Ingveldur Gröndal fór á tónlistarhátíðina Coachella í Palm Springs, Kaliforníu nú í vor. Coachella tónlistarhátíðin hefur verið haldin árlega frá því 1999, að undanskildum síðastliðnum tveim árum vegna kórónuveirufaraldursins. Á hátíðinni stígur fremsta tónlistarfólk heims á svið. Í ár var dagskráin glæsileg og fram komu meðal annars Harry Styles, Billie Eilish, The Weeknd og Justin Bieber.
Ingveldur er 24 ára Kópavogsmær og starfar sem þjálfari hjá KVAN. Hún útskrifaðist úr B.A. námi í tómstunda- og félagsmálafræði frá Háskóla Íslands vorið 2021. Nú í vor fór Ingveldur ásamt vinum sínum á tónlistarhátíðina Coachella þar sem hún sá fremsta tónlistarfólk heims stíga á svið.
Hvernig myndir þú lýsa tilfinningunni við að fara á Coachella?
„Það fyrsta sem kemur upp í hugann er bara algjör draumur. Við vorum lengi að átta okkur á að þetta væri í alvöru að gerast, allt var svo magnað,“ segir Ingveldur sem var í vægu spennufalli þegar hún kom heim. „Stemmningin var alltaf geggjuð, svo gaman að sjá allt fólkið vera það sjálft í allskonar fötum.“
Ingveldur segist hafa lesið sig aðeins til um það sem gæti reynst krefjandi við hátíðina, til dæmis mikill hiti og tímamismunur, miklar göngur og að þurfa að standa mikið og lengi. „Það kom mér samt smá á óvart hversu erfitt sumt var,“ segir Ingveldur, „til dæmis hversu mikil áhrif nuddsár á litlu tá hefur á geðheilsuna.“
Hvað stóð upp úr?
„Það stóð upp úr að sjá Harry Styles taka óvænt lagið I feel like a woman með söngkonunni Shania Twain,“ segir Ingveldur og bætir við „svo gerði það líka mikið fyrir 13 ára mig að heyra hann taka What makes you beautiful,“ sem er lagið sem kom hljómsveitinni One Direction, sem Styles er fyrrum meðlimur í, á toppinn á sínum tíma.
„Það var líka mjög gaman á Måneskin. Við náðum að vera mjög framarlega en samt með pláss til að dansa.“ Ingveldur nefnir líka belgíska söngvarann Stromae sem syngur aðallega lög á frönsku. „Hann var ótrúlega flottur, svo skemmtilegt að sjá hann live,“ segir Ingveldur sem þakkar frönskukennara sínum úr menntaskóla kærlega fyrir að hafa kynnt sig fyrir honum. „Síðan voru flest atriðin með geggjuð ljósashow og virkilega gaman að horfa á heildarmyndina alltaf, en ekki bara að sjá tónlistarfólkið.“
Ingveldur segir ferðalagið á Coachella hafa gengið heilt yfir mjög vel. „Við urðum dálítið flugveik til skiptis en smá bras fylgir oft löngum ferðalögum. Eftir á var það allt þess virði,“ segir hún. Tímamismunurinn sagði þó til sín þegar vinirnir ætluðu að fara til Los Angeles, en hátíðin sjálf er haldin í Palm Springs og þau gistu því þar. „Við höfðum pantað rútumiða en keyptum óvart klukkan níu um kvöld þar sem við rugluðumst á AM og PM. En þá kynntumst við yndislegum Uber bílstjóra sem varð nánast einkabílstjóri okkar þann daginn og bjargaði okkur alveg, hann Remy fær stórt klapp á bakið.“
Hvernig líkaði þér við Kaliforníu?
„Ég dýrkaði Kaliforníu,“ segir Ingveldur sem hafði aldrei komið þangað áður. „Ég mun klárlega koma aftur, mér fannst ég upplifa svo margt þar,“ segir hún og lýsir upplifuninni sem bland af stórborgar- og strandarmenningu. „Það var góður hiti og sól, allskonar menning í rauninni en líka hægt að fara á ströndina.“ Hún segist vel geta hugsað sér að flytja tímabundið til Kaliforníu í nám. „Allt fólkið, bæði í Palm Springs og Los Angeles var svo indælt, til í að spjalla og sýndi mikla gestrisni,“ segir Ingveldur sem man ekki eftir að hafa mætt sama viðmóti þegar hún hefur ferðast um Bandaríkin áður.
Gætir þú hugsað þér að fara aftur á Coachella í framtíðinni?
„Ef ég á að vera hreinskilin þá myndi ég ekki vilja fara aftur,“ segir Ingveldur. „Þetta skipti heppnaðist svo vel og nánast allt uppáhaldstónlistarfólkið mitt var að spila þetta árið.“ Ingveldur mælir þó mikið með því að fara og segir þetta vera einstaka upplifun.
Ertu með einhver ráð fyrir þá sem hafa áhuga á að fara á Coachella?