Djörf í Dúbaí

Winnie Harlow er einstaklega glæsileg.
Winnie Harlow er einstaklega glæsileg. Skjáskot/Instagram

Ofurfyrirsætan Winnie Harlow sýndi fallegar líkamslínurnar á meðan hún naut lífsins um borð í snekkju í Dúbaí á dögunum. Arabíska furstadæmið Dúbaí er vinsæll ferðamannastaður en þangað flykkist ríka og fræga fólkið, enda eru einkennismerki borgarinnar lúxus og glæsileiki.

Harlow sprangaði um snekkjuna á silfurlituðum sundfötum og bar litla tösku á bakinu í stíl við bikiníið. Þar sat hún fyrir umkringd stórglæsilegum háhýsum og kristaltærum sjó. 

„Hey Siri, spilaðu Arab Money,“ skrifaði Harlow við myndirnar sem hún birti á Instagram og átti við lag sem tónlistarmaðurinn Busta Rhymes gerði frægt árið 2008.

Samkvæmt frétt frá Daily Mail viðurkenndi Harlow á dögunum að fyrirsætubransinn væri ekki öfundsverður. Sagði hún oft vera erfitt að starfa sem fyrirsæta og að því fylgdi ekki eintómur glamúr. 

„Þetta er ekki auðvelt starf. Ég er enn þann dag í dag mjög taugaveikluð þegar ég geng tískupallana og er í sífellu að reyna að hrasa ekki og reyni að tala sjálfa mig til í hausnum,“ sagði fyrirsætan nýverið í hlaðvarpsþættinum PLT – Behind The Doors. 

„Ég hef oft verið að drepast úr sársauka þegar ég geng tískupallana. Ég braut nýlega nögl á stórutánni og þurfti að labba og sitja fyrir með alblóðuga stórutá,“ útskýrði hún. 


 

mbl.is