Öll mega velja pils

Öll sem vinna hjá Virgin Atlantic mega velja hvort þau …
Öll sem vinna hjá Virgin Atlantic mega velja hvort þau gangi í pilsi eða ekki í vinnunni. Ljósmynd/Virgin Atlantic

Breska flugfélagið Virgin Atlantic hyggst á næstunni afnema allar reglur um klæðaburð flugliða sinna út frá kyni. Þannig munu öll geta valið á milli þess að klæðast buxum eða pilsi um borð og öll munu sömuleiðis bera nælu með nafni sínu og þeim fornöfnum sem þau kjósa að nota. 

Nær reglan einnig til flugmanna og starfsmanna á flugvellinum. Virgin Atlantic rýmkaði reglur sínar um klæðaburð fyrst árið 2019 þegar flugliðar sem skilgreindu sig sem kvenkyns máttu klæðast buxum frekar en pilsi í vinnunni. 

Klæðnaður flugliða er frá Vivienne Westwood og geta öll valið á milli dökkrauðra eða rauðra fata. 

Virgin Atlantic hefur verið í mikilli herferð á þessu ári en flugfélagið er það fyrsta til að leyfa flugliðum að vera með húðflúr sín sýnileg í vinnunni. mbl.is