Út og yfir á Rauðasandi

Litir náttúrunnar á Rauðasandi gætu minnt einhverja á framhlið á …
Litir náttúrunnar á Rauðasandi gætu minnt einhverja á framhlið á konfektkassa. mbl.is/Sigurður Bogi

Skel í rifjum úti á Breiðafirði sem molnar og rekur með straumum á land mótar svip lands og náttúru í einni af fallegri sveitum landsins. Rauðisandur, sem er syðst á Vestfjörðum, ber nafn með rentu; sandurinn hefur rauðleitan blæ en annars eru svipbrigði hans mörg og ráðast m.a. af birtu og veðráttu. Sjö manns búa á þremur bæjum í sveitinni, þar sem ferðaþjónusta er vaxandi vegur. Tjaldsvæði er á Melanesi og Franska kaffihúsið er á Saurbæ, þar sem er kirkja sveitarinnar.

Melanesbændurnir Ástþór Skúlason og Sigríður María Sigurðardóttir.
Melanesbændurnir Ástþór Skúlason og Sigríður María Sigurðardóttir. mbl.is/Sigurður Bogi

Ekið um sneiðinga

Úr sunnanverðum Patreksfirði liggur leiðin yfir Skersfjall og niður á Rauðasand, þar sem ekið er um sneiðinga í bröttum brekkum í Bjarngötudal. Þaðan blasir við stórbrotið og fallegt umhverfi

„Hingað á Rauðasand hafa margir komið í sumar,“ segir Ástþór Skúlason sem með Sigríði Maríu Sigurðardóttur konu sinni rekur ferðaþjónustu á Melanesi. Hann lenti í umferðarslysi fyrir 17 árum og hefur síðan verið í hjólastól. Var lengi eftir það með sauðfjárbú en einbeitir sér nú að ferðaþjónustunni.

„Fyrstu ferðamenn ársins komu hingað í apríl, í miðju samkomubanni. Tjaldsvæðið opnuðum við 3. maí og síðan þá hefur komið ein einasta nótt að ekki séu gestir. Þessa starfsemi höfum við byggt upp á síðastliðnum sex árum og skapað okkur viðurværi með þessu.“

Litið til Látrabjargs.
Litið til Látrabjargs. mbl.is/Sigurður Bogi
Spor í sandinum.
Spor í sandinum. mbl.is/Sigurður Bogi

Höfuðáttir gilda ekki

Á Rauðasandi gilda sérstakar málhefðir þegar lýst er hvert leið skuli liggja eða vísað er til vegar. Höfuðáttirnar fjórar gilda ekki í því sambandi. Sagt er inn, út, yfir, fram og niður. Í miðri sveitinni er sagt að fara inn að Melanesi og út að Lambavatni, en svo heitir bær sem getið er í útvarpi dag hvern. Í áratugi hafa verið gerðar veðurathuganir á Lambavatni, síðari árin að mestu með sjálfvirkri tækni en raka- og úrkomumæla verður að vitja um. Þeim verkum var Þorsteinn Tryggvason bóndi á Lambavatni að sinna þegar Morgunblaðið var á Rauðasandi.

„Hér getur rignt mikið í sunnanátt og orðið mjög hvasst eins og gerðist í hvellinum í kringum síðustu helgi. Þá var hér norðaustanátt og vindur fór í 38 metra á sekúndu í mestu hviðunum,“ segir Þorsteinn, sem í þessari afskekktu sveit er með mjólkurframleiðslu og 30 kýr í fjósi. Heyskapurinn gengur ágætlega.

Þorsteinn Tryggvason á Lambavatni sinnir veðurathugunum og er hér með …
Þorsteinn Tryggvason á Lambavatni sinnir veðurathugunum og er hér með brúsa fyrir úrkomumælingar. mbl.is/Sigurður Bogi
Brú yfir boðaföllin.
Brú yfir boðaföllin. mbl.is/Sigurður Bogi
Smávinir fagrir, foldar skart.
Smávinir fagrir, foldar skart. mbl.is/Sigurður Bogi
Saurbær. Kirkja, kaffistaður og íbúðarhús.
Saurbær. Kirkja, kaffistaður og íbúðarhús.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert