Nenna ekki alltaf að ganga mikið og þá gerist þetta

Stefán Jónsson, Óskar Jónasson og Hrafnkell Sigurðsson nutu lífsins á …
Stefán Jónsson, Óskar Jónasson og Hrafnkell Sigurðsson nutu lífsins á Hornströndum.

Leikstjórinn Óskar Jónasson fór í vikulanga Hornstrandaferð með Kela og Stebba eða Hrafnkeli Sigurðssyni myndlistarmani og Stefáni Jónssyni leikara og leikstjóra. Þeir þrír eiga langa sögu en Óskar og Keli hafa þekkst síðan í grunnskóla og hafa brallað ýmislegt saman. Þeir voru til dæmis saman í hljómsveit á sínum yngri árum en Stebba kynntist Óskar þegar þeir leigðu saman íbúð á níunda áratugnum í Lundúnum þar sem þeir voru báðir í námi. Hann í kvikmyndaleikstjórn en Stebbi að læra leiklist. Þegar þessir þrír skapandi einstaklingar ferðast saman getur allt gerst eins og sést á þessum myndum enda finnst þeim ekkert sérstaklega gaman að labba. 

„Við fórum stuttu eftir að óveður gekk yfir landið um miðjan júlí. Það hafði verið rok og grenjandi rigning nokkrum dögum áður, þannig að fólki var bjargað frá þessu svæði og ár flæddu yfir bakka sína. En við sluppum fyrir horn. Við fengum að vísu allskonar veður, dæmigert íslenskt sýnishornaveður,“ segir Óskar. 

Hafið þið gengið mikið saman í gegnum tíðina?

„Já, já. Eða ætli það megi ekki segja að við höfum gengið saman í gegnum ýmislegt í gegnum tíðina? Gönguferðirnar eru bara hluti af þessu. Við Keli höfum farið í nokkrar utanlandsferðir á fjarlægar slóðir en við Stebbi ferðumst oftar innanlands.“

Myndirnar af ykkur í þessari ferð eru stórkostlegar. Hvernig gerist svona?

„Við nennum ekkert endilega alltaf að ganga mikið þó að þetta séu kallaðar gönguferðir. Þá er stundum byrjað að föndra eitthvað svona. Svo leiðir eitt af öðru og áður en við vitum erum við komnir í einhverjar fáránlegar kringumstæður. Það er kannski heppilegt hvað fáir eru á ferli á Hornströndum, það gæti verið vandræðalegt ef einhver kæmi að manni,“ segir hann og hlær. 

Hvað finnst þér skemmtilegast við svona gönguferðir?

„Það er þetta sambandsleysi við umheiminn. Hornstrandir eru utan þjónustusvæðis í öllum skilningi, það eru engir vegir þarna, sama og ekkert símasamband og lítið sem ekkert um fólk. Þá myndast mjög sérstakt andrúmsloft á meðal okkar. Allskonar samtöl sem þróast í ótrúlegustu áttir og skrýtinn húmor sem mundi aldrei verða til öðruvísi.“

Nærðu að hlaða batteríin í svona ferðum?

„Ójá, það finnst mér. En maður getur verið lengi hálf-asnalegur þegar maður kemur aftur í menninguna. Það er að segja maður er búinn að venjast allt öðru tempói, að sofa í tjaldi og borða skrýtinn mat.“

Í gönguferðinni borðuðu þeir aðallega pakkamat.
Í gönguferðinni borðuðu þeir aðallega pakkamat.

Hvað tókuð þið með í nesti?

„Þetta er aðallega þurrmatur, pakkasúpur og kex. Hnetur og þurrkaðir ávextir. Og harðfiskur. Í þarsíðustu ferð áttum við til dæmis bara harðfisk með sinnepi undir lokin,“ segir hann. 

Hver var hápunktur ferðarinnar?

„Ég veit ekki hvort að ég megi segja frá því. Í lok ferðarinnar stálumst við í sauna-bað áður en við vorum sóttir af Borea bátafyrirtækinu. Það var ótrúlega vel þegið eftir einungis sjóböð og kalda fjallalæki í heila viku.“ 

Hvað ertu að skapa þessa dagana?

„Ég er að vinna í undirbúningi sjónvarpsseríunnar Signals, ásamt fullt af góðu fólki hjá Sagafilm. Signals fjallar um netárásir á íslenskt samfélag, nokkuð sem við erum frekar grandalaus fyrir. Netárásir gætu sett samfélag okkar á hliðina á örskömmum tíma. Við erum búin að koma okkur svo vel fyrir í hátæknivæddum lífstíl sem byggir á interneti og elektróník. Það er ákaflega viðkvæm undirstaða ef á hana er ráðist.“

Er ferðasumrinu lokið eða ertu á leið í fleiri ferðir?

„Sumrinu er langt í frá lokið. Íslendingar virðast stimpla sig út eftir verslunarmannahelgina en það eru alltaf góðir dagar í ágúst og september. Ég fer mikið vestur á firði þar sem ég á hús við hafið. Þar bíða mín mörg verðug verkefni.“

Hvernig leggst veturinn í þig?

„Svona bæði og. Ég hef fulla samúð með fólki sem er að berjast í bökkum vegna veirunnar, fækkun ferðamanna og glataðra atvinnutækifæra. En á hinn bóginn er ekki hægt að horfa framhjá því að þetta samfélag þarf á áminningu að halda. Hjólin þurfa ekki endilega alltaf að snúast á yfirsnúningi. Eða réttara sagt, þau geta ekki verið endalaust á yfirsnúningi. Við megum til með að hægja á okkur á ýmsum sviðum, sérstaklega varðandi neysluna. Og þá held ég að þessi vetur geti kennt okkur ýmislegt í sambandi við það. Og svo fáum við vonandi bóluefni fyrr en síðar og getum fallist í faðma með hækkandi sól.“

mbl.is