Prjónað af alúð á Blönduósi um helgina

Svanhildur Pálsdóttir.
Svanhildur Pálsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Prjónagleðin á Blönduósi verður haldin í sjötta sinn um helgina. Svanhildur Pálsdóttir, viðburðar- og markaðsstjóri Tex­tílmiðstöðvar Íslands, er í forsvari fyrir hátíðina og segist vera full tilhlökkunar.

„Það snýst allt um prjónaskap þessa helgi á Blönduósi,“ segir Svanhildur sem hefur alla tíð haft mikinn áhuga á prjónaskap og handavinnu.

„Í gamla daga gengu konur oft prjónandi á milli bæja og í ár ætlum við að taka upp þann sið. Við ætlum að ganga prjónandi frá Kvennaskólanum og til messu í Blönduóskirkju þar sem við höldum áfram að prjóna á meðan á messunni stendur,“ segir Svanhildur en henni þykir ekki ólíklegt að prestarnir í Blönduóskirkju taki upp prjónana og geri slíkt hið sama, annað eins hafi nú gerst.

„Á svona hátíð eru allar stundir notaðar vel fyrir prjónaskapinn. Það jafnast ekkert á við það að sitja og spjalla, drekka kaffi og prjóna,“ segir hún.

Svanhildur telur allar líkur á að presturinn taki aftur upp …
Svanhildur telur allar líkur á að presturinn taki aftur upp prjónana í messunni á sunnudag. Ljósmynd/Aðsend

Prjónasamfélagið fer stækkandi

Svanhildur á von á að um 200-300 manns láti sjá sig á prjónahátíðinni í ár en dagskrá hátíðarinnar býður upp á eitthvað fyrir alla. Viðburðir á vegum hátíðarinnar verða í fullum gangi vítt og breytt um Blönduósbæ ásamt fjölbreyttum námskeiðum, fyrirlestrum og markaðstorgi.

„Í íþróttamiðstöðinni verður garntorg, fyrirlestrarnir verða haldnir í félagsheimilinu ásamt kvöldvökum á föstudags- og laugardagskvöldinu, þannig það er þétt dagskrá og mikil spenna í loftinu,“ segir Svanhildur og býður alla velkomna á hátíðina.

„Það þarf ekki að vera atvinnuprjónari til þess að vera gjaldgengur á hátíðinni. Fólk getur verið á misjöfnum stað. Prjónarar á öllum getustigum eru hjartanlega velkomnir og bara allir þeir sem hafa ánægju af handavinnu. Þeir sem ekki vilja prjóna geta líka saumað út eða heklað eða hvað sem er. Það eru engin boð og bönn með það. Hátíðin er fyrir alla, ekki bara einhverja sérstaka eða útvalda,“ segir Svanhildur og bendir á að það geti verið tilvalið að gera sér ferð á hátíðina til þess að sækja námskeið og bæta við sig, skiptast á hugmyndum við annað áhugafólk, eða bara til að vera í nánd við góðan félagsskap.

Það var margt um manninn á prjónagleðinni í fyrra og …
Það var margt um manninn á prjónagleðinni í fyrra og mikið um að vera. Ljósmynd/Aðsend

„Fólk er duglegt við að aðstoða hvort annað og það hefur skapast ágætis samfélag utan um prjónaskapinn,“ segir hún. Síðustu ár hefur bæst í prjónasamfélagið á Íslandi og segir Svanhildur það vera orðið ansi stórt. 

„Ég veit ekki hvað það eru margir inni í hópnum Handóðir prjónarar á Facebook, það eru fleiri þúsund manns þar inni. Það er alveg á hreinu að Íslendingar eru duglegir að prjóna og mér finnst sérstaklega gaman að sjá hvað það eru margir ungir prjónarar til og óhræddir við að spreyta sig,“ segir Svanhildur en henni þykir einstaklega ánægjulegt að sjá hversu meðvitað ungt handavinnufólk er um umhverfismál samhliða áhugamálinu.

„Það velur frekar garn sem er vottað og gott fyrir umhverfið. Það er svo mikið í boði og við getum öll valið, mjög meðvitað,“ segir hún en á dagskrá hátíðarinnar verður prjónurum boðið upp á fræðslu og fróðleik um umhverfisvæn efni til prjónaskaps.

Garnmarkaðurinn stendur alltaf fyrir sínu.
Garnmarkaðurinn stendur alltaf fyrir sínu. Ljósmynd/Aðsend

Aukinn áhugi 

Svanhildur óttast ekki að prjónasamfélagið eigi eftir að þurrkast út á Íslandi með tíð og tíma. Telur hún snjalltækjavæðinguna hafa haft jákvæð áhrif á samfélag prjónara og aukið áhuga fólks á handavinnu.

„Netið er svo mikil uppspretta og kannski er prjónið einhvers konar endurkoma þess. Það er svo auðvelt að nálgast upplýsingar og fá aðstoð í gegnum netið. Það eru alls kyns uppskriftir og kennslumyndbönd á YouTube til dæmis, margir sem halda úti hlaðvarpsrásum sem tengjast handavinnu og síðast en ekki síst þá er svo einfalt að geta verið í sambandi við aðra prjónara í gegnum samfélagsmiðla,“ segir Svanhildur og nefnir að fjöldi fólks hafi sótt prjónaklúbba í gegnum netið á meðan heimsfaraldurinn geisaði yfir heimsbyggðina.   

Svanhildur Pálsdóttir skartar fallegri prjónaflík.
Svanhildur Pálsdóttir skartar fallegri prjónaflík. Ljósmynd/Aðsend

Svanhildur telur prjónaskap Íslendinga vera kominn til að vera. Umræðan um umhverfismál og endurnýtingu ýti frekar undir aukinn áhuga fólks á prjónaskap og handavinnu.   

„Ég held að þetta sé engin prjónabóla eða svoleiðis. Það getur verið ávanabindandi að prjóna þannig þeir sem eru komnir á bragðið hætta ekkert svo glatt. Það geta allir dottið inn í prjónalægðir en maður tekur alltaf upp prjónana aftur,“ segir Svanhildur og hvetur allt áhugafólk um handavinnu til að gera sér ferð á Blönduós um helgina.

Stína Gísladóttir skreytir ljósastaur í tilefni hátíðarinnar.
Stína Gísladóttir skreytir ljósastaur í tilefni hátíðarinnar. Ljósmynd/Aðsend
Múgur og margmenni í prjónamessu í Blönduóskirkju.
Múgur og margmenni í prjónamessu í Blönduóskirkju. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert