Lét húðflúra bólusetningarvottorðið á sig

Ítalinn Andrea Colonnetta (t.v.) lét húðflúra QR-kóða bólusetningarvottorðsins á handlegginn.
Ítalinn Andrea Colonnetta (t.v.) lét húðflúra QR-kóða bólusetningarvottorðsins á handlegginn. Skjáskot/Instagram

Ítalinn Andrea Colonnetta mun ekki hafa áhyggjur af því að týna bólusetningarvottorðinu sínu í  framtíðinni þar sem vottorðið er nú húðflúrað í formi strikamerkis á handlegg hans. Colonnetta, sem er 22 ára, birti myndir af sér með nýja húðflúrið á Instagram.

Á Ítalíu þarftu gilt bólusetningarvottorð, eða QR-kóða, til þess að fá borð á veitingastöðum, fara í verslanir, leikhús og fleira. Nú þarf Colonnetta ekki lengur að hafa bólusetningarvottorðið á sér því það er húðflúrað á hann til lífstíðar. 

Í viðtali við ítalska blaðið Corriere della Calabria sagði háskólaneminn að hann kynni að meta að fara út fyrir kassann og gera eitthvað frumlegt. „Þetta er svo sannarlega frumlegt, ég vil vera öðruvísi,“ sagði Colonnetta.

Myndband þar sem vinur Colonnetta sést skanna inn QR-kóða bólusetningarvottorðsins hefur vakið mikla athygli. Þar staðfestist að húðflúrið virkar sem bólusetningarvottorð og Colonnetta getur því valsað um ítalska veitingastaði óáreittur og án allra pappíra. 

mbl.is