Stefnir ótrauður á nokkur páskaflug til Alicante

Eftirspurn er eftir flugum til Alicante um páskana.
Eftirspurn er eftir flugum til Alicante um páskana. AFP

Spánarheimili stefna á tvö til þrjú leigugflug frá Íslandi til Alicante um páskana. Fasteignaskrifstofan hefur haldið uppi flugsamgöngum frá Íslandi til Alicante í vetur en viðskiptavinir þeirra eiga margir fasteignir á Alicante-svæðinu. 

Bjarni Sigurðsson eigandi Spánarheimila segir að fyrirtæki hans hafi farið sex leiguflug síðan í október með Icelandair. Mörg flugfélög hafa fellt niður flug og er eftirspurn eftir flugum á vegum Spánarheimila að hluta til komin vegna þess. 

„Þessi ákvörðun okkar um að hefja leiguflug til Alicante byggðist einmitt á niðurfellingu flugfélaga og ferðaskrifstofa á flugleiðinni á milli Íslands á Alicante á Spáni. Við sáum nauðsyn þess að halda uppi lágmarksflugsamgöngum á milli Íslands og Alicante. Leiguflugið hefur gengið vonum framan en við sáum strax í gegnum okkar viðskiptamannahóp og Vildarklúbb að fasteignaeigendur voru orðnir mjög áhugasamir á að komast út í eignirnar sínar,“ segir Bjarni í samtali við ferðavef mbl.is.

Stefnt er á nokkur flug fyrir og eftir páska svo sólþyrstir Íslendingar komast til Spánar en páskarnir eru í byrjun apríl í ár. „Við eigum eftir að negla niður dagsetningu en við stefnum allavegana á tvær til þrjár dagsetningar fram og tilbaka fyrir og eftir páskana.“

Er mikill áhugi á ferðum til Alicante? 

„Við höfum fundið fyrir miklum áhuga frá okkar viðskipavinum að komast út í eignirnar sínar sem var fyrst og fremst okkar markmið að koma þeim út. Svo er þetta svo ótrúlega stór hópur sem á eignir almennt úti á Spáni sem hefur einnig verið að nýta sér þessar flugferðir. Tala nú ekki um þann hóp sem dvelur í leigueignum yfir veturinn og hefur vetrardvöl á Spáni. Síðan hafa náttúrulega íslenskir golfarar nýtt sér þessi flug og leigt þá fasteignir í gegnum okkur við golfvelli. Einnig höfum við verið var við að nokkrar íslenskar fjölskyldu sem hafa verið að flytjast búferlum annað hvort til eða frá Spáni hafa verið að nýta sér þessi leiguflug okkar.“

Hafi þið einhverjar áhyggjur af stöðunni á Spáni?

„Við erum stöðugt með puttann á púlsinum á stöðu veirumála á þeim svæðum sem íslendingar dvelja helst og eiga sínar eignir. Staðan er akkúrat ekki góð í stórborgunum á Spáni eins og víða í Evrópu en er betri á orlofshúsavæðum Íslendinga í Alicantehéraði enda ekki stórborgarbragur yfir hlutunum þar.“

Finni þið fyrir meiri áhuga núna en til dæmis fyrir hálfu ári síðan? Er fólk orðið óþreyjufullt að komast í sólina?

„Við finnum já fyrir auknum ferðavilja innan okkar viðskiptamannahóps. Auðvitað er alltaf veðurfarið á Spáni, golfið og allar lystisemdir spænsks lífernis mikið aðdráttarafl fyrir okkur Íslendinga og því eðlilegt að fólk fari að hugsa meira á suðræna slóðir þegar vetur konungur leikur okkur grátt á Íslandi,“ segir Bjarni. 

mbl.is