Vélmenni rýfur einangrun veikra barna

Líklega velkist enginn í vafa um að fjölmörg störf sem …
Líklega velkist enginn í vafa um að fjölmörg störf sem fólk sinnir í dag eigi eftir að hverfa á næstu árum þegar vélar og vélmenni taka þau yfir. mbl.is/Thinkstockphotos

Líklega velkist enginn í vafa um að fjölmörg störf sem fólk sinnir í dag eigi eftir að hverfa á næstu árum þegar vélar og vélmenni taka þau yfir. Því er spáð að sjálfkeyrandi bílar leysi atvinnubílstjóra af hólmi, vélar muni sauma fötin okkar og vélmenni bera fram mat á veitingastöðum sem vélar hafa matreitt. En þó fáir efist um að alltaf verð þörf fyrir kennara gæti það gerst að í skólastofunum verði vélmenni í stað nemenda. Raunar er það þegar farið að gerast.

Í vefútgáfu Guardian birtist um miðjan ágúst umfjöllun um norska nýsköpunarfyrirtækið „No Isolation“. Í greininni er talað við Karen Dolova, einn stofnanda fyrirtækisins, þar sem hún segir að margir hönnuðir leggi megináherslu á að hanna og framleiða svalar eða „cool“ vörur. Þar liggi áhugi hennar ekki, heldur hafi hún og félagar hennar ákveðið að reyna að bæta aðstæður og líf langveikra barna. Eitt af því sem reynist þessum börnum erfitt er að veikindunum fylgir oft á tíðum félagsleg einangrun. Börnin séu vegna veikinda sinna oft í litlum eða engum tengslum við jafnaldra sína. Þau geti vissulega stundað nám en þau félagslegu tengsl sem skólagöngunni fylgja séu hins vegar ekki til staðar. Þessu vildu Dolova og félagar hennar breyta – lausnin sem þau hafa nú kynnt til sögunnar er „félagsvélmenni“ sem þau kalla AV1.

En þó fáir efist um að alltaf verð þörf fyrir …
En þó fáir efist um að alltaf verð þörf fyrir kennara gæti það gerst að í skólastofunum verði vélmenni í stað nemenda. Raunar er það þegar farið að gerast. mbl.is/Thinkstockphotos


Vélmennið er ekki stórt, smíðað úr plasti, hvítt á litinn og svolítið eins og gripið út úr vísindaskáldsögu. Það er hannað til að sitja á borði veikra nemenda í skólastofunni og vera þar bæði augu þeirra og eyru. Barnið situr heima eða á spítalanum og tengist vélmenninu í gegnum til dæmis spjaldtölvu eða fartölvu. Þar með getur barnið fylgst með öllu því sem fram fer í skólastofunni. Ef barnið vill spyrja kennarann spurningar blikkar blátt ljós á vélmenninu og ef það vill ekki trufla kennslustundina er hægt að láta vélmennið hvísla.
Fátt í þeirri tækni sem er notuð við að smíða AV1 er nýtt, en hugmyndafræðin er það vissulega.

Vélmennið fær góðar viðtökur

Miðað við þær viðtökur sem vélmennið hefur fengið gæti það haft veruleg áhrif á líf þeirra sem því er ætlað að aðstoða. Sem eru ekki aðeins börn því fyrirtækið sér fram á að með vélmenninu verði mögulega hægt að draga úr einangrun eldri borgara og annarra sem af einhverjum ástæðum eru félagslega einangraðir. Í umfjöllun um fyrirtækið á BBC World Service fyrr í mánuðinum kom þó fram að vélmennið er helst keypt af skólum og sveitarfélögum til að aðstoða langveika nemendur við að stunda nám sitt.


Rúmlega 200 AV1 vélmenni eru nú í notkun í Skandinavíu en auk þess eru nokkur slík að finna í Hollandi og eitt í Bretlandi. Dolova gerir hins vegar ráð fyrir að þeim fjölgi hratt á næstu mánuðum og að á bilinu tvö til fjögur þúsund verði í notkun að ári liðnu.

Fjölskyldan á mbl.is er í samstarfi við Skólavörðuna vegna greina og frétta um skólamál. Grein þessi birtist fyrst á vef Skólavörðunnar skolavardan.is 27. september 2017.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka