Skilin eftir úti í sjónum í köfunarferð

Parið var skilið eftir í sjónum úti fyrir Lanai.
Parið var skilið eftir í sjónum úti fyrir Lanai. Ljósmynd/Unsplash

Hjón í Bandaríkjunum hafa höfðað mál gegn Sail Maui, fyrirtæki sem býður upp á köfunarferðir, eftir að þau voru skilin eftir úti í sjónum við eyjuna Lanai, sem er ein eyja Havaí.

Elizabeth Webster og Alexander Burckle voru í brúðkaupsferð sinni og skráðu sig í köfunarferð við strendur Lanai í september 2021. Washington Post greinir frá.

Voru þau að kafa við Lanai og áttu að fara snúa aftur í bátinn þegar þau tóku eftir því að hann færðist frá þem en ekki til þeirra. Voru þau um 800 metra frá landi þegar báturinn sigldi í burtu. 

Í málshöfðun sinni segjast þau hafa óttast um líf sitt á meðan þau börðust í gegnum öldurnar og syntu í land. Þaðan var þeim að lokum bjargað. 

„Ef ekki væri um að ræða ungt par í góðu formi, hefðu þau sennilega drukknað,“ sagði lögmaður hjónanna,JaredWashkowitz. 

Parið voru reyndir kafarar.
Parið voru reyndir kafarar. Ljósmynd/Unsplash

Reyndir kafarar

Webster og Burckle höfðu bæði áður farið að kafa og höfðu nokkra reynslu af því. Þau keyptu miða í ferð Sail Maui, en með í ferðinni voru 42 aðrir kafarar. Fyrirhugað var að sigla frá Maui yfir að ströndum Lanai og stoppa á nokkrum stöðum við eyjuna og kafa. 

Annar kafari um borð bar vitni og sagði allt hafa verið eðlilegt þegar siglt var út. Um 10:40 hafi báturinn kastað akkeri út af ströndinni og skipstjórinn sagt hópnum að þau hefðu klukkutíma til að kafa áður en haldið væri á næsta stað. 

Hún, Jess Herbert, segir að hún ásamt Webster og Burckle hafi synt lengst frá bátnum. Hún minnist þess að hafa vinkað í þau og haldið í aðra átt í leit að kóralrifum og fiskum. Seinna þegar hún kom aftur í bátinn sagði hún að hjónin hafi synt lengra frá bátnum og spurði hvort þau væru komin um borð. Hún segir áhöfnina hafa sagt að þau væru það. 

En Webster og Burckle voru enn í sjónum að reyna að komast aftur um borð en öldugangurinn jókst. Þau segjast hafa synt í 30 mínútur en ekki komist langt. Þá hafi þau reynt að kalla eftir hjálp. 

Herbert segir að ef einhver um borð hefði horft til baka hefðu þau séð hjónin í vandræðum. 

Skrifuðu HJÁLP í sandinn

Þegar Webster og Burckle áttuðu sig á því að báturinn sigldi frá þeim, og að þau væru þar af leiðandi líka að synda lengra frá landi, urðu þau hrædd. „Aðstæðurnar versnuðu og versnuðu á meðan þau voru þarna. Þau eru heppin að hafa komist aftur til baka,“ sagði lögmaður þeirra. 

Þau áttu ekki annarra kosta völ en að synda aftur til Lanai og komust þar í land um klukkan 13. Þá höfðu þau verið í sjónum í um tvo tíma og voru úrvinda. Þau skrifuðu HJÁLP í sandinn og SOS. Þau vinkuðu svo í alla báta sem sigldu fram hjá, án árangurs.

Að lokum fengu þau aðstoð frá tveimur íbúum á eyjunni sem komu þeim í ferjuna síðdegis til Maui. Þau fengu lánaðan síma og hringdu í Sail Maui, en þar hafði enginn tekið eftir því að tvo vantaði í hópinn að sögn Washkowitz. 

Daginn eftir hittu hjónin aftur vinkonu sína af bátnum, Herbert, og sögðu henni allar sólarsöguna. Hún segist hafa farið að gráta og fundið til með þeim. 

Hjónin dvöldu á Havaí í þrjá daga í viðbót áður en þau fóru aftur heim til Kaliforníu. 

mbl.is