Vonast til að ná tindi Everest á sunnudag

Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinson eru á leið …
Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinson eru á leið upp í þriðju búðir á Everest fjalli. Þeir stefna á tindinn á sunnudag. Skjáskot/Instagram

Fjallgöngugarparnir Heimir Fannar Hallgrímsson og Sigurður Bjarni Sveinsson vonast til þess að ná tindi Everest á sunnudaginn. Heimir og Sigurður lögðu af stað frá búðum tvö upp í búðir þrjú klukkan eitt í nótt að íslenskum tíma. 

Þeir stefna á að verja nóttinni í búðum þrjú og fara svo á laugardag upp í búðir fjögur. Ef veður leyfir fara þeir svo síðasta spölinn að tindi Everest-fjalls á sunnudaginn. 

Heimir og Sigurður klífa fjallið í nafni Umhyggju - félags langveikra barna og halda úti söfnun fyrir félagið. 

Ferðin hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig hjá þeim Heimi og Sigurði en kórónuveirusmit kom upp í grunnbúðum Everest í byrjun mánaðarins. Þeir sluppu þó við skrekkinn og héldu sér til hlés frá öðrum Everest-förum. 

Þá lenti Sigurður í slæmum hnémeiðslum fyrir nokkrum dögum. Eftir hvíld í grunnbúðum fjallsins var ljóst að hann þyrfti á læknisaðstoð að halda og fór hann með þyrlu til Katmandú. Sigurður varði einni viku í endurhæfingu á sjúkrahúsi þar en sneri til baka stálsleginn um síðastliðna helgi. 

mbl.is