Þrjár bækur til að taka með í fríið

Ertu á leiðinni í frí? Ef þig langar að lesa góða bók í fríinu þá eru þessar þrjár þess virði að taka með sér. 

Kvöld eitt á eyju eftir Josie Silver.

Þetta er ekta bók til að lesa í sumarbústað eða á hóteli en um er að ræða rómantíska skáldsögu sem gerist á afskekktri eyju við Írland. Hún fjallar um pistlahöfundinn Cleo sem er send út á eyju af ritstjóra sínum. Þar hittir hún ljósmyndarann Mack og neyðast þau tvö til að deila eina gistirýminu sem er laust á eyjunni. Þegar fólk dvelur saman á afskekktri eyju getur allt gerst.

Þernan eftir Nitu Prose

Um er að ræða krimma á léttum nótum sem fjallar um hótelstarfsmann sem lendir í bobba. Aðalpersónan er frekar einföld manneskja og barnaleg fram úr hófi. Hún lítur heiminn öðrum augum en aðrir, sem kemur henni í mikil vandræði. Hún er grunuð um morð og ekki sér fyrir endann á því hvernig hún getur klórað sig út úr því. Sumir hafa líkt Þernunni við Allt í himnalagi hjá Eleanor Oliphant. Höfundur hefur unnið sem ritstjóri en þetta er fyrsta skáldsaga hennar og fór bókin beint á metsölulista New York Times.

Aprílsólarkuldi eftir Elísabetu Jökulsdóttur

Höfundur býður lesendum í ófyrirsjáanlegt ferðalag í þessari bók. Elísabet skrifar um aðalpersónuna Védísi sem ýmsa fjöruna hefur sopið. Hún lýsir föðurmissi, skólastúlku sem er einstæð móðir; ástinni sem kemur næstum jafn óvænt og ferlinu inn í sjúkdóm, öllu í einni augnablikseilífð. Reykjavík og hennar fólk fær á sig sérstakan blæ með lýsingum í ekta Elísabetarstíl sem hér er djúptær, litaður flæði og frelsi ljóðsins.

Hún kann að láta húsin lifna og anda líkt og landslag, líka bilið á milli þeirra. Hvergi skortir skarpskyggni né húmor í mannlýsingum, lituðum af tíðaranda í lok áttunda áratugarins: einn og annar Kristjaníufari kominn heim, hasspartí hvunndagsmatur og farið að draga úr hippalátum '68-kynslóðarinnar; nú á að fóta sig í frelsinu.

Hvað gerist milli fólks þegar orðin bregðast? Glata merkingunni. Þegar tengslin við tungumálið bresta, hvað er þá til ráða? „... því heimurinn mun ekki standa nema vegna merkingar, annars mun hann sáldrast niður og manneskjan getur annars ekki lifað í heiminum,“ segir í sögunni.

Aprílsólarkuldi hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2020.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert