Ingileif og María njóta lífsins á Flateyri

Ingileif og María njóta á Flateyri í sumar.
Ingileif og María njóta á Flateyri í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Hjónin Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir eru staddar á Flateyri eins og svo oft áður. Þar ætla að dvelja þar næsta mánuðinn og fara í styttri ferðir um Vestfirðina. 

Ingileif og María halda úti hlaðvarpsþáttunum Raunveruleikanum en þær eru líka stofnendur fræðsluvettvangsins Hinseiginleikans.

Þær sjá mikla kosti við það að ferðast innanlands og hafa verið duglegar í því síðustu ár. 

Hvert eruð þið búnar að ferðast í sumar?

„Við erum núna staddar á Flateyri, og erum þar fyrir vestan í annað skiptið þetta sumarið. Við komum hingað yfir helgi fyrr í sumar en erum núna komnar til að vera næsta mánuðinn. Auk þess höfum við farið í nokkrar bústaðarferðir og dvalið í Borgarfirðinum.“ 

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Hvaða staðir eru á dagskrá hjá ykkur í sumar?

„Planið er að taka nokkrar ferðir héðan frá Flateyri um Vestfirðina, kíkja á Rauðasand, Látrabjarg, á Tálknafjörð, Barðaströnd og svo hugsanlega Drangsnes og Strandir. Við vonum að við komumst að minnsta kosti yfir einhverja af þessum áfangastöðum áður en ferðinni verður heitið að vestan. Við stefnum svo á að kíkja austur á Eskifjörð þar sem við dveljum einnig oft á sumrin. Þar munum við líklega fara í sexhjólaferðir yfir í Vöðlavík, í Mjóafjörð og vonandi eitthvað upp á hálendið.“  

Ljósmynd/Aðsend

Hver er uppáhaldsstaðurinn ykkar á Íslandi?

„Flateyri stendur alltaf upp úr hjá okkur. María er fædd og uppalin hér og ræturnar því ansi sterkar. Hér giftum við okkur og höfum varið mörgum af okkar bestu stundum á þessum yndislega stað. Svo elskum við að kíkja í náttúrulaugar og eigum margar uppáhalds um landið. Þar má til dæmis nefna Reykjanes í Ísafjarðardjúpi, Hörgshlíð og Heydal í Mjóafirði, Pollinn á Tálknafirði, Hellulaug í Flókalundi, Laugarvalladal, og margar til viðbótar.“ 

Hverjir eru kostir þess að ferðast innanlands í sumar? 

„Hverjir eru ókostirnir spyrjum við frekar. Og höfum engin svör við því, þar sem kostirnir eru endalausir! Við höfum alltaf verið miklir talsmenn þess að ferðast innanlands og höfum gert mjög mikið af því, svo okkur finnst bara frábært að fleiri Íslendingar séu að uppgötva dýrðina í því að ferðast innanlands, og kynnast landinu sínu betur. Það eru forréttindi að búa á Íslandi, og okkur finnst hvergi betra að vera. Þrátt fyrir að hafa ferðast mikið getur maður alltaf uppgötvað nýja staði og gimsteina sem leynast úti um allt.“

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend

Eru einhverjir staðir sem þið mælið helst með fyrir barnafjölskyldur?

„Af okkar reynslu að dæma geta langflestir staðir verið góðir staðir fyrir barnafjölskyldur ef maður hagar hlutunum þannig og er með það hugarfar. Við höfum aldrei látið það stoppa okkur á ferðalögum að vera með börn, og fyrir vikið farið á alla þá staði sem okkur hefur langað til og leyft börnunum okkar að kynnast þeim í leiðinni. Það er því í raun enginn sérstakur staður frekar en annar sem okkur dettur í hug. Við hvetjum fólk bara til að láta það ekki stoppa sig að vera með börn. Frekar að stoppa þá bara á leiðinni og fara í sund til að brjóta upp ferðina ef aksturinn verður erfiður. Við höfum til dæmis keyrt fram og til baka til Flateyrar fimm sinnum með tæplega ársgamla barnið okkar og það hefur aldrei verið neitt mál.“

Eru einhverjir staðir sem þið mælið með að allir heimsæki?

„Vestfirði í heild sinni finnst okkur að allir verði að heimsækja. Þegar fólk fer hringveginn og sleppir Vestfjörðum er það að missa af svo ótrúlega miklu. Bæði norður- og suðurfirðirnir eru svo ótrúlega fallegir, og bjóða upp á svo margt.“

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert