„Skriðuklaustur er einstakur staður heim að sækja“

Skúli Björn Gunnarsson.
Skúli Björn Gunnarsson.

Skúli Björn Gunnarsson, forstöðumaður Gunnarsstofnunar, bendir á hversu einstakt er fyrir Íslendinga að til er hús teiknað af þýska arkitektinum Fritz Höger á Austurlandi. Höger á meðal annars hús á heimsminjaskrá, Chile-haus í Hamborg. Hann er íslenskufræðingur með meistarapróf í menningarmiðlun.

„Ég hef verið á Skriðuklaustri frá 1999 og stýrt uppbyggingu á rithöfundasafni og menningarsetri uppi í sveit á Austurlandi,“ segir Skúli og leggur áherslu á hversu ánægjulegt er að horfa um öxl og sjá allt sem hefur gerst á þessum tæpa aldarfjórðungi.

„Það ríkir samt engin stöðnun enda er lögð mikil áhersla á nýsköpun hjá stofnuninni og við vinnum að margvíslegri margmiðlun í samstarfi við erlenda háskóla í norðurslóðaverkefnum um þessar mundir. Og í tengslum við það stendur Gunnarsstofnun í samstarfi við fleiri aðila fyrir stefnumóti um stafræna miðlun og varðveislu menningararfsins í Veröld – húsi Vigdísar 16. júní næstkomandi.“

Ertu fæddur og uppalinn í nágrenni þess staðar sem þú vinnur á?

„Ég er fæddur í Hróarstungu og því hreinræktaður Héraðsbúi þó að eins og aðrir hafi ég farið af heimaslóðum til náms, en ég sneri aftur fyrir aldamótin með mína fjölskyldu.“

Skriðuklaustur er einstakur staður

Hver eru áhugamál þín og hvernig er að vera á þessum stað á sumrin?

„Það fer mikill tími hjá fámennri stofnun í að halda starfseminni gangandi þannig að rými fyrir áhugamál og frí er nú oft af skornum skammti. En ég hef mjög gaman af stangveiði og á Austurlandi er aragrúi af ám og vötnum sem stutt er að skreppa í og kasta fyrir fisk.“

Hvernig lýsir þú með eigin orðum Skriðuklaustri?

„Skriðuklaustur er einstakur staður heim að sækja. Hús Gunnars, sem reist var 1939 þegar skáldið sneri aftur heim frá Danmörku, fjáður og frægur, fimmtugur að aldri, á engan sinn líka og telst enn á lista yfir 10 stærstu einbýlishús á Íslandi. Í því tökum við á móti gestum og fræðum þá um verk og sögu Gunnars og miðaldaklaustrið sem stóð á þessum stað fyrir 500 árum og var grafið upp og rannsakað á árunum 2000 til 2012. Gestir geta skoðað byggingarnar í sýndarveruleika og síðan gengið að rústunum, sem eru skammt frá Gunnarshúsi. Þriðja stoðin í upplifun á staðnum er síðan Klausturkaffi þar sem lögð er áhersla á staðbundin hráefni og allt bakað eða lagað á staðnum. Það fyllir húsið af matarilmi hvern dag, sem gefur heimsókninni heimilislegan blæ. Úti við höfum við reynt að byggja upp þrautir fyrir börn og fullorðna, meðal annars við göngustíginn að Snæfellsstofu, gestastofu Vatnajökulsþjóðgarðs, sem er hér í túnfætinum. Og svo er nýjung hjá okkur núna að í boði eru leikir fyrir snjallsíma sem leiða fjölskyldur um nærsvæðið eða Héraðið allt.“

Rústir miðaldaklaustursins eru aðgengilegar allan sólarhringinn og hægt að lesa um sögu þess á upplýsingaskiltum.

„Gestir fá svo meiri upplýsingar á sýningunni í Gunnarshúsi þar sem munum er tengjast klaustrinu eru gerð skil með ýmsum hætti. Saga klaustursins er afar merkileg og þó að það hafi aðeins verið starfrækt í 50 ár vegna siðaskiptanna þá eignaðist það jarðir vítt og breitt um Austurland og átti meðal annars Hálsahöfn í Suðursveit, handan Vatnajökuls, og gerði þar út á íslenska þorskinn sem síðan var þurrkaður og mikilvæg fæða í Fljótsdalnum en einnig fluttur út til að skapa tekjur,“ segir Skúli.

Hús Gunnars teiknað af Fritz Höger

Gunnarsstofnun hefur frá upphafi rekið gestaíbúð fyrir lista- og fræðimenn. „Hún er vel sótt af skapandi fólki frá öllum löndum og þykir einstaklega gott að dvelja í henni. Flestir ná að skapa eða skrifa mun meira en þeir reiknuðu með þannig að staðurinn býr yfir einhverjum sköpunarkrafti eða hvort það er bara einangrunin, að vera lengst uppi í sveit og fjarri skarkala heimsins, sem býr til réttu aðstæðurnar.“

Hús Gunnars er teiknað af þýska arkitektinum Fritz Höger sem á meðal annars hús á heimsminjaskrá, Chile-haus í Hamborg.

„Hann var góður vinur Gunnars og bauðst til að teikna herragarðinn ókeypis fyrir vin sinn. Af þeim sökum fengum við þessa einstöku byggingu inn í íslenska landslagið. Þennan stíl sem fyrirfinnst helst suður í Ölpunum. En íslensku múrarameistararnir settu líka sitt mark á húsið með verklaginu sem þeir notuðu til að byggja það á aðeins einu sumri, árið 1939. Svo að vissu leyti er húsið algjörlega einstakt,“ segir Skúli.

Að koma skáldverkunum fram fyrir höfundinn

Hvernig tvinnast saga Gunnars Gunnarssonar við staðinn og hvernig upplifir þú verk hans eftir að hafa starfað á þessum stað?

„Þó að Gunnar hafi búið í rúm 30 ár í Danmörku og skrifað flest sín verk áður en hann flutti aftur til Íslands þá er sögusviðið nær alltaf íslenskt. Og verk hans sækja efnivið að miklu leyti í austfirska sögu og menningu enda bjó hann sem barn í Fljótsdalnum og ólst síðan upp til 18 ára aldurs í Vopnafirði áður en hann hélt utan með draum sinn um skáldskapinn. Hann skrifaði allt frá sögulegum skáldsögum og yfir í súrrealíska fantasíu sem Vikivaki er að vissu leyti. Þannig er endalaust hægt að skoða eitthvað nýtt í verkum Gunnars. Sígildu verkin eru Aðventa, Svartfugl og Fjallkirkjan og hefur gengið vel að koma Aðventu út á nýjum tungumálum, til dæmis eru Ítalir sólgnir í að lesa um baráttu Benedikts við vetrarveður á Mývatnsöræfum. Við erum núna að byrja að vinna okkur inn í nýja miðlun á staðnum þar sem reynt verður að gera verkunum betri skil og á vissan hátt koma skáldverkunum fram fyrir höfundinn, enda er það í verkunum sem höfundurinn lifir og hlutverk rithöfundasafns að koma þeim til nýrra lesenda,“ segir Skúli.

Þar sem allt er gert á staðnum

Klausturkaffi er þekkt fyrir hádegis- og kaffihlaðborð og áherslu á staðbundin hráefni sem skilar sér í réttum eins og lerkisveppasúpu, hreindýrabollum og hrútaberjaskyrköku.

„Mikið er lagt upp úr því að búa allt til á staðnum sem tryggir auðvitað ákveðinn ferskleika. Þá er boðið upp á rétti fyrir grænkera og grænmetisætur og reynt að koma til móts við þá sem glíma við eitthvert fæðuóþol. Á staðnum er einnig hægt að kaupa matarminjargripi eins og fíflahunang, hvannarsultu og hrútaberjahlaup.“

Upphéraðið er auðugt að áhugaverðum stöðum og óvíða að finna jafn fjölbreytta þjónustu á litlu svæði.

„Kjarninn er á Hallormsstað þar sem skógurinn býður upp á endalaus ævintýri og upplifun. Ótal gististaðir og frábær tjaldsvæði ásamt þó nokkrum veitingastöðum eru frá Vallanesi og alla leið inn í Óbyggðasetur og upp á Fljótsdalsheiði þar sem Vatnajökulsþjóðgarður og Kárahnjúkar eru í innan við klukkutíma aksturfjarlægð frá Hengifossi, sem er eins konar miðpunktur á svæðinu. Undir hengifoss.is er að finna upplýsingar um allt sem Upphéraðið býður upp á því að það er gáttin sem ferðaþjónustuaðilar á svæðinu nota til að koma öllum kostum á framfæri. Þar eru meðal annars kort af ótal göngu- og hjólaleiðum,“ segir Skúli að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert