Miðaldrar yfir sig í útivist

Eva Magnúsdóttir.
Eva Magnúsdóttir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það kom Evu Magnúsdóttur stjórnendaráðgjafa á óvart hversu vel henni gekk að ná tökum á gönguskíðaíþróttinni þrátt fyrir að vera ekki tvítug lengur. Hún bíður spennt eftir snjónum og er hætt að bíða endalaust eftir vorinu. 

„Ég byrjaði á því að fara á gönguskíðanámskeið á Ísafirði í lok ársins 2019. Í gönguskíðaparadísina á Ísafirði liggja leiðir allra sem ætla að stunda gönguskíði. Ísfirðingar eru einfaldlega búnir að mastera að taka á móti miðaldra iðkendum sem ekki eru frægir fyrir fimi og hrynja um sjálfa sig í byrjun. Eftir eitt slíkt námskeið er hægt að renna sér smávegis og byrja að æfa sig. Ég fór á fyrsta námskeiðið til þess að búa mig undir Landvættaprógramm sem ég var búin að ákveða að taka þátt í. Því prógrammi stýrðu útivistarsnillingarnir Brynhildur Ólafs og Róbert Marshall ásamt fleira fólki. Það má segja að skíðin og það verkefni bjargaði lífi mínu á Covid-tímanum. Í fyrravetur ákvað ég síðan ásamt nokkrum vinum mínum úr Landvættaverkefninu að taka skíðaiðkunina aðeins lengra og taka þátt í Meistaraæfingum Einars Ólafssonar en hann er mesti gönguskíðakennari og skíðahvíslari sem Ísland hefur átt.“

Hefur þú dottið?

„Já, kanntu annan? Já, ég hef dottið margoft og kútvelst um brekkurnar bæði á Ísafirði og í Bláfjöllum. Það er ekki alltaf fagurt á að líta þegar maður dettur um sjálfan sig ef maður missir einbeitinguna og fer að horfa út í loftið en þá er bara að standa upp og halda ótrauður áfram. Maður meiðir sig auðvitað mismikið við að detta og ég hef bara einu sinni meitt mig það mikið að ég var frá æfingum í einhvern tíma.“

Frelsistilfinning sem er engu lík

„Það var svo margt sem kom mér á óvart við gönguskíðin. Ég var fyrir það fyrsta mjög hissa á því að geta náð einhverjum tökum á nýrri íþróttagrein þar sem ég er ekki tvítug lengur. Ég hélt að gönguskíði, líkt og golf, væru bara fyrir fólk sem er orðið mjög þroskað, hætt að vinna og jafnvel komið á eftirlaun. Gönguskíðin eru aftur á móti mjög tæknilegt sport sem reynir á alla vöðva líkamans og maður er alltaf að læra eitthvað nýtt. Gönguskíðin eru mjög góð leið fyrir þá sem vilja brenna mörgum kaloríum. Það var einmitt það sem kom mér á óvart að ég þurfti að borða meira í kringum skíðaíþróttina heldur en fyrir og eftir aðrar íþróttir. Svo er það margfalt skemmtilegra heldur en ég hefði getað ímyndað mér. Þegar maður er kominn með kjark til að láta sig vaða í sporinu niður brekkuna þá verður til einhver frelsistilfinning sem er engu lík. Félagsskapurinn og útivistin er svo stór partur af þessu og suma daga stendur maður á öndinni yfir fegurð landsins þegar snjórinn leggst yfir fjöllin eins og hvítt teppi, tónlistin á fullu og heitt kakó yfir eldi.

Áður en gönguskíðin heilluðu Evu var hún ekki hrifin af kulda. „Þegar ég var krakki var ég töluvert á listskautum en ég kann ekki á svigskíði svo ég hef eiginlega engan samanburð. Ég hef síðan þá og fram að gönguskíðunum ekki verið sérstaklega spennt fyrir útivist yfir vetrartímann vegna kulda. Núna veit ég að hreyfingin og góður útivistarfatnaður kemur vel í veg fyrir allan kulda og það er ekki vandamál lengur.“

Í gönguskíðaferðir til Ísafjarðar og Seefeld

Eva elskar að fara til Ísafjarðar sem hún segir algjöra gönguskíðaparadís.

„Þar er sporið yfirleitt fullkomið og Ísfirðingar halda svo vel utan um gönguskíðafólkið sitt. Það er líka mjög gaman að taka þátt í Fjarðargöngunni á Ólafsfirði sem ég hef gert tvisvar. Gangan liggur í gegnum bæinn og er gestrisni heimamanna einstök. Ég fór líka Fossavatnsgönguna í blíðskaparveðri síðastliðið vor og ætla aftur. Ég læt mig síðan dreyma um að fara til Lillehammer í Noregi og njóta þess að fara á gönguskíði í útivistarparadísinni þeirra.“

Koma gönguskíðin í staðinn fyrir einhverja aðra íþrótt á veturna eða styðja við aðra hreyfingu?

„Eftir að ég hætti að stunda eingöngu stöðvaþjálfun, fjallgöngur og hlaup þá æfi ég frekar fjölbreytt og mikið meira úti eftir Covid. Ég stunda fjallahjól, syndi, stunda fjallahlaup, geng á fjöll og lyfti lóðum. Allt eftir því hvað mig langar þann daginn. Stundum ein og stundum með æfingafélögum. Yfir skíðatímabilið fækkar kannski fjallgöngunum og hjólinu er kannski lagt yfir helsta vetrartímann en það er nauðsynlegt að halda lóðunum inni til að halda styrknum og sundinu til að ná úr sér strengjunum. Þetta er allt gott hvað með öðru.“

Ertu með eitthvert markmið?

„Já svo sannarlega. Ég ætla að taka þátt í Fossavatnsgöngunni á Ísafirði í vor. Langtímamarkmiðið er svo að eldast fallega og vera í góðu líkamlegu formi alltaf til síðasta dags því þannig verður lífið svo miklu skemmtilegra. Ég vil einbeita mér að því að leika mér og taka þátt í alls kyns keppnum og verkefnum, ekki til að vinna því ég er ekki vinningshæf í neinu af þessu. Það skiptir mig bara engu máli lengur því markmiðið er að hafa gaman og ég er alltaf í keppni við sjálfa mig og að auka eigin getu. Þegar ég hef ekki lengur gaman þá finn ég mér eitthvað nýtt sem gleður. Listinn er langur yfir það sem ég á eftir að prófa í lífinu.

Hvað ætlar þú að gera skemmtilegt í vetur?

„Í vetur ætla ég aftur að taka þátt í Meistaraæfingum hjá Einari Óla með vinum sem ég hef eignast í gegnum þetta útivistarbrölt mitt. Eftir áramót ætla ég með sama hópi og eiginmanninum í gönguskíðaferð til Seefeld þar sem skiptast á námskeið, æfingar og gleði eins og þessum hópi er einum lagið. Veturinn leggst bara vel í mig og ég ætla að venju að hafa nóg að gera bæði í vinnu og tómstundum. Ég er ekki lengur að bíða eftir vorinu heldur snjónum því ég er bara nokkuð sátt við að búa á þessari stórkostlegu eyju og miðaldra yfir mig í útivist,“ segir Eva.

Ljósmynd/Aðsend
Ljósmynd/Aðsend
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur: