Bláfjallagangan er fyrir alla

„Bláfjallagangan er almenningsganga sem er sérstaklega hugsuð fyrir byrjendur og almenning. Vissulega er keppnisfólk sem tekur þátt, en þau eru fremst og ekki fyrir neinum, þannig að hún er sérstaklega ætluð hinum almenna skíðaiðkanda,“ segir Einar Ólafsson, einn af skipuleggjendum keppninnar sem fer fram 30. mars í Bláfjöllum. Keppnin er opin öllum aldursflokkum og því tilvalið fyrir alla fjölskylduna að taka þátt. „Í ár bjóðum við líka upp á skemmtilega nýjung en það verður hægt að skrá sig í parakeppni, kona og karl eða kona og kona, og er það þá samanlagður tími sem gildir.“

Mikil gleði og stemming ríkir í Bláfjallagöngunni.
Mikil gleði og stemming ríkir í Bláfjallagöngunni. Ljósmyndari/ Árni Tryggvason

Búast má við miklu fjöri og skemmtilegheitum meðan á göngunni stendur og segir Einar að boðið verði upp á heitt kakó, dúndrandi góða tónlist og kökuhlaðborð að keppni lokinni. „Mjög vegleg útdráttarverðlaun verða á meðan fólk gæðir sér á kræsingunum, en nú þegar erum við með útdráttarverðlaun fyrir nokkur hundruð þúsund króna, meðal annars flugferð erlendis, ferðir eða gistingu með ferðaskrifstofum, íþróttafatnað, skíði og fleira. Það er því eftir miklu að sækjast bara með því að vera með,“ segir Einar og bætir við að ásóknin í gönguna hafi aukist ár frá ári en í fyrra hafi veðrið ekki verið upp á marga fiska. „Við erum því búin að leggja inn pöntun fyrir toppveðri í ár.“

Ásóknin í aðrar almenningsgöngur hefur aukist verulega og sem dæmi var uppselt í Fjarðargönguna á Ólafsfirði á dögunum og nú þegar er orðið uppselt í Strandagönguna á Hólmavík sem haldin verður um næstu helgi. „Við erum með sem hámark 150 keppendur í 40 km vegalengdina en tökum fleiri inn í 20 km, 10 km og 5 km göngurnar. Við erum alltaf bjartsýn og vonumst eftir að ná alla vega 300 manns í gönguna í ár, þannig að við hvetjum fólk til að skrá sig og komast þá líka í forskráningarhappdrættið í leiðinni.“ 

Einar Ólafsson Ullungur ásamt frískum þátttakendum.
Einar Ólafsson Ullungur ásamt frískum þátttakendum. Ljósmynd/ Árni Tryggvason

Hægt er að skrá þátttöku á heimasíðu Ullar ásamt því að finna allar helstu upplýsingar um gönguna. Skráning er hafin og lýkur á keppnisdaginn sjálfan en fyrir þá sem hafa hug á því að skrá sig í parakeppni opnar fyrir skráningu þremur dögum fyrir keppnina. 

Að lokum hvetur Einar þá sem hafa hug á því að taka þátt í Fossavatnsgöngunni eða Vasagöngunni, að skrá þátttöku sína því Bláfjallagangan sé upplögð upphitun. „Þess má svo geta að Bláfjallagangan verður hluti af Euroloppet, alþjóðlegu skíðagöngumótaseríunni, á næsta ári og má því ætla að töluverð aukning verði á fjölda þátttakenda í ár,“ segir Einar og bætir við að veturinn verði nýttur til undirbúnings mótaseríunni og að mikil tilhlökkun sé á meðal félagsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert