Fluttu til Ítalíu í sumar og tóku við hóteli

Berglind Magnúsdóttir, Evíta Líf og Elvar Ingimarsson fluttu til Ítalíu …
Berglind Magnúsdóttir, Evíta Líf og Elvar Ingimarsson fluttu til Ítalíu í sumar. Ljósmynd/Aðsend

Berglind Magnúsdóttir og Elvar Ingimarsson héldu á vit ævintýranna í sumar ásamt dóttur sinni þegar þau fluttu til Ítalíu. Þau ákváðu í byrjun árs að taka við hótelinu Abbazia San Faustino sem er gamalt munkaklaustur í Umbria-héraði.

„Ég og unnusti minn höfum verið mikið á Ítalíu. Elvar bjó til dæmis í tíu ár á Ítalíu og við höfum farið hingað á hverju ári og tekið löng frí hér. Eins og svo margir þá elskum við Ítalíu. Menningin, maturinn, fólkið, umhverfið og veðrið auðvitað. Við höfðum talað um þetta í mörg ár að færa okkur um set, það var draumurinn.“

Vegna anna tóku þau ekki af skarið fyrr en í byrjun árs en Berglind segir að þá hafi verið komin tími á breytingar. Hugurinn leitaði strax til Ítalíu.

„Fyrir tilviljun sáum við þetta hótel til leigu. Tveimur vikum seinna vorum við farin út að skoða það. Við kolféllum fyrir þessum magnaða stað og sáum hér ýmsa möguleika. Við erum bæði þannig fólk að okkur þykir gaman að takast á við áskornanir og prufa nýja hluti. Við ákváðum því að stökkva í djúpu laugina. Við þurftum auðvitað að hugsa fyrir ýmsu, við erum með eina þriggja ára skvísu og fannst okkur hún vera á fullkomnum aldri til að fara í smá ævintýri með okkur en hún hefur líka farið til Ítalíu öll sín ár og notið vel.“ 

Abbazia San Faustino er gamalt munkaklaustur.
Abbazia San Faustino er gamalt munkaklaustur. Ljósmynd/Aðsend

„Upphaflega var planið okkar að fara út í apríl en kórónuveiran setti auðvitað sinn strik í reikninginn og seinkaði okkar plönum. Við höfðum auðvitað áhyggjur af því hvernig Ítalía færi út úr þessu og hvernig allt yrði eftir þetta. En það var að hrökkva eða stökkva. Við fórum út í júlí og tókum formlega við hótelinu í ágúst.“

Berglind segir að viðtökurnar hafi farið fram úr þeirra björtustu vonum og það hafi verið fullbókað bæði á hótelinu og á veitingastaðnum í ágúst og í byrjun september. Aðallega er um ítalska gesti að ræða en hún segir að þeir hafi verið mjög duglegir að ferðast innanlands í ár. Einnig hafa ferðamenn frá öðrum Evrópulöndum látið sjá sig.

Útsýnið af veröndinni er fallegt.
Útsýnið af veröndinni er fallegt. Ljósmynd/Aðsend

„Auðvitað verður þetta ár ekki eins og við vorum fyrst búin að gera ráð fyrir en við ætlum að nýta þann tíma sem verður rólegur og uppfæra herbergin, gera nokkrar endurbætur og undirbúa okkur vel fyrir næsta ár.“

Hótelið á sér skemmtilega sögu en það er gamalt munkaklaustur frá árinu 1200. Á hótelinu eru 16 svítur og er gistipláss fyrir 52. Á hótelinu er einnig veitingastaður, bar og sundlaug. Þau renna ekki alveg blint í sjóinn þar sem Elvar hefur starfað við markaðsmál í veitingageiranum og rekur fyrirtæki á Íslandi líka.

„Umbria-hérað er að okkar mati eitt fallegasta svæðið á Ítalíu, náttúrufegurðin er svo svakaleg. Umbria á líka alveg helling inni en héruðin hér í kring eru nú þegar mörg hver mett af túristum. Okkur finnst fólk njóta sín vel í Umbria og eru vörur héraðsins einstakar eins og matur og vín og verðlagið hóflegt. Í nágrenni hótelsins er að finna marga litla og fallega bæi og einstakar náttúruperlur. Bæir sem standa upp úr eru Montone, Gubbio, Anghiari, Orvieto og alls ekki má gleyma guðdómlega bænum Assisi sem er í næsta nágrenni. Tveggja tíma akstur er til Rómar og klukkutími til Flórens.“

„Hingað til hefur San Faustino verið þekkt fyrir að halda einstaklega falleg brúðkaup. En hér á staðnum er einnig falleg kirkja þannig hægt er að hafa athafnir bæði inni í kirkjunni eða úti og eru nánast allar helgar næsta sumar frá maí til október bókaðar í brúðkaup. En enn þá er eitthvað laust fyrir heppnar turtildúfur,“ segir Berglind.

Vinsælt er að halda brúðkaup á hótelinu og á veitingastaðnum.
Vinsælt er að halda brúðkaup á hótelinu og á veitingastaðnum. Ljósmynd/Aðsend

Berglind og Elvar ætla að bjóða upp á meira en bara brúðkaup en þau beina sjónum sínum líka að golfiðkendum. Þau eru komin í samstarf við golfvöllinn Antognolla sem er 18 holu PGA-golfvöllur í næsta nágrenni. Að þeirra mati er golfvöllurinn sá fallegasti sem þau hafa komið á.

„Við munum bjóða okkar gestum að spila á þessum flotta velli og verðum með golfferðir fyrir bæði Íslendinga og útlendinga. Að auki höfum við hafið samstarf með frábæru veiðifélagi Umbria sem sérhæfir sig í veiðum á villisvínum sem fjölga sér óhóflega á svæðinu og skemma uppskerur en halda verður stofninum í skefjum og bændurnir gefa leyfi á veiðarnar. Við erum að undirbúa ferðir fyrir veiðimenn að koma og upplifa einstaka veiði í frábæru umhverfi og stórglæsilega dagskrá. Einnig bjóðum við upp á matreiðslunámskeið með okkar frábæra kokki, vínsmökkun, truffluleit og -smökkun, jóganámskeið, hestaferðir og margt fleira.“

Fólk getur meðal annars farið í góða vínsmökkun í Umbria.
Fólk getur meðal annars farið í góða vínsmökkun í Umbria. Ljósmynd/Aðsend

Berglind horfir jákvæðum augum á næsta ár og segir ástandið á Ítalíu núna vera mun skárra en það var í byrjun árs.

„Hlutfallslega eru núna mjög fá smit miðað við höfðatölu. Hér eru allir að passa sig mjög vel, Ítalirnir mega eiga það að þeir eru mjög passasamir. Allir nota grímur í margmenni og inni í verslunum. Allir virða metraregluna og það er spritt alls staðar. Við krossum bara putta og vonum að ekki fari illa á nýjan leik. Hér eru allir mjög bjartsýnir og standa þétt saman. Við veðjum á að 2021 verði frábært ár fyrir alla og við hlökkum til að taka á móti Íslendingum og auðvitað fólki frá öðrum þjóðum áfram og leyfa þeim að njóta alls þess sem þessi fallegi staður býður upp á.“ 

View this post on Instagram

Sunny day ☀️

A post shared by Abbazia San Faustino Resort (@abbaziasanfaustino) on Sep 12, 2020 at 7:02am PDT

Sundlaugin heillar marga.
Sundlaugin heillar marga. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert