„Ég hlakka alltaf til að heim­sækja borg­ina“

Hjónin Snorri Guðmundsson og Inga Geirsdóttir í Tappenkarsee í Austurríki.
Hjónin Snorri Guðmundsson og Inga Geirsdóttir í Tappenkarsee í Austurríki.

Inga Geirsdóttir hefur alla tíð haft áhuga á ferðalögum og hreyfingu, en það var ekki fyrr en hún og eiginmaður hennar, Snorri Guðmundsson, fluttu erlendis árið 2005 sem hún smitaðist af göngubakteríunni.

Hjónin fluttu í lítinn bæ nálægt Edinborg í Skotlandi og urðu strax hugfangin af landinu. Þau fóru fljótlega að skipuleggja gönguferðir um náttúru Skotlands fyrir vini og ættingja sem þróuðust með árunum, en í dag eiga þau ferðaþjónustufyrirtæki sem þau reka ásamt dóttur sinni, Margréti. 

Á síðustu tæpum tveimur áratugum hefur Inga ferðast víðsvegar um heiminn og gengið á ótrúlegum slóðum, allt frá því að sigla frá Singapúr til Taílands yfir í krefjandi gönguferðir um eldfjallalandslag á Nýja Sjálandi. 

Hefur þú alltaf haft áhuga á ferðalögum?

„Mín reynsla er að flestir hafa gaman að því að ferðast og ég er þar engin undanteknin. Að upplifa eitthvað nýtt, koma á nýjar slóðir og kynnast nýju fólki gefur lífinu lit. Veistu, ég held að ferðalög geti bætt okkur sem manneskjur, minnkað fordóma og gert okkur víðsýnni.“

En útivist?

„Ég hef alltaf stundað fjölbreytta hreyfingu, en þegar ég bjó á Íslandi þá fór ég mikið í golf, sund og ræktina. Það var hins vegar ekki fyrr en ég flutti út árið 2005 að göngur fóru að vera mitt aðal áhugamál og má því segja að ég sé í mínu draumastarfi.

Einu sinni var fólk nú ekkert að ganga að óþörfu, enda margir í erfiðisvinnu. Nú vitum við hins vegar að útivera og göngur eru mikilvæg heilsubót. Það er manninum eðlilegt að ganga svo rétt eins og það er eðlilegt fyrir fugla að fljúga, svo ég segi bara, um að gera – tökum göngu.“

Ingu þykir bærinn St Ives einstaklega fallegur, en hann er …
Ingu þykir bærinn St Ives einstaklega fallegur, en hann er staðsettur í Cornwall á suðvestur-Englandi.

Hvernig ferðalögum ert þú hrifnust af?

„Ég er mest hrifin af ferðum sem eru blanda af útivistar- og skoðunarferðum. En síðan hef ég mikið verið að spá í að keyra um Evrópu, eins og maður gerði í „denn“ og jafnvel vera ekki með nein plön heldur láta dagana og umhverfið ráðast að því hvar maður gistir hverju sinni og keyra í gegnum nokkur lönd. Það yrði örugglega bæði fróðlegt og gaman.“

Áttu þér uppáhaldsborg í Evrópu?

„Mín uppáhaldsborg er Edinborg. Borgin er lítil og þægileg, með fjölmörgum fallegum byggingum og sögufræðum stöðum. Ég hlakka alltaf til að heimsækja borgina þó svo ég sé ekki í nema 30 mínútna akstursfjarlægð frá Edinborg, en þangað kem ég oft. Svo er hún einstaklega sjarmerandi á aðventunni og þeir sem ég hef leitt inn í jólastemninguna þar kunna vel að meta hana.“

„Bled í Slóveníu er einn fallegasti staður í Evrópu að …
„Bled í Slóveníu er einn fallegasti staður í Evrópu að mínu mati.“

En fyrir utan Evrópu?

„Fyrir utan Evrópu þá hefur Singapúr staðið upp úr, en þangað hef ég komið tvisvar og síðast um áramótin 2019. Singapúr er einstaklega falleg og snyrtileg borg sem dásamlegt er að heimsækja.“

Áttu þér uppáhaldsgönguleið í Evrópu?

„Fyrsta skipulagða gönguferðin sem við buðum upp á er West Highland Way og hefur hún alltaf verið í miklu uppáhaldi. Þetta er 153 kílómetra gönguleið frá Glasgow til Fort William. Leiðin liggur í gegnum eitthvert fallegasta svæði landsins, meðfram Loch Lomond-stöðuvatninu og tignarlegum fjöllum, um skóga, dali og heiðar.“

Göngugarpar á Great Glen Way horfa yfir Loch Ness-stöðuvatnið, en …
Göngugarpar á Great Glen Way horfa yfir Loch Ness-stöðuvatnið, en sögur segja að skrímslið Nessie búi í vatninu.

En utan Evrópu?

„Við hjónin fórum í göngu í Tongariro-þjóðgarðinum á Nýja Sjálandi þegar maðurinn minn vann þar árið 2016. Þar gengum við vinsæla gönguleið sem kallast Tongariro Alpine Crossing. Nánast öll leiðin er í eldfjallalandslagi, án gróðurs og útsett fyrir veðri.

Ég man hvað það var kalt þarna og hvað þetta minnti mikið á íslenskt landslag. Sjálf hef ég ekki farið í gönguferðir á Íslandi þar sem einu mánuðirnir sem ég er í fríi eru desember og janúar sem er ekki hentugur tími til að ganga heima.“

Hvert er eftirminnilegasta ferðalagið sem þú hefur farið í?

„Eftirminnilegasta ferðalagið var þegar við fórum í siglingu frá Singapúr til Malasíu og Taílands. Á hverjum morgni vaknaði maður á nýjum stað og við fórum í allar skoðunarferðir sem í boði voru. Um næstu áramót ætlum við að skella okkur í aðra siglingu og fara til Víetnam og Kambódíu, það verður trúlega algjört ævintýri.“

Hvernig kom það til að þið ákváðuð að stofna ferðaþjónustufyrirtæki?

„Fljótlega eftir að við fluttum út fórum við að skipuleggja ýmsar ferðir um stórkostlega náttúru Skotlands fyrir vini og ættingja, meðal annars um West Highland Way. Frá ári til árs jókst svo fjöldinn sem vildi koma með í göngu en það var ekki fyrr en árið 2007 að við ákváðum að hella okkur út í þetta af fullum krafti og Skotganga fæddist.“

Ganga um stórbrotna náttúru og sögulegar slóðir

Fyrsta árið fóru hjónin með tæplega 200 Íslendinga um uppáhaldsgönguleið Ingu, West Highland Way. Stuttu síðar fóru þau að bjóða upp á göngu um Great Glen Way sem er 123 kílómetra löng gönguleið frá Fort William til Inverness. 

Gönguhópur við upphaf West Highland Way göngunnar í Skotlandi.
Gönguhópur við upphaf West Highland Way göngunnar í Skotlandi.

„Gengið er framhjá hæsta fjalli Bretlandseyja, Ben Nevis, meðfram stærsta jarðfræðilega misgengi Bretlands og frægasta vatni Bretlands, Loch Ness-stöðuvatninu. Gangan endar í Inverness sem er nyrsta borg Skotlands og höfuðborg hálandanna,“ segir Inga. 

„Mikið af göngunni er meðfram siglingarleið Caledonian Canal, en gerð hennar þykir eitt mesta verkfræðilega afrek Viktoríutímans í Skotlandi. Þetta eru sannarlega sögulegar slóðir og svo bætast við nýjar nútímasögur í hverri ferð því að maður er sannarlega manns gaman þegar Íslendingar ganga saman í vel skipulögðum ferðum á erlendri grund,“ bætir hún við. 

Það eru hins vegar ekki einungis gönguferðir sem eiga hug hennar allan, en árið 2015 ákvað Inga að bjóða upp á kvennaferð til Albír á Spáni. „Eftir það var ekki aftur snúið þar sem þessi ferð sló rækilega í gegn,“ segir Inga og bætir við að í dag séu fjölbreyttar kvennaferðir í boði.

Kvennagleði á Albír þar sem boðið er upp á skemmtilega …
Kvennagleði á Albír þar sem boðið er upp á skemmtilega blöndu af zúmba, jóga og léttum göngum.

Sjálfsræktar- og uppbyggingarferðir sífellt vinsælli

Á síðustu árum hefur mikilvægi andlegrar heilsu orðið meira áberandi í samfélagsumræðunni, og í takt við það hafa svokallaðar sjálfsræktarferðir notið mikilla vinsælda. Inga hefur sannarlega tekið eftir því, en hún og Kristín Linda Jónsdóttir, sálfræðingur, bjóða upp á slíkar ferðir og eru nú á leið í elleftu sjálfsræktar- og uppbyggingarferðina.

„Málið er að íslenskar konur eru svo flottar og snjallar að þær elska að fá viku fyrir sig á góðu hóteli þar sem boðið er upp á faglega og vandaða dagskrá. Þær snúa svo heim ríkari, með betri heilsu, jafnt andlega, líkamlega og félagslega. Auðvitað er gaman að fara í allskonar utanlandsferðir til að skoða og versla, en þetta er alveg spes,“ segir Inga. 

„Í ferðinni er maður hluti af jákvæðum kvennahópi þar sem fræðst er og spjallað um líðan, heilsu, lífsgæði og allskyns aðferðir til sálubótar að morgni. Svo tekur við göngu í sól og yl, spjall við sundlaugarbakkann, ný kynni og gefandi samvera þegar kvöldar. Enda koma þær aftur og aftur, það er bara þannig,“ bætir hún við. 

Á myndinni eru Kristín Lind Jónsdóttir, sálfræðingur, og Inga Geirsdóttir. …
Á myndinni eru Kristín Lind Jónsdóttir, sálfræðingur, og Inga Geirsdóttir. Saman bjóða þær upp á sjálfsræktar- og uppbyggingarferðir þar sem áhersla er lögð á að ferðalangar snúi heim með betri heilsu, bæði andlega og líkamlega.

Framundan hjá Ingu eru fjölmörg spennandi ævintýri og nóg af ferðalögum. „Það er endalaust gaman að taka á móti Íslendingum, slá með þeim á létta strengi, hafa gaman, ganga og upplifa,“ segir Inga og bendir áhugasömum á heimasíðu Skotgöngu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert