Fjör á frístundanámskeiðum í sumar

Þessir krakkar fóru á fjallahjólanámskeið síðastliðið sumar.
Þessir krakkar fóru á fjallahjólanámskeið síðastliðið sumar. Eggert Jóhannesson

Það verður vonandi skemmtilegt í sumar hjá íslenskum börnum á öllum aldri en þeim börnum sem búa á höfuðborgarsvæðinu og eru á „sumarnámskeiðaaldrinum“, oftast frá um það bil sex til fjórtán ára, býðst gríðarlegur fjöldi námskeiða í öllu mögulegu í sumar. Á frístundavef Reykjavíkur, www.fristund.is, bjóða 250 aðilar á öllu höfuðborgarsvæðinu upp á alls kyns námskeið; frístundanámskeið sveitarfélaga, boltanámskeið íþróttafélaga, útilífsnámskeið skátanna, siglingar, myndlist, reiðmennsku, forritun, leiklist, sjálfstyrkingarnámskeið, klifur og mörg fleiri. Það fer svo eftir stærð sveitarfélaga hversu mörg og hvort sumarnámskeið séu í boði á landsbyggðinni en fjölskyldum utan höfuðborgarsvæðisins er bent á vefsíður sveitarfélaganna fyrir nánari upplýsingar.

250 aðilar á öllu höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á alls kyns …
250 aðilar á öllu höfuðborgarsvæðinu bjóða upp á alls kyns námskeið, þar með talið bjóða nokkrir aðilar upp á námskeið í reiðmennsku. Styrmir Kári

Jóhanna Garðarsdóttir hjá ÍTR og umsjónarmaður frístundarvefjarins bendir á að allir sem halda sumarnámskeið fyrir börn geti fengið aðgang að vefnum til að kynna námskeið sér að kostnaðarlausu, nú þegar séu yfir 60 félög með aðgang og vonandi bætist fleiri við. Hún segir það algengan misskilning að vefurinn sé eingöngu fyrir sumarnámskeið. Svo er ekki, námskeið eru einnig í boði fyrir börn á veturna en þau eru að detta út um þessar mundir og sumarnámskeiðin flest komin inn.

„Undanfarin ár hefur úrval námskeiða aukist mjög mikið og það getur því verið hálfgerður höfuðverkur að finna réttu námskeiðin fyrir börnin. Bæði er mikið framboð af ólíkum námskeiðum og oft nokkrir námskeiðshaldarar með svipuð námskeið,“ segir Jóhanna.
Kostnaðurinn við námskeiðin er eins misjafn og þau eru mörg. Jóhanna segist ekki fá gögn af frístundavefnum um hvernig námskeið foreldrar velji fyrir börnin eða samsetningu þeirra fyrir sumarið. Hins vegar eru námskeiðin á ólíku verði og í sumar hafi hún í fyrsta sinn séð námskeið á vegum Hjálpræðishersins sem verður ókeypis.

Skátarnir halda úti fjölbreyttum útilífsnámskeiðum.
Skátarnir halda úti fjölbreyttum útilífsnámskeiðum. Skapti Hallgrímsson

„Önnur breyting sem við sjáum núna er að fólk er almennt að skrá börnin sín töluvert fyrr en áður. Fyrir ekki svo mörgum árum var fólk að skoða þetta í lok maí eða jafnvel síðar en fólk sýnir almennt meiri fyrirhyggju nú en áður, segir Jóhanna.


Þegar frístundavefurinn er skoðaður má almennt má segja að námskeið á vegum sveitarfélaganna, ýmiss konar námskeið á vegum íþróttafélaganna og útilífsnámskeið á vegum skátanna séu í ódýrari kantinum en svo eru önnur sem eru dýrari og fjölmörg í eins konar milliflokki verðlega séð. Þannig getur verið skynsamlegt, ef fjármunir foreldra gefa tilefni til, að leyfa barninu að velja sér eitt draumanámskeið og velja önnur ódýrari samhliða ef fjölskyldan hefur þörf fyrir að hafa barnið á fleiri en einu námskeiði í sumar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert