Býr í Vestmannaeyjum og rekur heilsugæslu í Gambíu

Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir tók við rekstri heilsugæslu í Kubuneh í …
Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir tók við rekstri heilsugæslu í Kubuneh í Gambíu í ársbyrjun 2021.

Þóra Hrönn Sigurjónsdóttir er búsett í Vestmannaeyjum og rekur heilsugæslu í Kubuneh í Gambíu. Hún heimsótti þorpið í fyrsta sinn árið 2018 og líkir upplifuninni við að ferðast aftur í tímann. Þremur árum síðar var hún svo búin að taka við reksti heilsugæslunnar í Kubuneh og opna samnefnda hringrásarverslun í Vestmannaeyjum til að fjármagna reksturinn.

Í nóvember 2018 fór Þóra í fyrstu heimsóknina til Kubuneh ásamt eiginmanni sínum Daða Pálsyni og börnunum þeirra tveimur, þeim Óliver Daðasyni og Sunnu Daðadóttur. Hún segir ferðina hafa verið mikla upplifun fyrir alla sem erfitt sé að lýsa.

„Maður skynjaði hluti sem maður spáir ekki í dags daglega svo sterkt. Ég man sérstaklega eftir lykt og snertingu. Allir vildu koma við okkur hvíta fólkið. Að sjá fátæktina, börn að bera minni börn á bakinu að sækja vatn í brunna. Drasl út um allt. Að koma inn í Kubuneh var eins og að ferðast aftur í tímann. Krakkar á asnakerrum og fjöldi barna í hverju húsi er eitthvað sem ég á aldrei eftir að skilja,“ segir Þóra.

Þegar Þóra var beðin um að taka við reksti heilsugæslunnar í þorpinu segir hún ekki annað hafa verið hægt en að segja já, en það eru ekki einungis íbúar í þorpinu sjálfu sem hafa aðgang að þjónustunni heldur einnig um 12.000 manns í níu þorpum í kring.

„Þegar ég hafði tekið ákvörðun um að taka við rekstri heilsugæslunnar þurfti ég að finna leið til að fjármagna verkefnið. Hugmyndin um hringrásarverslun kom strax og lá beinast við þar sem ég hef mikinn áhuga á umhverfismálum og það var engin verslun í Vestmannaeyjum sem seldi föt með sögu. Í kjölfarið varð verslunin Kubuneh til,“ útskýrir hún.

Sunna dóttir Þóru með góðum hópi í Kubuneh.
Sunna dóttir Þóru með góðum hópi í Kubuneh.

„Ég gerði mér enga grein fyrir hvað ég var að fara út í“

Búðin opnaði þann 17. desember 2020 en þá var Þóra í annarri 100% vinnu og ætlaði því að hafa frjálslegan opnunartíma, en hún áttaði sig fljótt á því að það væri ekki í boði þar sem hún var með eitthvað alveg einstakt í höndunum.

„Ég gerði mér enga grein fyrir hvað ég var að fara út í. Ég óð bara áfram og notaði tímann í kórónuverufaraldrinum til að standsetja húsnæði sem við keyptum. Það var greinilega þörf fyrir hringrásarverslun og fólk kann að meta tilgang verslunarinnar. Búðin opnaði á algjörlega hárréttum tíma – Loppurnar í Reykjavík voru að slá í gegn og Kubuneh Verslun passaði vel inn í þá pælingu. Að versla föt með sögu er að verða nýjasta tíska og sífellt fleiri átta sig á því að það er engin ástæða til að kaupa nýtt,“ segir hún.

Í dag hefur búðin verið opin í þrjú ár og segir Þóra söluna aukast með hverju árinu, en þegar hafa yfir 45.000 flíkur fengið framhaldslíf í versluninni. „Sala hvers mánaðar er alltaf meiri en í sama mánuði árinu á undan. Verslunin er líka einstök að því leyti að hún er mjög snyrtileg og skipulögð, þú áttar þig ekki endilega á því þegar þú kemur inn að um hringrásarverslun sé að ræða,“ segir hún.

„Þetta er svakalega mikil vinna og mikið af fatnaði sem kemur inn, en allur fatnaður sem fer í sölu á að vera í 100% lagi enda leggjum við mikið upp úr því að ekkert fari í sölu sem sér á,“ bætir hún við.

Kom að öllu galtómu á heilsugæslunni

Þóra tók við rekstri heilsugæslunnar þann 1. janúar 2021, en þá stóð til að loka henni. „Ég tók við rekstrinum af dönskum aðilum sem skildu allt eftir galtómt – bæði bankabókina og lyfjahillurnar,“ segir hún.

Í dag er Þóra með 17 manns á launaskrá og hefur myndað dýrmæt sambönd við einstaklinga sem koma að rekstri og starfsemi heilsugæslunnar. „Ousman Manneh er rúmlega þrítugur strákur sem sér um daglegan rekstur heilsugæslunnar, en hann er lærður hjúkrunarfræðingur og vinnum við rosalega vel saman. Við tölum saman daglega, ræðum um reksturinn, framkvæmdirnar eða bara lífið og tilveruna,“ segir hún.

„Án hans væri þetta algjörlega ómögulegt. Saman höfum við náð að gera heilsugæsluna það góða að gott orðspor hefur ferðast langar leiðir og fólk kemur langt að til að sækja sér þjónustu,“ bætir hún við.

„Það sem er einstakt við heilsugæsluna í Kubuneh er að það er mjög ódýrt að fá þjónustu og það eru eiginlega alltaf til lyf – þannig var það ekki áður og þannig er það alls ekki á öðrum heilsugæslum og sjúkrahúsum í landinu. Þetta hefur verið mikil vinna og mjög krefjandi á köflum því það er ekki auðvelt að koma inn í aðra menningu þar sem allt gerist á hraða snigilsins,“ segir Þóra.

Þó verkefnið hafi verið gefandi fyrir Þóru segir hún það …
Þó verkefnið hafi verið gefandi fyrir Þóru segir hún það einnig hafa verið verulega krefjandi á köflum.

Með mörg spennandi verkefni í Kubuneh

Frá því Þóra tók við rekstrinum hefur heilsugæslan tekið miklum framförum, en strax í upphafi tók Þóra ákvörðun um að öll innkoman úr versluninni færi í að reka heilsugæsluna og verkefni tengd henni. Í búðinni starfa einungis sjálfboðaliðar og því er enginn aukalegur kostnaður við verslunina nema örlítil færslugjöld af posanum, en Þóra á bæði posann og húsnæðið svo hún borgar ekki leigu og leggur sjálf út fyrir öllum rekstrarkostnaði.

„Við höfum tekið allt rækilega í gegn og framkvæmt mjög mikið því verslunin gengur rosalega vel. Við höfum fest kaup á tveimur sjúkrabílum og með því fært þjónustuna upp á hærra plan. Ég hef einnig opnað saumastofu þar sem m.a. eru saumuð fjölnota dömubindi sem stúlkur fá í blæðingafræðslu á okkar vegum, en rúmlega 2.200 stúlkur hafa notið góðs af því verkefni,“ segir Þóra.

Saumastofan í Kubuneh.
Saumastofan í Kubuneh.

Þóra er með mörg spennandi verkefni í gangi í þorpinu og stefnir á að opna bakarí þar núna í febrúar Í maí á síðasta ári byrjaði hún með styrktarbörn í Kubuneh. Börn sem hafa misst foreldri eða búa við mikla fátækt, en í dag eru styrktarbörnin orðin 35 talsins.

„Við höfum einnig verið að hjálpa fötluðum manni, honum Musa, að eignast heimili. Reyndar eiga fylgjendur Kubuneh Verslunar á Instagram og Facebook stærstan þátt í því en þeir hafa lagt til peninga sem hafa verið notaðir til að byggja nýtt hús fyrir Musa. Svo styrkjum við fótboltalið í þorpinu og svo hef ég persónulega verið að styrkja plast endurvinnsluverkefni sem er verið að koma á laggirnar í öðru þorpi. Ég stefni svo á að koma því til Kubuneh,“ útskýrir hún.

„Samkenndin verður svo djúp þegar maður hefur upplifað og skilið …
„Samkenndin verður svo djúp þegar maður hefur upplifað og skilið allar þær áskoranir sem fylgja daglegu lífi.“

„Ég hefði alveg getað sagt „nei ég get þetta ekki““

Þóra segir verkefnið hafa opnað fyrir sér algjörlega nýjan heim, en það hafi bæði verið ótrúlega gefandi og krefjandi. „Að fá svona tækifæri upp í hendurnar, segja já við því og fá æskudrauminn uppfylltann er tilfinning sem ekki er hægt að lýsa. Ég hefði alveg getað sagt „nei ég get þetta ekki“ og lifað áhyggjulausu, rólegu og þægilegu lífi. En þá fengi ég ekki alla þessa hlýju í hjartað, ég hefði ekki kynnst öllum góðu konunum sem hjálpa mér með búðina, læknunum og hjúkrunarfræðingunum sem hafa gefið tímann sinn og komið með mér til Kubuneh frá Íslandi til að gera faglegt starf á heilsugæslunni betra.

Ég hefði ekki kynnst öllu starfsfólkinu á heilsugæslunni og eignast vini í Kubuneh. Maður hefur svo gott af því að kynnast því hvernig fólk lifir annars staðar og átta sig á hvað við tökum mörgu í okkar lífi sem sjálfsögðum hlut,“ segir hún.

Eftir að Þóra tók við rekstrinum hafa tveir sjúkrabílar verið …
Eftir að Þóra tók við rekstrinum hafa tveir sjúkrabílar verið keyptir og segir Þóra það hafa fært þjónustuna upp á hærra plan.

„Það hefur verið rosalega gefandi að finna og átta sig á hvað þessi litla heilsugæsla skiptir svakalega miklu máli í lífi margra. Fyrstu sjúklingurinn sem var fluttur með sjúkrabílnum okkar var t.d. þriggja vikna gömul stúlka sem var eitt kíló og mikið veik þegar hún kom til okkar. Að fá svo að fylgjast með henni vaxa og dafna er ómetanlegt,“ segir Þóra.

„Frá því ég kynntist Ousman sem rekur heilsugæsluna hefur hann gift sig og eignast barn þannig að Kubuneh fjölskyldan mín er alltaf að stækka. Ég vissi bara ekki að manni gæti þótt svona vænt um annað fólk fyrir utan sína eigin fjölskyldu og vini,“ bætir hún við.

Þó svo Þóra hafi upplifað margt frábært í Kubuneh hefur hún einnig upplifað hræðilega hluti þar. „Það er hræðilegt að vita til þess að sjúklingar neiti að fara frá okkur og á stærri spítala því þar er ekkert til – ekki lyf, ekki sprautur, ekkert. Læknar stela lyfjum af sjúkrahúsum til að selja sjálfir og sjúklingar eru lagðir inn af ástæðulausu til að ná af þeim peningum,“ segir hún.

„Ég hef farið og skoðað stærsta ríkisrekna spítalann í Gambíu, en ég fór þangað með fulla ferðatösku af sáraumbúðum og nýjan súrefnismettunarmæli og það var slegist um þetta. Þar horfði ég á deyjandi konu bundna niður í rúm á meðan starfsfólkið sat í miðju herbergi hlæjandi af einhverju í símanum. Þar var líka nýbura gjörgæsla með 29 vöggur en 49 börn og lífsmörk tekin á þriggja klukkustunda fresti,“ bætir hún við.

Eftir að hafa séð og áttað sig á hvernig heilbrigðiskerfið virkar eða virkar ekki segist Þóra verða áhygjufull ef einhver nákominn henni í Kubuneh veikist. „Það er mjög erfitt að sætta sig við að ófrískar konur ráði ekki yfir eigin líkama. Ef kona þarf blóðgjöf eða keisaraskurð þá er það ekki gert nema með samþykki eiginmannsins. Í síðustu ferð kom kona inn á heilsugæslu sem átti stutt eftir af meðgöngunni, en hún hafði ekki farið í neitt mæðraeftirlit eða sónar af því að maðurinn hennar trúði ekki á svoleiðis. Hún var svo lág í blóði að hún var í lífshættu,“ rifjar hún upp.

„Svo er allskonar sem læðist inn í hausinn á manni varðandi umhverfisáhrifin sem allir vita af en mörgum finnst ekki koma sér við, eins og hvað ef fólkið mitt fær ekki rigninguna sína sem það þarf til að rækta matinn sinn. Ég hef lært svo margt um neyslu og ruglið sem er í gangi og ég hef séð með eigin augum hvernig það teygir sig inn í garð hjá gamalli konu í Kubuneh. Ég hef upplifað og séð svo margt að ég mun aldrei geta snúið til baka,“ segir hún.

Daði eiginmaður Þóru í Kubuneh.
Daði eiginmaður Þóru í Kubuneh.

Hvað er framundan hjá ykkur?

„Eins og staðan er í dag þá eru fæðingar ekki leyfðar á heilsugæslunni í Kubuneh því við höfum ekki ljósmóðir. Einn af hjúkrunarfræðingunum okkar er hins vegar í ljósmóðurnámi á okkar vegum svo það styttist í að fæðingar verði leyfðar. Í næstu viku er ég að fara út með þrjár ljósmæður frá Íslandi sem ætla að vinna á annarri heilsugæslu. Þær ætla að ná sér í þekkingu og reynslu af því að taka á móti börnum í Gambíu áður en við opnum á fæðingar hjá okkur. Þetta eru ljósmæður frá Björkinni sem hafa boðist til að hjálpa mér að þróa fæðingarhjálp í Kubuneh. Við stefnum svo á að byggja okkar eigið húsnæði inn í þorpi þar sem við getum hýst sjálfboðaliða sem koma frá Íslandi.

Stóra markmiðið á svo alltaf að vera að gera heilsugæsluna sjálfbæra. Saumastofan, grænmetisræktun og bakaríið munu vonandi í framtíðinni hjálpa til við það. Mín verkefni verða þá að sjá til þess að allt gangi smurt fyrir sig og ef fleiri hugmyndir poppa upp að framkvæma þær.“

Óliver sonur Þóru með flottum hópi í Kubuneh.
Óliver sonur Þóru með flottum hópi í Kubuneh.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert