Gripinn með skammbyssu í hnetusmjörskrukkum

Karlmaðurinn tók byssuna í sundur og tróð henni í tvær …
Karlmaðurinn tók byssuna í sundur og tróð henni í tvær krukkur af hnetusmjöri. Skjáskot/Instagram

Karlmaður var handtekinn hinn John F. Kennedy flugvellinum í New York eftir að upp komst að hann hefði tekið skammbyssu í sundur og troðið henni ofan í tvær krukkur af hnetusmjöri.

Flugvallareftirlitið í Bandaríkjunum (TSA) birti myndir af skammbyssunni, sem er hálfsjálfvirk, en karlmaðurinn hafði tekið hana í sundur áður en hann kom henni fyrir í krukkunum tveimur. Hafði hann vafið henni í plast. Með henni voru hlaðin skothylki.

Atvikið kom upp 22. desember.

Farþeginn pakkaði hnetusmjörskrukkunum í innritaðan farangur sinn, en þær sáust þegar taskan fór í gegnum öryggisleit. Flugvallareftirlitið gerði lögreglu viðvart og var hann stöðvaður á leið sinni í gegnum flugvöllinn.

Löglegt er að ferðast með skotvopn innanlands í Bandaríkjunum, en því þarf að pakka á ákveðinn hátt, og þarf ferðalangur einnig að vera með gilt leyfi fyrir skotvopninu. Þá þarf að tilgreina ef skotvopn er meðferðis, taka það í sundur og sýna í öryggisleit.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert