Hélt að Birgir væri að gera símaat

Birgir Jónsson forstjóri Play og Sandra Dís Sigurðardóttir.
Birgir Jónsson forstjóri Play og Sandra Dís Sigurðardóttir.

Innanhússhönnuðurinn Sandra Dís Sigurðardóttir segist ekki hafa ætlað að trúa Birgi Jónssyni, forstjóra Play, þegar hann tilkynnti henni að hún hefði unnið gullna miðann svokallaða í gjafaleik flugfélagsins. Sandra missti af símtalinu frá honum og þurfti að hringja til baka og hélt einfaldlega að forstjórinn væri að gera símaat í henni.

„Hann hringdi og ég náði símanum ekki. Þannig ég hringdi til baka og hélt hann væri eitthvað að fíflast í mér. Ég hélt hann væri bara að gera eitthvað at í mér. Og hann sagði bara nei, þú varst að vinna í leik hjá Play,“ segir Sandra í samtali við mbl.is og bætir við að hún hafi ekki trúað þessu fyrr en hún fékk formlegan tölvupóst með staðfestingu um að hún hafi unnið.

Flugfélagið Play fagnaði því nú í vikunni að eitt ár er síðan þau hófu að selja miða. Í tilefni af því gáfu þau einn gullinn miða, en honum fylgir frítt flug með Play í heilt ár á alla 25 áfangastaði flugfélagsins. 

„Ég trúði þessu bara varla. Þetta er svo stór vinningur, maður hefur í mesta lagi unnið bíómiða. Bara fáránlegt,“ segir Sandra 

Fyrst til Ítalíu svo til New York

Sandra sér ferðalög næsta árs í hyllingum og ætlar að nýta vinninginn vel. 

„Ég sagði bara við manninn minn að hann þyrfti að vera meira með börnin næsta árið því ég þyrfti að ferðast,“ segir Sandra en hún á eiginmann og tvö börn. Fyrsta ferðin verður þó til Ítalíu núna í sumar, en fjölskyldan var einmitt búin að bóka sér fjölskylduferð til Ítalíu með Play í sumar.

Hún hlakkar til að nýta vinninginn í að heimsækja staði sem hún hefur ekki komið til áður, og hefði kannski ekki dottið í hug að heimsækja nema fyrir þennan vinning. Sandra segist vera fyrir bæði borgarferðir og sólarferðir, en foreldrar hennar eiga hús á Alicante og því kemur gullni miðinn að góðum notum til þess að geta heimsótt þau þar.

„Svo sé ég fyrir mér að fara til New York með manninum mínum,“ segir Sandra en New York var einmitt vinsælasta borgin í leiknum hjá Play. Í tilefni af kosningunum var leikurinn settur upp þannig að þátttakendur kusu sinn uppáhalds áfangastað með Play. Félagið hefur áætlunarflug sitt til New York hinn 9. júní og verður flogið daglega til New York Stewart alþjóðaflugvallarins. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert