Auðveldara að bera fram Húsavík

Auðveldara er að bera fram Húsavík en Stykkishólmur.
Auðveldara er að bera fram Húsavík en Stykkishólmur.

Auðveldara er fyrir útlendinga að bera fram bæjarnafnið Húsavík heldur en mörg önnur bæjarnöfn á Íslandi og er það meðal annars ástæðan fyrir því að bærinn var valinn sem tökustaður kvikmyndarinnar Eurovision Song Contest: The Story of Fire Saga að sögn Leifs Dagfinnsonar, meðstofnanda True North. 

Leifur ræddi við Egil Bjarnason fyrir grein sem birtist á vef New York Times í gær. Þar segir að nafnið Húsavík hafi verið notað fyrir prufuútgáfu af aðallaginu í kvikmyndinni. 

Að sögn Leifs var upphaflega planið að finna bæ á suðurlandinu, nálægt Reykjavík, til að spara pening og tíma í ferðalög. Húsavík, sem er á norðausturlandi, kom því fyrst ekki til greina. En þegar nafnið var komið inn í prufuútgáfuna af laginu var ekki aftur snúið vegna þess hve vel orðið passaði inn. Mun erfiðara hefði verið að koma bæjarnafni eins og Stykkishólmur inn í lagið. 

Lagið Húsavík hlaut nýverið tilnefningu til Óskarsverðlaunanna og eru bæjarbúar á Húsavík ánægðir með tilnefninguna. Sjálfir hvöttu þeir Akademíuna til að tilnefna lagið og nú vilja þeir sigla Óskarnum heim. 

Egill ræddi einnig við Molly Sanden, sænsku söngkonuna sem syngur lagið, Húsavík. Hún segist vera mjög spennt að koma til Íslands þegar heimsfaraldrinum lýkur og hlakkar til að sjá Húsavík með eigin augum. 

Einnig var rædd við Savan Kotecha, einn af framleiðendum kvikmyndarinnar en hann skrifaði líka textann við lagið. Hann segist hafa notað Google translate til að skrifa íslensku línurnar og skoðaði Húsavík á Goolgle street view til að fá tilfinningu fyrir bænum. 

„Mér datt ekki í hug að lagið myndi hafa sérstaka þýðingu fyrir fólkið þarna. Nú vil ég heitt og innilega að Húsavík vinni,“ sagði Kotecha.

Norðurljós á Húsavík.
Norðurljós á Húsavík. Morgunblaðið/Hafþór Hreiðarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert