Hætta flugi frá New York til Keflavíkur

Ljósmynd/Aðsend

Flugfélagið United hefur hætt við beint flug í sumar milli Keflavíkur og Newark-flugvallar í New Jersey, nærri New York.

Félagið hafði áður ráðgert að hefja beint flug í maí og fljúga daglega milli vallanna þar til í október, en leiðin hefur verið á sumaráætlun þess frá árinu 2018. United mun þó áfram fljúga milli Chicago O'Hare flugvallar og Keflavíkur.

Átt erfitt með að skila hagnaði

Þetta kemur fram á vefsíðunni The Points Guy, en þar segir að ákvörðun United valdi nokkurri furðu, þar sem Ísland hafi verið vinsæll áfangastaður bandarískra ferðamanna síðustu sumur. Landið hafi verið eitt það fyrsta til að opna eftir kórónuveirufaraldurinn og mikil spurn hefur verið eftir flugi til landsins.

Fram kemur að þrátt fyrir vinsældir Íslands sem ferðamannastaðar þá hafi bandarísku flugfélögin átt erfitt með að skila hagnaði af flugi sínu til landsins.

Það sé ekki síst vegna samkeppni við íslensku félögin, sem auk hagstæðs miðaverðs bjóði upp á tengiflug til Evrópu.

mbl.is