnur lönd og ferðalög þar ekki undanskilin. En það er ýmislegt hægt gera til að  lækka kostnað.

Dóra Magnúsdóttir er fimm barna móðir sem hefur mikla reynslu af því að þvælast með fjölskyldu sína um fjöll og firnindi, bæði hérlendis og erlendis árið um kring. Hún er lagin að finna leiðir til að halda kostnaði í lágmarki og gefur hér nokkur sparnaðarráð fyrir fjölskyldur á ferðalagi.

Náttstaðir

Gistingin er yfirleitt dýrasti staki kostnaðurinn á ferðalögum. Fjölmargir gististaðir og hótelkeðjur bjóða upp á sérlega hagstæð verð í sumar. Í sumum tilfellum eru verðin og tilboðin aðgengileg á vefsíðum, einkum hjá stærri aðilum svo sem hótelkeðjum, en í öðrum tilfellum eru þau ekki auðfinnanleg, það á einkum við um gistihúsin. Þá er bara taka upp símann og heyra meira. Verðin sem eru í boði koma oft á óvart.
Fyrir fjölskyldur á ferð sem vilja spara skiptir mestu máli að sleppa með eitt herbergi þegar bókað er herbergi. Mín reynsla er sú að flestir gististaðir, bæði gistiheimili og hótel, hafa verið lipur með að lána aukadýnu(r) á gólf svo fjölskyldur geti verið saman og til þess að hjálpa fólki við að halda kostnaði niðri. Eða leyfa fjölskyldum að taka með aukadýnu ef þau geta bara skaffað eina aukadýnu. Sem dæmi höfum við fengið að vera fimm á þriggja manna herbergi. Það var vissulega lítið gólfpláss en aðstaðan í tómstundaherbergi hótelsins var frábær og við notuðum herbergið bara til að gista. Ef ferðast er í tjaldi þá getur verið frábært að brjóta útileguna upp með smá lúxus á hótelum eða gistiheimilum inn á milli.

  • Næstum allt launafólk á Íslandi er í stéttarfélagi og fjölmörg stéttarfélög bjóða upp á afsláttarmiða eða ýmis afsláttarkjör. Skoðið vel allt sem ykkar stéttarfélag býður upp á. Úrvalið er oft ágætt, sérstaklega ef hjón eða par eru í tveimur félögum.
  • Tjald/fellihýsi/hjólhýsi er ódýrasti kosturinn ef fólk á slíkar græjur, getur leigt þær eða fengið lánaðar hjá vinum eða fjölskyldu. Ódýrustu fjölskyldutjöldin sem hægt er að kaupa eru alveg ágæt yfir hásumarið en þegar rætt er um tjaldbúnað er verðbilið mjög breitt og ekki raunhæft að bera saman ódýr tjöld og hjólhýsi. Ef fjölskyldur eru hins vegar komnar með gistigræju, hver sem hún kann að vera, og leita leiða til að lágmarka kostnað er gott að vera búin/n að skanna verðskrá tjaldstæða. Eitt ágætt lykilatriði fyrir fjölskyldur er að leita tjaldstæða þar sem er ókeypis fyrir börn en slík svæði eru fjölmörg. Tjaldsvæði sveitarfélaga bjóða oft hagstæð verð og góða aðstöðu.

Matur og nesti

Matur og hollt nesti er næstmikilvægasta atriðið til að lágmarka kostnað. Það þarf væntanlega ekki að segja neinum að gott nesti alla daga er málið. En nesti er ekki bara nesti. Nokkur atriði sem vert er að hafa í huga varðandi gott nesti alla daga:

  • Versla alltaf í lágvöruverslunum. Forðast bensínstöðvar og sjoppur til að kaupa nesti.
  • Vera með góðar hirslur (s.s. kælibox) og útbúa nestið hvern dag þannig að það sé girnilegt, snyrtilegt og aðgengilegt.
  • Hafa nestið fjölbreytt, hollt og eitthvað gott fyrir alla í fjölskyldunni, þannig að fólk detti ekki í sjoppufæði af því nestið er svo óspennandi.
  • Muna eftir margnota flöskum (notaðar gosflöskur eru margnota) fyrir vatn og djús. Það er ódýrara en að kaupa tilbúinn djús eða vatn, betra fyrir umhverfið og tekur minna pláss.
  • Flestar fjölskyldur velja að fara einhvern tíma út að borða á ferðalögum og þá er mikilvægt að velja staðinn vel og vera búin að skipuleggja hversu oft fjölskyldan leyfir sér slíkan lúxus. Ekki fara gólandi svangur inn á næsta stað. Til að halda kostnaði í lágmarki er best að skoða barnamatseðla á netinu áður en staður er valinn. Margir staðir erum með ókeypis mat fyrir börn undir sex ára og afar hagstæð verð fyrir börn 12 ára og yngri.
  • Sum hótel bjóða upp á morgunmat á hagstæðu verði. Til dæmis býður Hótel Edda ókeypis í morgunmat fyrir börn undir 12 ára þegar fullorðnir fylgja með og þegar bókað er gegnum netið og fleiri hótel bjóða sanngjörn kjör á morgunmat. Það getur verið alger lúxus að splæsa á morgunmat á fjölskylduna í byrjun dags, ekki síst þegar veðrið er ekki að spila með.

Ókeypis afþreying

  • Íslensk náttúra er ein risastór afþreying. Þótt það sé skemmtilegt að fara til dæmis í alls kyns nýjar náttúrulaugar eða tilbúna afþreyingu þá er það ekki nauðsynlegt til að njóta frísins. Um leið er ágætt að hafa í huga að flest okkar sem höfum farið í Tívolí í Köben með börnin höfum ekki hikað við að borga ca. 30 þúsund fyrir ævintýralegan dag og dagpassa í skemmtigörðum erlendis og það gæti vel hentað að prófa eitthvað skemmtilegt hérlendis sem hentar allri fjölskyldunni. Nú er lag, því flest fyrirtæki bjóða hagstæðari kjör en vanalega.
  • Ísland er með fjöll og hóla af öllum stærðum og gerðum. Hólar, gígar og fell eru risafjöll sem gaman er að sigra fyrir lítið fólk.
  • Strendur víðs vegar um landið eru dásamlegur leikvöllur. Það er gaman fyrir litlar tær að leika sér í flæðarmálinu og líka vaða í litlum ám og lækjum. Börn hafa oft ótrúlega gaman af einföldum hlutum.
  • Álfasteinar og -byggðir víða um land eru geyma magnaðar sögur sem höfða sterkt til barna. Margar þessarar sagna eru á netinu. Þau sem eru vel að sér í Íslendingasögum geta líka sagt frá bardögum og öðrum dramatískum viðburðum frá landnámsöld.
  • Víða er hægt að veiða í vötnum, svo sem með veiðikortinu (sem fæst hjá mörgum stéttarfélögum). Einnig eru hægt að dorga við hafnir margra bæja án þess það kosti neitt.
  • Munið eftir boltum og öðru útileikdóti
  • Víða við skóla landsins eru frábær útileiksvæði.

Afþreying sem kostar lítið

  • Alls kyns spennandi söfn og sýningar úti um allt land höfða til barna og fjölskyldna. Nefni hér fáein sem höfða til barna og ungmenna: Galdrasýning á Ströndum, Skrímslasetrið Bíldudal, Hvalasafnið á Húsavík og Hvalasýning í Reykjavík, Lava Show á Vík, Draugasetrið á Stokkseyri, Steinasafn Petru Stöðvarfirði og margar fleiri sýningar og söfn. Listasöfn landsins eru mörg með aðstöðu til að búa til listaverk og bókasöfn um land allt eru oft með góða aðstöðu fyrir börn, fín tilbreyting fyrir börnin á rigningardögum. Það er gott að hafa í huga að skoða upplýsingasíður hvert hvern bæ og svæði sem eru heimsótt.
  • Sundlaugaferðir eru ekki eins hagstæðar núna og þær voru fyrir nokkrum árum þar sem stök fullorðinsgjöld eru yfirleitt komin upp í 1.000 kr. eða meira. Fjölskyldur með stálpuð börn sem borga hálf gjöld eru þannig að borga í kringum 3.500 kr. fyrir eina sundferð. Sundið er samt sem áður frábær afþreying og málið að velja stað og stund vel. Fara ofan og gefa sundferðinni góðan tíma og velja laug þar sem er líklegt að börnin uni sér vel og lengi. Ísland á um 165 sundlaugar sem eru aðgengilegar almenningi þannig að það er nánast alltaf sundlaug í næsta nágrenni, hvert á land sem ferðast er.

Nánari upplýsingar:

Auk þess er hægt að leita ráða á fjölmörgum hópum á Facebook. Yfirleitt stendur ekki á svörum frá ferðavönum þegar fólk er að velta hlutnum fyrir sér. S.s. Ferðavefur mbl.is - Bestu ferðaráðin, Ferðalög og útisvist á Íslandi og fleiri hópar.

Dóra Magnúsdóttir, er dugleg að ferðast um landið með fjölskyldunni.
Dóra Magnúsdóttir, er dugleg að ferðast um landið með fjölskyldunni. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert