Kennarar verða líka fyrir einelti

60% tilvika um einelti meðal kennara eru ekki tilkynnt (myndin …
60% tilvika um einelti meðal kennara eru ekki tilkynnt (myndin er úr myndabanka)

Hvernig líður kennurum í vinnunni? Verða þeir fyrir einelti, kynferðislegri áreitni eða eru þeir beittir ofbeldi? Þetta var meðal þeirra spurninga sem vinnuumhverfisnefnd Kennarasambandsins lagði upp með þegar hún fékk Hjördísi Sigursteinsdóttur, aðjunkt viðskipta- og raunvísindasviðs HA, til samstarfs við sig.

Hjördís lagði könnun fyrir félagsmenn Kennarasambandsins og tæplega 49% þeirra svöruðu könnuninni. Markmiðið var að kanna í hversu miklum mæli kennarar lentu í ofangreindum atvikum á vinnustað. Í ljós kom að rúmlega 10 prósent félagsmanna Kennarasambandsins hafa orðið fyrir einelti á vinnustað á síðustu tveimur árum. Tæp tvö prósent hafa orðið fyrir kynferðislegri áreitni, rúm þrjú prósent fyrir kynbundinni áreitni og um fimm prósent fyrir hótunum  eða líkamlegu ofbeldi í störfum sínum.

Það sem vekur sérstaka athygli er að mikill meirihluti þessara mála, eða rúm 60%, er aldrei tilkynntur.

Hjördís segir það hafa verið eftirtektarvert hversu fáir kennarar tilkynna eineltið og hversu mörgum málum hafi ekki verið fylgt eftir. Það kom einnig í ljós að stjórnendur innan Kennarasambandsins vissu frekar hvert ætti að tilkynna eineltið en hinn almenni kennari. Aðrar rannsóknir meðal hinna ýmsu starfsstétta sýna að 6-20% starfsmanna verða fyrir einelti á vinnustað og því er ljóst að hlutfall félagsmanna KÍ fellur þar innan marka. 

Rúmlega 10 prósent félagsmanna Kennarasambandsins hafa orðið fyrir einelti á …
Rúmlega 10 prósent félagsmanna Kennarasambandsins hafa orðið fyrir einelti á vinnustað á síðustu tveimur árum (myndin er úr myndabanka).

Rannsóknin sýndi einnig að það voru einkum samstarfsmenn og stjórnendur sem voru gerendur í eineltismálunm en aðrir, einkum nemendur og foreldrar, sem höfðu beitt ofbeldi eða haft uppi hótanir gagnvart kennurum. 

„Það er umhugsunarvert að kennarar skuli ekki vera betur upplýstir varðandi einelti gagnvart sjálfum sér en þetta er sá hópur fólks sem meðhöndlar einelti nemenda. Ég veit að í kjölfar könnnarinnar ætlaði Kennarasambandið að bæta þar úr og vera með markvissa fræðslu og upplýsingar fyrir félagsmenn sína,“ segir Hjördís að lokum. 

Grein þessi er byggð á grein í Skólavörðunni. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert