Jólasveinn stökk út í ískalda Laxá á leiðinni til byggða

Rétt fyrir jól sást til jólasveinsins innst inni í Hvalfirðinum.
Rétt fyrir jól sást til jólasveinsins innst inni í Hvalfirðinum. Ljósmynd/Ómar Ragnarsson

Íslenskur jólasveinn hefur vakið þó nokkra athygli á samfélagsmiðlum eftir að myndskeið birtist af honum taka þátt í áhættuatriði rétt fyrir jól. Svo virðist sem jólasveinninn hafi ákveðið að taka útúrdúr á leið sinni til byggða, en hann kom við í Laxá í Kjósinni þar sem hann skellti sér í ískalt jólabað.

Í tilefni jólanna ákvað Aron Freyr Kristjánsson að hoppa af háum klettum, klæddur sem jólasveinn frá toppi til táar, út í ískalda Laxána í -7 gráða frosti. Blaðamaður ferðavefs mbl.is sló á þráðinn til Arons og heyrði í honum hljóðið.

Aðspurður segir Aron hugmyndina hafa kviknað þegar hann og vinur hans, ljósmyndarinn Ómar Ragnarsson, voru að spjalla um drónamyndskeið. „Ég var búinn að vera að skoða fullt af snjóbretta myndskeiðum á Instagram og langaði að búa til myndskeið af mér í mínu sporti,“ segir Aron. 

Eins og nafnið gefur til kynna rennur lax niður Laxána, …
Eins og nafnið gefur til kynna rennur lax niður Laxána, en Aron segir veiðimenn hafa beðið þá um að mæta frekar þegar veiðitímabilið væri búið, sem þeir gerðu. „Veiðimenn eru ekki spenntir fyrir því að sjá okkur á veiðitímabilinu, sem við virðum,“ segir hann. Ljósmynd/Ómar Ragnarsson

Ekkert djók að synda í jólasveinabúningi

Aron segir upplifunina hafa verið skemmtilega, hann hafi oft stokkið af hærri klettum en kuldinn hafi gert stökkið krefjandi. „Ég hef stokkið í kulda áður, en aldrei í svona miklu frosti. Ég stökk til dæmis í Kleifarvatn þegar það voru -3 gráður og klaki, en það var ekkert í líkingu við þetta. Þetta var algjört adrenalín kikk,“ segir Aron. 

„Ég var í blautbúning innan undir jólasveinabúningnum svo mér varð ekki kalt strax. Það er ekkert djók að synda í jólasveinabúningi þegar það er straumur og mikið frost, ég fann alveg hvað adrenalínið og kuldinn drógu mikla orku úr mér. En vá hvað þetta var gaman,“ bætir hann við. 

Ljósmyndarinn Ómar Ragnarsson tók ljósmyndirnar og myndskeiðið sjálft.
Ljósmyndarinn Ómar Ragnarsson tók ljósmyndirnar og myndskeiðið sjálft. Ljósmynd/Ómar Ragnarsson

Kaldur sundsprettur á leiðinni til byggða

„Ef einhver á eftir að fá í skóinn þá er ég bara á leiðinni. Tók smá sundsprett fyrir ykkur,“ skrifaði Aron við myndskeiðið sem sjá má hér að neðan.

View this post on Instagram

A post shared by Aron Freyr (@aronfreyrr)

mbl.is