Skemmtileg hönnun í takt við náttúruna

Ljósmynd/Airbnb.com

Þar sem áður var staðsett forn grjótnáma má nú finna glæsilegt og mikið endurgert hús, Villa Torni, sem hefur verið hannað í takt við náttúruna sem umlykur húsið. Villan er staðsett við Como-vatn á Ítalíu og býður upp á stórbrotið útsýni, en þar að auki er merkileg saga sem liggur að baki hússins. 

Á árum áður voru námur staðsettar við Como-vatn á Ítalíu, en þær útveguðu steina sem notaðir voru til að byggja hús, hallir, kirkjur, brýr og fjölda steinveggja sem finnast víða í hlíðum Larian-fjallanna. Frá námunum voru steinarnir ferjaðir niður hlíðarnar á sérstökum trésleðum, en ferðinni var svo haldið áfram á vögnum áður en steinarnir voru að lokum settir á seglskip sem voru notuð til að flytja þungavöru yfir Como-vatn. 

Steinar úr námunni notaðir í bygginguna

Villa Torno og veggirnir sem umlykja garðinn voru smíðaðir, og síðar endurbyggðir, með steinum úr námunni sem var starfrækt á 17. öld. Þegar húsið var tekið í gegn var mikið lagt upp úr því að vernda upprunalegu bygginguna og efnivið hennar eins mikið og hægt var. 

Ljósmynd/Airbnb.com

Þegar kom að hönnun villunnar var markmiðið að sameina sögulega og nútímalega þætti og skapa þar með einstaka upplifun, en það var Ruggero Rickler del Mare sem sá um hönnunina.

Ljósmynd/Airbnb.com
Ljósmynd/Airbnb.com
Ljósmynd/Airbnb.com

Ótrúleg upplifun

Húsið er staðsett fyrir ofan þorpið Torno, en til þess að komast að húsinu þarf að keyra upp mjóan veg frá þorpinu. Þegar komið er að lóðarmörkunum er bílnum lagt og við tekur langur stigi með um það bil 80 þrepum að villunni sjálfri. 

Húsið er umvafið fallegum garði með trjám, klettum og steinum frá fornu námunni. Fjögur svefnherbergi eru í villunni ásamt þremur baðherbergjum og því pláss fyrir allt að sex manns í húsinu hverju sinni. 

Ljósmynd/Airbnb.com
Ljósmynd/Airbnb.com

Nóttin kostar sitt

Í garðinum má finna einstaka sundlaug og sólbaðsaðstöðu, en í kjallara hússins hefur einstakri heilsulind verið komið fyrir innan um ótrúlega kletta.  

Hægt er að leigja villuna út á Airbnb, en þar kostar nóttin 1.961 Bandaríkjadali, eða um 280 þúsund krónur. 

Ljósmynd/Airbnb.com
Ljósmynd/Airbnb.com
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert