Fyrsta mannlausa skipið til að sigla yfir Atlantshaf

Vísindamenn vonast nú til þess að skipið Mayflower 400 verði brátt fyrsta mannlausa skipið til að sigla yfir Atlantshafið. Mayflower 400 mun leggja úr höfn frá Plymouth í Englandi 15. maí næstkomandi. 

Skipið er 15 metra langt og níu tonn að þynd og mun sigla á sjálfstýringu yfir hafið. Á leiðinni mun skipið, sem hlaðið er sólarrafhlöðum, kanna mengun í hafinu og greina plast í vatninu auk þess sem það mun fylgjast með hvölum og öðrum sjávardýrum. 

Brett Phaneuf, meðstofnandi góðgerðafélagsins Pro Mare og heilinn á bakvið Mayflower verkefnið, segir að rannsóknir á hafinu sé eitt beittasta verkfærið í baráttunni gegn loftslagsbreytingum. 

Tæknifyrirtæki víðsvegar að úr heiminum hafa komið að verkefninu og varið milljónum í það. 

Siglingin hefur verið í bígerð í mörg ár, enda þarf skipið að læra margt til að geta siglt á sjálfstýringu vestur yfir hafið. Það þurfti að læra að klessa ekki á og vita hvað er öruggt og hvað ekki. 

Sex myndavélar eru á skipinu, ratsjá og hljóðnemar. 

Þó Mayflower muni stýra sér sjálft yfir hafið munu vísindamenn ProMare fylgjast með því alla leið frá Englandi og geta gripið inn í ef stefnir í óefni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert