Bóki með lengri fyrirvara en áður

Sigvaldi Kaldalóns.
Sigvaldi Kaldalóns.

Íslendingar eru farnir að hugsa sér til hreyfings. Þetta segir Sigvaldi Kaldalóns, eða Svali, sem heldur úti ferðum á Tenerife.

Hann segist finna fyrir því að fólk bóki ferðir með lengri fyrirvara en áður. Pantanir séu að berast fyrir júlí og ágúst og mikið sé bókað í október. „Ég veit ekki hvort það er af því að fólk vorkenni okkur svo mikið eða af því að það er bara svo spennt fyrir að fara út. Það er að bókast vel í skoðunarferðirnar okkar úti, sem mér finnst alveg magnað, ég átti alls ekki von á því,“ segir Svali.

Fimm flug á viku

Svali segir að ef plön standist hjá Icelandair og Play verði fjögur flug frá Íslandi til Tenerife á viku frá 26. júní. Fimmta flugið bætist svo við þegar líða fer að hausti.

Það hefur verið rólegt hjá þeim í kórónuveirufaraldrinum en nú eru hlutirnir að lifna við. „Núna er að breytast svo mikið út af því þeir eru að losa svo mikið um hömlur úti. Það er ekki útgöngubann, það er bara gríman, við þurfum ekki að sýna neikvætt PCR-próf. Þetta skiptir allt svo miklu máli. Aðalatriðið er að þú þarft ekki að fara í sóttkví þegar þú kemur heim, það er svo mikið ef þú ætlar að skjótast í tíu daga eða viku og þarft svo að fara í fimm daga sóttkví.“ Flestir sem fara út séu bólusettir.

Svali og Jóhanna með þrjú af börnum sínum. Þau eru …
Svali og Jóhanna með þrjú af börnum sínum. Þau eru búsett á Tenerife.

Bjartsýnir á ágætt sumar

Hann segir að smitum sé að fækka hratt á Tenerife núna og bólusetning gangi vel. „Þeir eru mjög bjartsýnir á að sumarið verði ágætt, þeir eru mjög meðvitaðir um að það verður ekki eins og það á að vera en það verði hins vegar ágætt og horfa svolítið á uppbyggingu frá og með haustinu.“

Svali og fjölskylda hans eru búsett á Tenerife en komu heim í kórónuveirufaraldrinum. Svali segir að hann hafi ætlað að koma heim í þrjá mánuði en nú er liðið ár. Hann flytur aftur út í sumar og fjölskyldan fer á eftir honum með haustinu.

mbl.is