Ódýrustu borgirnar í Evrópu

Samsett mynd

Evrópa er stútfull af ríkri menningu, stórbrotinni sögu, guðdómlegum arkitektúr og fallegu landslagi. Áfangastaðirnir eru jafn fjölbreyttir og þeir eru margir, en þeir eru hins vegar ekki allir jafn hagstæðir fyrir ferðamenn. 

Það þarf ekki að vera samasemmerki á milli ferðalaga og tómrar bankabókar. Það veit ferðavefur Condé Nast Traveller og gerði nýverið samantekt á ódýrustu borgum Evrópu fyrir árið 2023 sem allar bjóða upp á einstaka upplifun fyrir ferðamenn á öllum aldri. 

Aþena í Grikklandi

Fram kemur á vef Condé Nast Traveller að Aþena höfuðborg Grikklands hafi verið valin ódýrasti áfangastaðurinn fyrir borgaferð í haust og benda á að verðið hafi lækkað um 15% síðan 2021. 

Hótel í Aþenu eru á sérstaklega góðu verði, en eftir að hafa kannað valmöguleika í borginni virtust tvær nætur á þriggja stjörnu hóteli fyrir tvo gesti kosta að meðaltali 100 evrur sem nemur rúmum 15 þúsund krónum á gengi dagsins í dag. 

Aþena í Grikklandi.
Aþena í Grikklandi. Ljósmynd/Pexels/Enrique Hoyos

Lissabon í Portúgal

Þó svo hin fallega portúgalska höfuðborg Lissabon sé þekkt fyrir margverðlaunaða veitingastaði er vel hægt að njóta matarsenu borgarinnar fyrir minni pening. Þar er næstódýrast, á eftir Aþenu, að panta þriggja rétta máltíð, en hún kostar að meðaltali um 45 evrur, sem nemur tæpum sjö þúsund krónum á gengi dagsins í dag. 

Þá er bjórinn á sérstaklega góðu verði í borginni, en hann kostar í kringum tvær evrur sem eru ekki nema rúmar 300 krónur. 

Lissabon í Portúgal.
Lissabon í Portúgal. Ljósmynd/Unsplash/Veronika Jorojobert

Klagenfurt í Austurríki

Klagenfurt er ein af ódýrustu borgum Austurríkis, en stórbrotin náttúra við austurbakka Wörthersee-vatnsins gerir borgina líka eina af þeim vinsælustu. Matur er á góðu verði í borginni, en þar kosta aðalréttir á veitingastöðum í kringum sex evrur, eða rúmar 900 krónur. 

Júní er ódýrasti mánuðurinn til að heimsækja borgina, rétt áður en sumargestirnir streyma inn í hana, og njóta sólarinnar við vatnið. 

Klagenfurt í Austurríki.
Klagenfurt í Austurríki. Ljósmynd/Unsplash/Sasa Pliso

Kaunas í Litháen

Vilníus, höfuðborg Litháen, hefur lengi verið efst á lista yfir ódýrustu áfangastaði Evrópu. Hins vegar er borgin Kaunas, sem er aðeins vestar, enn ódýrari og var fyrr á þessu ári tilnefnd ein af menningarhöfuðborgum Evrópu fyrir árið 2022. 

Fjögurra stjörnu hótelherbergi kosta að meðaltali 60 evrur nóttin, eða rúmlega níu þúsund krónur miðað við gengi dagsins í dag. Þá er ódýrt að fara með kláfferju upp Aleksoto-hæð og njóta guðdómlegs útsýnis yfir borgina. 

Kaunas í Litháen.
Kaunas í Litháen. Ljósmynd/Pexels/Misael Silvera

Ríga í Lettlandi

Ríga er höfuðborg Lettlands og ein ódýrasta borgin í Evrópu. Gamli bærinn þykir einstaklega heillandi og komst á heimsminjaskrá UNESCO árið 1997, enda býr borgin yfir merkilegri sögu og ótrúlegum arkitektúr sem aðgreinir hana frá öðrum evrópskum borgum. 

Hótelgisting í borginni er á góðu verði og sérstaklega mælt með því að fara niður að bökkum Daugava-árinnar og njóta útsýnisins. 

Ríga í Lettlandi.
Ríga í Lettlandi. Ljósmynd/Pexels/Aleksandra Zadiraka

Berat í Albaníu

Berat í Albaníu er sannkallað augnakonfekt með glæsilegum arkitektúr og einstöku umhverfi. Gisting í borginni er á hagstæðu verði, en þar eru mörg gistihús og sjálfstætt rekin hótel þar sem nóttin er í kringum 40 evrur, eða um sex þúsund krónur. 

Bærinn er oft kallaður „þúsund glugga bærinn“ og sérstaklega mælt með að fara og sjá Berat-kastalann frá 13. öld, en aðgangur er ókeypis og veitir ótrúlegt útsýni yfir borgina. 

Berat í Albaníu.
Berat í Albaníu. Ljósmynd/Pexels/Klajdi Cena

Brasov í Rúmeníu

Brasov er ódýrari kostur en Búkarest en ekki síður fallegur áfangastaður enda umkringdur fallegu Karpatafjöllunum. Kláfferja upp á topp Tampa-fjalls kostar tæpar fjórar evrur sem nemur rúmum 600 krónum. 

Brasov í Rúmeníu.
Brasov í Rúmeníu. Ljósmynd/Pexels/Ana-Maria Antonenco

Sófía í Búlgaríu

Sófía, höfuðborg Búlgaríu, er ekki einungis einn ódýrasti áfangastaður Evrópu heldur eru í nágrenni borgarinnar einnig nokkur af ódýrustu skíðasvæðum heims. Sófía er í rúmlega 10 km fjarlægð frá Vitosha-fjöllunum sem bjóða upp á snæviþaktar skíðabrekkur sem eru með mun hagstæðari verðmiða en sambærileg svæði í Frakklandi eða Ítalíu. 

Vín og búlgarskur bjór eru á góðu verði, en bærinn er þekktur fyrir góða stemningu þar sem aðgangur að klúbbum kostar sjaldan meira en 10 evrur, eða rúmlega 1.500 krónur. 

Sófía í Búlgaríu.
Sófía í Búlgaríu. Ljósmynd/Unsplash/Alexndr Bormotin
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert