Tók óvænta u-beygju og flutti til San Francisco

Guðrún Jóna Gestsdóttir er búsett í San Francisco í Kaliforníu …
Guðrún Jóna Gestsdóttir er búsett í San Francisco í Kaliforníu ásamt kærasta sínum.

Guðrún Jóna Gestsdóttir tók óvænta u-beygju haustið 2018 þegar hún ákvað á síðustu stundu að flytja til San Francisco í Kaliforníu ásamt kærasta sínum, Fannari Frey Ómarssyni. Í kjölfarið sótti hún um draumanámið, en í lok desember útskrifaðist hún með BA-gráðu í innanhúsarkitektúr og hönnun frá The Academy of Arts University. 

Guðrún varð strax hugfangin af San Francisco, enda segir hún fátt betra en að rölta um borgina og skoða öll fallegu hverfin, húsin og umhverfið í kring. „San Francisco er einstök borg og er í raun mjög evrópsk að mörgu leyti sem ég myndi segja að væri mjög jákvætt. Hér er allt út í fallegum görðum, góðum kaffihúsum og veitingastöðum, en borgin er alltaf full af lífi,“ segir Guðrún. 

Guðrún segir San Francisco vera evrópska að mörgu leyti, en …
Guðrún segir San Francisco vera evrópska að mörgu leyti, en hún varð strax yfir sig hrifin af borginni.

„Í raun frekar mikil skyndiákvörðun“

Guðrún og Fannar hafa verið búsett í San Francisco síðastliðin fjögur og hálft ár. „Þetta var í raun frekar mikil skyndiákvörðun, en kærastinn minn var á leiðinni hingað í nám á fótboltastyrk og ég ákvað á síðustu stundu að flytja út með honum. Ég sótti í kjölfarið um nám, en það hafði lengi verið draumur hjá mér að flytja út og læra innanhúsarkitektúr,“ útskýrir Guðrún. 

Guðrún og Fannar eru búsett í Nob Hill hverfinu sem er miðsvæðis í borginni og að sögn Guðrúnar í göngufæri við flest allt. „San Francisco er mjög góð borg, en þrátt fyrir að vera stórborg get ég labbað nánast hvert sem ég fer. Brekkurnar geta hins vegar stundum verið svolítið brattar og erfiðar, en þá er mjög auðvelt að taka strætó eða panta Úber fyrir lengri vegalengdir,“ segir Guðrún. 

Útsýnið er ekki af verri endanum.
Útsýnið er ekki af verri endanum.

Fjölbreytileikinn heillandi

„Skólinn er ekki beint þessi hefðbundni háskóli með eitt háskólasvæði heldur er hann í rauninni dreifður út um alla borgina. Arkitektúrsbyggingin er staðsett aðeins í burtu frá íbúðinni okkar, en skólinn er með skólastrætó sem er mjög þægilegt að nota til að komast til og frá skóla, sem og á milli bygginga,“ bætir hún við. Meðfram náminu starfaði Guðrún sem hönnunarnemi hjá IA Interior Architects. 

Hvernig var háskólasamfélagið í skólanum?

„Háskólalífið var aðeins frábrugðið þessum hefðbundnu amerísku háskólum þar sem það er ekki sérstakt háskólasvæði (e. campus) sem breytist dínamíkinni svolítið. Ég á mjög góða vini úr minni deild í skólanum sem ég hef kynnst í gegnum árin, en ég var líka að vinna í skólamötuneytinu með skólanum fyrstu árin mín hér og þá kynntist ég mikið af fólki úr öðrum deildum.“

Guðrún með verkefni sitt úr skólanum á sýningu vorið 2022.
Guðrún með verkefni sitt úr skólanum á sýningu vorið 2022.

„Eitt af því sem ég elska mest við þennan skóla og í rauninni bara við borgina sjálfa er hvað það er mikill fjölbreytileiki. Maður fær að kynnast fólki frá mismunandi löndum, bakgrunn og menningu, sem mér finnst vera svo ótrúlega mikilvægt og þroskandi enda getur maður lært svo margt af öllum sem maður kynnist. The Academy of Art er líka mikill Íslendingaskóli, en mjög margir hafa komið hingað í nám á fótboltastyrk í gegnum árin og margir sem fá vinnu og búa hér áfram að námi loknu.“ 

„Við erum þess vegna með mjög gott og náið Íslendingasamfélag hérna í San Francisco sem ég er svo ótrúlega þakklát fyrir. Þau eru svona „my family away from home“ og hafa gert upplifunina mína hér úti svo margfalt betri.“

Guðrún ásamt vinkonu sinni, Katrínu, með Golden Gate-brúna í bakgrunn.
Guðrún ásamt vinkonu sinni, Katrínu, með Golden Gate-brúna í bakgrunn.

Hvernig var hefðbundinn dagur í þínu lífi í skólanum?

„Þá daga sem ég var ekki að vinna var ég mjög upptekin í skólanum og við lærdóm. Allir tímarnir síðustu önnina voru til að mynda á netinu svo það var svolítið undir mér sjálfri komið að passa upp á skipulagið og sinna náminu. Um helgar reyndi ég svo að gera eitthvað skemmtilegt með vinum mínum, kíkja í garða eða á ströndina ef veðrið var gott til að brjóta aðeins upp vikuna sem var oftast mjög þétt setin og ekki mikill frítími.“

Á síðustu önninni voru allir tímar á netinu, svo Guðrún …
Á síðustu önninni voru allir tímar á netinu, svo Guðrún þurfti að passa vel upp á skipulagið.

Hvað gerir þú þér til skemmtunar í borginni?

„Það er alltaf nóg að gera í San Francisco, en mér finnst ótrúlega gaman að rölta um borgina, skoða nýja staði og borða góðan mat. Þegar það er gott veður þá elska ég að fara á ströndina eða í garðinn með vinum mínum, fá okkur nokkra drykki og njóta í sólinni.“

„Sausalito er lítill fallegur bær hinum megin við Golden Gate-brúna sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, en það er ótrúlega gaman að gera sér smá dagsferð og hjóla þangað yfir. Þar finnst mér æðilegt að rölta meðfram bryggjunni, dást að útsýninu og setjast niður á Bar Bocca í pítsu og drykk við ströndina, og taka svo ferjuna til baka til San Francisco.“

Guðrún ásamt vinkonu sinni á ströndinni.
Guðrún ásamt vinkonu sinni á ströndinni.

Er eitthvað sem kom þér á óvart þegar þú fluttir út?

„Ég hafði í raun ekki gert mér miklar væntingar og vissi ekki alveg við hverju ég ætti að búast áður en ég flutti út þar sem þetta var frekar mikil skyndiákvörðun og allt gerðist voða hratt.“

„Allt Visa ferlið var hins vegar frekar stressandi og krefjandi, en Ameríka er ekki beint að gera það auðvelt fyrir fólk að flytja hingað úr. Leiguverðið í San Francisco er líka mjög hátt svo það var smá sjokk svona fyrst, en ég var heppin að Fannar fór á undan mér út og var þá búinn að finna fyrir okkur stúdíó íbúð á fínum díl áður en ég kom út, svo ég þurfti ekki mikið að stússast í því.“

Notalegt á ströndinni.
Notalegt á ströndinni.

Hvað er ómissandi að sjá og gera í San Fransisco?

„Fyrst og fremst er það auðvitað Golden Gate-brúin, og ég mæli sérstaklega með að hjóla yfir hana til Suasalito. Það er líka ótrúlega gaman að keyra yfir til Napa Valley eða Sonoma í vínsmökkun. Svo mæli ég bara með því að rölta um borgina, kíkja í Marina, North Beach og Hayes Valley fyrir góða veitingastaði og geggjaða stemningu. Pacific Heights er ómissandi fyrir fallegar arkitektúr, en þar er meðal annars Palace of Fine Arts sem er ótrúlega fallegt og ómissandi að sjá að mínu mati.“

Hvernig er draumadagur í borginni?

„Minn draumadagur í borginni væri að vakna snemma og labba með vinum mínum á ströndina á heitum og sólríkum degi, og eyða deginum þar með nóg af góðum mat og drykkjum þar til sólin sest. Eftir sólsetur væri svo ljúft að rölta á góðan veitingastað, borða og njóta þar, og enda daginn svo á smá stemningu á góðum bar eða horfa á góða bíómynd heima og hafa það kósí.“

Guðrún og Fannar ásamt íslenskum vinum sínum í San Fransisco.
Guðrún og Fannar ásamt íslenskum vinum sínum í San Fransisco.

Áttu þér uppáhaldsveitingastað í borginni?

„San Francisco er með ótrúlega mikið af góðum veitingastöðum út um alla borg og alltaf nóg af nýjum stöðum til að prófa. Mínir uppáhaldsveitingastaðir í augnablikinu eru Gusto Pinsa Romana, Roma Anitca, Tacko, Ryoko's og Okoze Sushi.“

Hvar er best að versla?

„Union Square og þar í kring er svona aðal verslunarsvæðið með þessum týpísku vinsælu búðum. Svo er mjög gaman að rölta Filmore Street, Union Street og Chestnut Street, en þar er meira um minni búðir í bland við veitingastaði.“

„San Francisco er líka þekkt fyrir góðar „thrift“ búðir og það er alveg nóg af þeim, til dæmis í Haight-Ashbury og Northbeach.“

Falleg mynd af borginni.
Falleg mynd af borginni.

Eru einhverjar „túristagildrur“ sem fólk ætti að varast?

„Það eru ekki beint neinar túristagildrur held ég, en ég myndi segja að Pier 39 og Fisherman's Whardf séu miklir túristastaðir og frekar mikið ofmetnir að mínu mati.“

Hefur þú ferðast eitthvað um Kaliforníu?

„Ég hef því miður ekki ferðast nógu mikið um Kaliforníu, en planið er að gera meira af því núna þegar ég er útskrifuð og byrjuð að vinna. Hingað til er það helsta Napa Valley og Sonoma, sem eru þekkt fyrir vínekrur og mjög gaman að kíkja þangað í vínsmökkun, en svo er líka ótrúlega fallegt umhverfi þar í kring.“

Guðrún er spennt yfir komandi ferðalögum um Kaliforníu.
Guðrún er spennt yfir komandi ferðalögum um Kaliforníu.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert