Tattúið á Tene var skyndiákvörðun

Heiðar Austmann og Kolfinna Guðlaugsdóttir fóru í paramyndatöku á Tenerife.
Heiðar Austmann og Kolfinna Guðlaugsdóttir fóru í paramyndatöku á Tenerife.

Útvarpsmaðurinn Heiðar Austmann og unnusta hans Kolfinna Guðlaugsdóttir skruppu í gott barnlaust frí til Tenerife nú rétt fyrir páska. Þau fóru í fallega paramyndatöku á hótelinu og toppuðu ferðina með því að fá sér húðflúr í stíl. 

„Við vorum búin að sjá þennan ljósmyndara með básinn sinn nokkrum sinnum á hótelinu. Síðan bað ég hann um að kíkja á okkur þar sem við lágum á sólbekk til að sýna okkur möppu með hugmyndum,“ segir Heiðar þegar hann er spurður hvernig þeim datt í hug að fara í myndatöku. 

„Við vorum hrædd um að þetta yrði kannski kjánalegt eða jafnvel hallærislegt. Þess vegna vildum við sjá „portfolio“ hjá honum. Hann var síðan með mjög flottar hugmyndir fyrir okkur. Ströndin, steinar við sjóinn og allskonar. Við keyptum alveg fimmtíu myndir af honum sem við eigum núna fyrir okkur. Gaman að gera þetta, dressa sig smá upp og fara í spes myndatöku á Tene.“

Kolfinna og Heiðar eru sæt og sumarleg á Tenerife.
Kolfinna og Heiðar eru sæt og sumarleg á Tenerife.

Heiðar veit ekki til þess hvort það sé vinsælt að fara í myndatökur á eyjunni grænu. Hann fór til Tenerife í fyrra en var þá á öðru hóteli og þar var ekki boðið upp á að fara í myndatöku. Það kann að vera að kórónuveirufaraldurinn hafi spilað inn í. 

„Skyndiákvörðun ferðarinnar var að fara í flúr. Við höfum oft rætt það heima að okkur langar í eins flúr, svona lítið og sætt sem er bara okkar. Við létum verða af því. Bókuðum tíma og fengum okkur blek,“ segir Heiðar.

„Þú og ég alltaf,“ er nú flúrað á þau Heiðar og Kolfinnu sem og merki óendanleikans. 

Þú og ég alltaf.
Þú og ég alltaf.

„Annars erum við bara spennt að fara heim eftir frábæra ferð þar sem við skötuhjú vorum bara tvö í heila viku. Það verður gott að knúsa maurana þegar við komum heim. Við förum einmitt í bústað yfir páskana og þar verð ég með mína árlegu páskaeggjaleit fyrir börnin okkar,“ segir Heiðar sem segir æðislegt að komast aðeins frá en alltaf æðislegt að koma aftur heim. 

Kolfinna og Heiðar fengu 50 flottar myndir.
Kolfinna og Heiðar fengu 50 flottar myndir.
mbl.is