Gleðilegan alþjóðadag fjölskyldunnar!

Í dag er alþjóðlegur dagur fjölskyldna
Í dag er alþjóðlegur dagur fjölskyldna

Í dag er Alþjóðlegur dagur fjölskyldunnar en Sameinuðu þjóðirnar tileinka málefnum fjölskyldunnar árlega einn dag sem er 15. maí í þeim tilgangi að vekja athygli á mikilvægi ýmissa mála er tengjast fjölskyldunni sem og mikilvægi fjölskyldunnar sjálfrar í samfélögum þjóða heims. Þrátt fyrir að fjölskyldugerðir um allan heim hafi breyst mikið á undanförnum áratugum, vegna lýðfræðilegra breytinga og alþjóðlegrar þróunar, þá líta Sameinuðu þjóðirnar svo á að fjölskyldan sé ein af grunneiningum samfélaga um víða veröld. 

Alþjóðlegur dagur fjölskyldna veitir samfélögum tækifæri til að efla fræðslu og vitund um málefni sem tengjast fjölskyldum og auka þekkingu á félagslegum, efnahagslegum og lýðfræðilegum ferlum sem hafa áhrif á þær.

Í mörgum löndum er þessi dagur nýttur til að vekja athygli á áhugaverðum viðburðum og mikilvægi fjölskyldna og fagnar Fjölskyldan á mbl.is því. Þema ársins 2018: „Fjölskyldur og þátttaka allra í samfélaginu".

Samfélög út um allan heim beita ólíkum aðferðum til að framfylgja fjölskyldustefnu fyrir samfélags án aðgreiningar. Víða er lögð áhersla á þátttöku ólíkra fjölskyldna og/eða einstaklinga eins og farandverkafólks eða frumbyggjafjölskyldna, þjóðernishópa eða fjölskyldna þar sem fjölskyldumeðlimur er með fötlun. Á öðrum svæðum er lögð áhersla á félagslega vernd fyrir viðkvæmar fjölskyldur til að auðvelda þeim fulla þátttöku í samfélaginu.

Áskoranir samfélaga eru ólíkar og er deginum ætlað að vekja athygli á hlutverki fjölskyldna og fjölskyldustefna víða um heim í ólíkum löndum í þeim tilgangi að efla samfélög og fjölskyldur án aðgreiningar. Annað markmið dagsins er að skoða hlutverk fjölskyldna í þeirri vegferð að efla sjálfbæra þróun og stuðla að friðsamlegum og ánægjulegum samfélögum með sjálfbæra þróun þeirra í huga.

Meira um Alþjóðlegan dag fjölskyldunnar á vef Sameinuðu þjóðanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert