„Fólk notaði regnhlífar sem sólhlífar“

Jósteinn Kristjánsson, sem er staddur í Chengdu í Kína, segir …
Jósteinn Kristjánsson, sem er staddur í Chengdu í Kína, segir frá hitaveðri sem hefur verið þar síðustu daga. Þar er hann staddur til þess að taka þátt í milliríkjakeppni í Kínversku. Samsett mynd

„Þetta fór upp í 40 gráður og stóð alveg í tíu daga, með 90% raka. Þetta er eins og að vera í eyðimörk,“ segir Jósteinn Kristjánsson, sem staddur er í Chengdu í miðaustanverðu Kína. „Maður var kominn með blautt hár bara við það að fara út í sjoppu.“

Hita­met var slegið í Kína um helg­ina og mældust hátt í 52,2 gráður í þorpi í norðvest­ur­hluta lands­ins. Ekki varð svo heitt þar sem Jósteinn var niðurkominn en þó mældust hátt í 40 gráður þegar hann var staddur í Sjanghæ og Shangdon.

Jósteinn segir að það hafi orðið svo heitt og rakt að þoka lagðist yfir borgina, sem minnti á eyðimörk. Það hafi einnig bætt gráu ofan á svart að margar byggingarnar í Sjanghæ séu gerðar úr gleri og endurspegli því sólina.

Jósteinn Kristjánsson í Sjanghæ.
Jósteinn Kristjánsson í Sjanghæ. Ljósmynd/Aðsend

Heimamenn halda sig heima

Heimamenn gripu til ýmissa ráða til þess að komast undan sólinni en ein aðferð reyndist vinsælust.

„Fólk notaði regnhlífar sem sólhlífar, það var svo heitt,“ segir Jósteinn og bætir við að Kínverjar hafi margir hreinlega sleppt því að fara úr húsi á þeim dögum sem hitinn var sem mestur. Göturnar hafi því einnig verið tómlegri en annars.

„Kínverskir vinir mínir sem eru hérna fóru bara ekki út, jafnvel þótt þeir þoli þetta miklu betur en ég. Þeir svitna ekkert eins og ég,“ segir hann. „Þessa viku sem hitabylgjan var var ekkert að gera í borginni.“

Þrátt fyrir að vera ein stærsta borg heims var lítið …
Þrátt fyrir að vera ein stærsta borg heims var lítið um líf á götunum. Ljósmynd/Aðsend

„Allir vegir leiða til Kína“

Jósteinn er tuttugu og eins árs og staddur í Kína þar sem hann mun taka þátt í milliríkjakeppni í kínversku. Vann hann undankeppni á Íslandi til þess að taka þátt í keppninni. Hann segist hann hafa tekið sér svokallað pásuár eftir menntaskóla til að læra kínversku.

Í haust hefur hann nám í Chengdu þar sem hann mun halda áfram að læra kínversku en auk þess um kínversk stjórnmál. Spurður hver kveikjan að áhuga hans á kínverskri menningu og máli hafi verið segist hann sjá marga möguleika í Kína.

„Það stefnir allt í það að Kína verði stærsta efnahagskerfi heims,“ segir hann. „Þetta er nú þegar það næststærsta.

Allir vegir leiða til Kína,“ segir hann að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert