Fór einn til Tene eftir 10 daga hugleiðslubúðir

Pálmi Freyr Hauksson fer ekki bara til Kanarí þegar hann …
Pálmi Freyr Hauksson fer ekki bara til Kanarí þegar hann fer erlendis. Hér er hann í tökum á nýjustu þáttaröðinni af Kanarí. Ljósmynd/Sigrún Sif

Pálmi Freyr Hauksson leikur og skrifar handritið í nýju þáttaröðinni af Kanarí sem hefur göngu sína á Ríkissjónvarpinu um helgina. Hann fer þó ekki alltaf í sólina þegar hann fer erlendis en hann fór nýlega í eftirminnilega ferð til Bretlands þar sem hann dvaldi á hugleiðslusetri. 

Hvernig datt þér í hug að fara á hugleiðslusetur?

„Það er smá skrítið að segja frá því en hugleiðsla eiginlega bjargaði lífi mínu. Ég var mjög þunglyndur sem unglingur alveg þangað til að ég breytti aðeins til í lífi mínu. Meðal annars fór ég að hugleiða þegar ég var svona 21 árs. Þá gjörbreyttist allt líf mitt og mér fór að líða ótrúlega vel. Ég hætti skyndilega að vera reiður og pirraður út í allt. Tilfinningar höfðu ekki lengur yfirhöndina í hausnum á mér. Síðan þá hef ég reynt að hugleiða daglega. Því meira sem ég hugleiði því betur líður mér. Þess vegna langaði mér alltaf að fara einhvern tímann í hugleiðslusetur. Þar sem maður lifir eins og munkur í ákveðinn tíma og hugleiðir allan daginn. Það hljómaði af einhverjum ástæðum eins og frábær hugmynd, hún var það ekki.“

Hvernig var upplifunin?

„Hún var stórkostleg, ömurleg, frábær og hræðileg. Það er mikið af mjög undarlegum reglum. Bannað að tala, bannað að horfa í augun á öðru fólki, alltaf vakna klukkan 4 um morguninn, síðasta máltíð dagsins var klukkan 11 fyrir hádegi, hugleiðsla í 10 tíma á dag, enginn sími, ekkert net, tónlist eða bækur. Bannað að skrifa, teikna, ekkert áfengi, ekkert nikótín. Þannig þegar maður átti lausa stund gat maður í raun ekki gert neitt nema horfa út í loftið og bíða eftir því að fara að hugleiða aftur. Kannski göngutúr eða leika sér með vasaljósið sitt. Erfiðast var reyna að sofna klukkan 9 og að sitja svona lengi varð mjög líkamlega erfitt. Hugleiðslan var líka öðruvísi en ég er vanur og gerði ekki jafn mikið fyrir mig og sú sem ég geri venjulega. Í einni hugleiðslunni bókstaflega grét ég því mér leiddist svo mikið.“

Pálmi Freyr Hauksson í hugleiðslusetri í Bretlandi.
Pálmi Freyr Hauksson í hugleiðslusetri í Bretlandi. Ljósmynd/Aðsend

Pálmi segir erfitt að útskýra upplifunina og getur ekki sagir hún ekki beint hafa verið skemmtilega eða endilega nytsamlega. Hún fer þó í reynslubankann. 

„Ég tel það sé smá partur af vinnunni minni sem listamaður og höfundur að gera eitthvað undarlegt. Gera eitthvað öðruvísi og lenda í skrítnum félagslegum aðstæðum eða gera eitthvað sem er skrítið að gera. Maður fær svo mikið að hugmyndum þegar maður breytir til og bregður út af vananum. En þetta var allt svo furðulegt, svo stórfurðulegt. Safnast þarna saman í Bretlandi í þögn í 10 daga með fólki sem var að gera tilraun til þess að vera betri manneskjur, vera betri við sjálft sig.“

Kom aldrei upp sú hugsun að það hefði bara verið sniðugara að fara til Kanarí?

„Reyndar gat ég ekki hugsað mér að fara beint heim eftir þetta. Þannig ég vildi sól. Þannig ég fór beint til Tene. Einn. Ef það er eitthvað skrýtnara en að fara í hugleiðslusetur í Bretlandi í 10 daga þá er það að fara einn til Tene. En ég þurfti sól og hita eftir bresku sveitina.“

Talandi um Kanarí, hvernig er nýja Kanarí-þáttaröðin?

„Hún er smekkfull. Við hækkuðum allt í botn í þessari seríu. Aukið fjármagn gaf okkur tækifæri og tíma til að gera hluti sem við gátum ekki gert áður. Við fórum meira að vinna í gerfum og búa til karaktera. Skrifuðum mörg hundruð sketsa en aðeins nokkrir komast alla leið. Við reynum að leggja mjög mikla áherslu á handritið. Við kennum flest spuna og sýnum með Improv Ísland. Það gefur okkur mjög góðan sameiginlegan orðaforða og reynslu sem við leitum mjög mikið í. Ég held og vona að við séum að bæta okkur. En á endanum eru það áhorfendur sem dæma um það.“

Heldurðu að reynslan í hugleiðslusetrinu hafi áhrif á þig sem listamann?

„Mér finnst mjög fyndið að hafa farið í þetta hugleiðslusetur. Mér finnst fyndið að það var svona leiðinlegt. Mér finnst fyndið að búa í herbergi með einhverjum manni í 10 daga og mega ekki tala við hann eða horfa á hann. Ég skil líf mitt í gegnum sögur. Allt merkilegt eða áhugarvert sem ég upplifi er eiginlega bara mælanlegt út frá því hversu góða sögu ég geti sagt um það. Ég á örugglega eftir að reyna að skrifa skets fyrir hópinn sem gerist í þöglu Hugleiðslusetri en þau eiga bara eftir að segja: „Pálmi, fólk mundi aldrei trúa að einhver færi sjálfviljugur í hugleiðslusetur“,“segir Pálmi. 

Kanarí fer í loftð á laugardaginn.
Kanarí fer í loftð á laugardaginn. Ljósmynd/Sigrún Sif
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert