Handtekinn fyrir að skalla flugþjón

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn við lendingu í Manchester eftir …
Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn við lendingu í Manchester eftir að hafa skallað flugþjón. AFP

Karlmaður á þrítugsaldri var handtekinn um borð í vél Ryanair á dögunum fyrir að skalla flugþjón. 

Karlmaðurinn, sem var á leið frá Tenerife til Manchester á Bretlandi hinn 29. janúar, var nokkuð drukkinn þegar hann kom um borð en samkvæmt heimildum Manchester Evening News hafði hann drukkið þrjá fjórðu úr vodkaflösku. Hann neitaði að vera með grímu og þegar hann var beðinn að fylgja fyrirmælum varð hann reiður og veittist að flugþjóninum. 

Eftir hótanir í garð áfhafnarinnar skallaði hann karlkyns flugþjón áður en hann reyndi að faðma kvenkyns flugþjón. 

Þegar atvikið átti sér stað reyndi flugstjórinn að fá heimild til að lenda á næsta flugvelli en fékk hana ekki vegna kórónuveirunnar. Hann jók því hraðann og lenti 25 mínútum fyrir áætlaðan lendingartíma. 

Lögreglan tók á móti vélinni í Manchester og var karlmaðurinn handtekinn. Þá kemur einnig fram í fréttum að hann hafi látið illa í lögreglubílnum og valdið nokkrum skaða á bílnum og sjálfum sér.

mbl.is