Ráð til að verjast mesta hitanum í fríinu

Gott er að kæla sig niður í vatni og skugga …
Gott er að kæla sig niður í vatni og skugga eins og þessir hópur gerir í Kaíró í Egyptalandi. AFP/Khaled Desouki

Hitabylgjur leggjast yfir heimsbyggðina alla um þessar mundir og eru hitamet slegin nánast á hverjum einasta degi.

Ferðavefurinn tók saman nokkur ráð um hvernig á að verjast mesta hitanum, fyrir þau sem eru á faraldsfæti í sumarfríinu.

  1. Drekkið nóg af vatni og takmarkið áfengisneyslu: Öll vita mikilvægi þess að drekka nóg af vatni en auðvelt er að gleyma að hafa vatnsflöskuna með þegar haldið er í frí. Á þessum síðustu og verstu er einstaklega mikilvægt að muna eftir því að drekka nóg af vökva og viðhalda blóðsykrinum. Einnig er gott að hafa við höndina drykki sem innihalda rafsölt, steinefni eins og sölt og magnesíum, sem eru nauðsynleg rafvirkni líkamans. Þó að það sé freistandi að skella í sig nokkrum kokteilum í fríinu er mikilvægt að muna að áfengi veldur vökvatapi og því er skynsamlegt að takmarka áfengisneysluna í miklum hita, að minnsta kosti drekka nóg af vatni með.

  2. Hafið dregið fyrir þegar þið eruð inni: Þó tilhneigingin hjá mörgum sé að opna glugga meðan á hitabylgju stendur, mun það eingöngu þjóna þeim tilgangi að hleypa hitanum inn. Betra er að draga gluggatjöld fyrir í gistirýminu til að halda heitu loftinu og sólinni úti. 

  3. Takið ykkur „siestu“: Það er ástæða fyrir því að íbúar við Miðjarðarhafið taka siestuna sína jafn alvarlega og þeir gera. Ef þið skipuleggið fríið þannig að þið forðist mesta hitann er líklegra að fríið verði ánægjulegra. Gott er að byrja fyrr á daginn og skipuleggja skoðunarferðir á morgnana. Yfir heitasta tíma dagsins er tilvalið að fara aftur þangað sem þið gistið, kveikja á loftkælingunni og fá sér lúr. Ef gististaðurinn býr ekki yfir loftkælingu eru önnur ráð í boði, eins og að bleyta upp í handklæði eða nota frystinn til að kæla koddann.
  4. Farið í kalda sturtu eða bað: Kalt vatn lækkar líkamshitann fljótt og því er gott að fara í kalda sturtu ef hitinn er óbærilegur. Þetta er sérstaklega mikilvægt ef ykkur grunar að þið sjálf eða einhver í kringum ykkur sé að fá sólsting. Mikilvægt er þó að hringja eftir læknishjálp ef þörf krefur.

  5. Veljið fötin vandlega: Forðastu föt í dökkum litum sem drekka í sig hita og vertu viss um að vera með sólhatt eða derhúfu. Bómullarfatnaður og hörfatnaður í víðari kantinum og ljósum litum heldur ykkur svölum og kemur í veg fyrir sólbruna.

  6. Fylgist með mælingum á útfjólubláum geislum: Í flestum snjallsímum er innbyggt veðurforrit þar sem auðvelt er að fylgjast með hitastigi og útfjólublárri geislun frá sólinni. Hjálpar þetta ykkur að taka upplýstar ákvarðanir um hvenær á að forðast sólarljósið.

  7. Haldið ykkur í skugganum yfir heitasta tímann: Best er að halda sig innandyra yfir heitasta tíma dagsins, en ef það er ekki möguleiki er gott að nýta sólhlífar til að forðast mestu sólina, hvort sem þið eruð á göngu eða kyrrstæð. Hægt er að fara á söfn þar sem loftræstingu er að finna. Þá sláið þið tvær flugur í einu höggi, skýlið ykkur frá hitanum og upplifið menningu landsins sem þið heimsækið.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert